18.04.1933
Neðri deild: 52. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (3807)

137. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það er gamalt deilumál hér í þessari d., hvort rétt sé að taka þessar tekjur af sveitar- og bæjarfélögum. Það er ekki það, sem kemur hér til greina. Það má líka deila um það, hvernig ætti að beita heimild skemmtanaskattslaganna, þegar um er að ræða, að féð gangi annaðhvort til þjóðleikhúss eða menningarstarfsemi á þeim stað, þar sem féð er innheimt.

En nú hefir verið breytt til, og þessum skatti er ætlað að vera ríkistekjur, og ég vona, að það verði svo framvegis. Á þessu þingi koma ekki sömu undanþágur til greina í þessu efni eins og áður en núv. skipulag hófst. Stj. óskar þess, að skemmtanaskatturinn megi, eins og verið hefir, renna óskertur í ríkissjóð enn um nokkurn tíma.

Annað mál er það, hvernig rétt kunni að vera að úrskurða um þann skatt, sem féll í gjalddaga áður en ríkið tók þennan skatt í sinn eigin sjóð, fyrir 1. júlí síðastl. Ég get f. h. stj. lofað hv. flm. því einu, að taka þá hlið málsins til nánari athugunar. En á meðan þessi skattur á að renna í ríkissjóð og tímarnir eru svo erfiðir sem nú, mun stj. veita sem allra fæstar slíkar undanþágur, þó að heimild sé fyrir því í l.

Mín till. er því sú, að frv. verði ekki samþ.