29.05.1933
Neðri deild: 86. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2423 í B-deild Alþingistíðinda. (3772)

93. mál, ábúðarlög

Sveinn Ólafsson:

Við fyrri hl. þessarar umr. var brtt. mínum á þskj. 766 andmælt af frsm. landbn. og hæstv. atvmrh. Ég get nú ekki verið að gangast gegn andmælum þeirra í einstökum atriðum, vegna þess að mér er óljúft að tefja tímann með því, enda andmælin flest léttvæg. Ég veit líka, að svo er ástatt um marga hv. þdm., að þeir eins og ég vilja nú orðið vinna flest til að losna héðan svo fljótt sem nokkur kostur er á. — Ég get sagt það yfirleitt um frv., að eins og það nú horfir við í heild og allt er í pottinn búið, þá væri langheppilegast, að það bíði betri tíma og fengi rækilega athugun á næsta eða síðari þingum. Engin aðkallandi þörf er fyrir afgreiðslu þess nú. Það er óneitanlegt, að með þessu frv. er verið að leggja hyrningarsteininn að breyttri þjóðfélagsskipun, þ. e. a. s. kommúnistiskri þjóðfélagsskipun. En svo óhönduglega hefir þó tekizt til fyrir höfundum þessa frv., að hljóti það samþykki, þá verður ríkið að losa sig við jarðeignir sínar. Að þessu leyti er það antikommúnistiskt og brýtur meginregluna, því að kommúnistar vilja leggja allar eignir undir ríkið. Ef því rússneska stefnan ryður sér hér til rúms, eins og frv. stefnir að, þá verður að gerbreyta þessari lagasetningu bráðlega, til þess að ríkið nái jörðunum aftur. Ef þetta verður að 1., og þeir menn, sem eiga jarðir, verða á þann hátt, sem frv. ráðgerir, sviptir umráðarétti þeirra, þá mun fljótlega verða gengið lengra og röðin koma að öðrum eignum. Allar jarðir verða teknar, húseignir og öll stærri atvinnutæki, allt lagt undir umráð ríkisins, ella verður ekkert samræmi í löggjöfinni. Ég mun nú ekki fara langt inn á þetta efni að öðru leyti. Ég sé, að nokkur hluti landbn. hefir borið fram brtt. á þskj. 839, og snerta þær aðeins að litlu leyti brtt. mínar. Sú fyrsta, sem er við 2. gr. frv., kemur að vísu nokkuð á móti þeim í einu fremur óverulegu atriði. En samningatilraun þessi er svo afslepp og lítilsverð, að ég tel ekki að henni neina réttarbót. Öll tilslökunin er það, að n. vill sætta sig við, að hámark fleytimagns jarða í eins manns ábúð verði 46 í stað 36 kúgildi. Að öðru leyti gengur n. framhjá öllum annmörkum 2. gr., sem ég minntist á við fyrri umr. og legg hér til að lagaðir verði. En þeir annmarkar, sem eru á 2. og 3. gr., eru svo stórvægilegir, að hneyksli valda. Sú takmörkun, sem þar er gerð á umráðarétti landeigenda yfir jarðeign, er svo hastarleg, að nálgast eignarrán. — Þess hefir nú verið leitað, að ég tæki aftur till. mínar til samkomulags við n. En ég verð að segja, að þar sem hún býður ekki neitt á móti, sem lítandi er við, þá tel ég það frágangssök að verða við slíkri ósk. Ég get ekki heldur talið eftir hv. þdm. að fella brtt. mínar, ef þeir svo vilja. Það er ekki til of mikils mælzt, að þeir greiði um þær atkv. Engin brú verður byggð milli mín og n. til samkomulags með brtt. hennar á þskj. 839. Tilslakanir hennar þar eru aðeins til málamynda og að þeim engin bót. Um þær skal ég ekki ræða margt og vil ekki eyða tíma í það að óþörfu. En ég álít, að heillavænlegast væri, að svona róttækt mál fengi að bíða. Að vísu væri freistandi að taka upp til athugunar nokkurn hluta andsvara þeirra hv. frsm. og hæstv. atvmrh. En þó skal ég ekki gera mikið að því.

Hv. frsm. tók það fram og lagði áherzlu á, að hann teldi það óheppilegt, að einstakir menn ættu leigujarðir. Vildi hann, að ríkið hefði allar jarðir í sínum höndum, sem vitanlega er hreinn kommúnismi, en jafnframt taldi hann sjálfsagt að hafa erfðaleigu á jörðum. Ég felli mig vel við erfðaleigu á þjóðjörðum og hygg hana til bóta. En hv. frsm. virðist ekki hafa veitt því eftirtekt, að ef frv. þetta verður að lögum eins og það er nú, þá hlýtur að fara svo, að ríkið missi tangarhald á öllum sínum jarðeignum, þeim, sem það nú leigir. Til þess að ná því marki, að ríkið eignist jarðirnar, verður fljótlega að breyta þessum lögum, ef þau ná lögfestingu. Kjör þau, sem það ætlar jarðeigendum, leiða auðsæilega til þess, að ríkið verður jafnt sem einstakir menn að losa sig við jarðeignirnar, heldur en að sæta þeim ókjörum, sem frv. boðar og ætlar landeigendum. Ég held líka, að hv. frsm. gefi ekki gætur að því, að með samþykkt frv. hlýtur svo að fara, að jarðeignir falli í verði. En að því hygg ég, að þjóðfélaginu verði lítil stoð. Þegar svo hefir verið búið um með 1., að ekki verður eftirsóknarvert að eiga jarðir eða arðsvon af slíkri eign, en eigendum búnar þungar búsifjar og áhætta af ráðstöfun óviðkomandi manna á þeim, þá er bert, að jarðirnar hljóta að falla í verði vegna aukins framboðs og minnkandi eftirspurnar. Eigendur verða að losa sig við jarðirnar heldur en að sæta þeim afarkostum, sem frv. býður upp á. Fer þá í öfuga átt við það, sem flestir myndu ætla um verðhækkun lands, og hygg ég, að margir verði sammála mér um það, að nær liggi að gefa hvöt til landnáms en draga úr henni, að gera það eftirsóknarvert að eignast jarðir og auka verðmæti þeirra, með því að framkalla með umbótum þau ónotuðu auðæfi, sem í skauti þeirra felast. Að því ber að keppa að gera jarðirnar eftirsóknarverðari í augum almennings en þær hafa nú um hríð verið.

Ég skal þá ekki fara lengra út í þetta mál að sinni. Ég tek með rósemi þeim afdrifum, sem brtt. mínum eru búin. Þær eru vænlegri til sæmilegra úrslita þessa máls en frv. Því verður ekki alstaðar með fögnuði tekið um landið, ef þær verða felldar, og þótt svo kunni að fara, þá veit ég, að efni þeirra kemur fram síðar og skilst þá betur en nú.