18.04.1933
Neðri deild: 52. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (3809)

137. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Vilmundur Jónsson:

Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir hans vinsamlegu orðum, að stj. muni taka til athugunar, hvernig sanngjarnt sé að úrskurða um þann skatt, sem féll í gjalddaga fyrir 1. júlí síðastl. og ágreiningur hefir orðið um. En að öðru leyti vil ég gera þá aths. við ræðu hans, að ástæða er til að taka tillit til þess, að það er aðeins bráðabirgðafyrirkomulag að láta skemmtanaskattinn renna beint í ríkissjóð. En þetta frv., sem ég flyt hér, er frv., sem ég ætlast til, að verði að 1. fyrir framtíðina. Ég vona fastlega, að það fyrirkomulag haldist ekki lengi, að skemmtanaskatturinn verði tekinn til beinnar eyðslu ríkisins, heldur verði honum innan skamms og síðan jafnan framvegis varið til einhvers sérstaks menningarmáls. Vænti ég þess, að hv. þdm. geti fallizt á að samþ. þetta litla frv. Hér er hvort sem er ekki um annað að ræða en lítilræði á mælikvarða ríkissjóðs, sem hann engu munar.