18.04.1933
Neðri deild: 52. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (3806)

137. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Vilmundur Jónsson:

Það var ekki rétt, sem hv. frsm. sagði, að þetta frv. væri flutt til þess að undanþiggja jafnan kvikmyndasýningar, sem bæjarfélög standa fyrir, skemmtanaskatti, heldur því aðeins þá, er ágóðanum er öllum varið til menningarmála, og er ráðh. ætlað að hafa eftirlit með því, að þess sé að fullu gætt.

Ég hjó eftir því, að hv. þm. N.-Ísf. mælti það, sem mun vera almennt álit hv. dm., að ekki hafi verið heppilegt að taka þennan gjaldstofn af bæjarfélögunum. Og ég vil þá mega ætlast til, að bæði hann og aðrir hv. dm. vilji höggva skarð í þann órétt, sem bæjunum hefir verið gerður, og samþ. þetta frv.

Ég vík að því í grg., að nokkur ástæða er til að ætla, að bæjarfélög muni hafa hærra markmið en einstakir menn með rekstri kvikmyndahúsa. En hinsvegar mundi ég ekki vera á móti því, að frv. yrði breytt á þann hátt, að þessi fríðindi næðu líka til annara rekenda kvikmyndahúsa, sem hefðu það markmið að afla fjár einungis í því skyni að verja því til almennra menningarmála. Ég gæti t. d. hugsað mér, að góðgerðarfélag tæki að sér að reka kvikmyndasýningar og vildi verja öllum ágóðanum í guðsþakkarskyni. Teldi ég þá sanngjarnt, ef svo stæði á, að láta það njóta sömu fríðinda og í frv. er ákveðið um kvikmyndahús, sem rekin eru af bæjarfélögum og binda ágóðann á þann hátt, sem þar greinir.