29.04.1933
Neðri deild: 61. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (3817)

169. mál, einkennisbúninga og önnur einkenni

Steingrímur Steinþórsson:

Hv. fyrri flm, er ekki viðstaddur, svo ég verð að hlaupa í skörðin og segja nokkur orð um frv. það, sem hér liggur fyrir. Mun að mestu nægja - að vísa til grg. Tilgangur frv. er, eins og það ber með sér, að banna það, að notaðir séu einkennisbúningar eða sérstök merki í þágu ákveðinna stjórnmálaskoðana og stjórnmálaflokka. Það hefir verið svo um okkur Íslendinga, að við höfum lítið skreytt okkur með einkennisbúningum og enginn hermennskuandi verið ríkjandi með þjóð okkar hinar síðustu aldirnar. Ég hygg, að það muni vera almenn skoðun okkar á meðal enn, að það muni lítið efla þroska okkar eða gengi á nokkurn hátt, þótt slíkar venjur yrðu teknar upp. Nú er farið dálítið að bóla á því hér að nota merki, og jafnvel ef til vill búninga að einhverju leyti, í þágu sérstakra stjórnmálaflokka. Það er ekki ástæða til að æsa upp hugi manna með því að bera utan á líkama sínum tákn um, að menn fylgi sérstökum stjórnmálaflokki, sem hæglega getur orðið til að æsa upp, einkum óþroskaða unglinga, sem þykir mjög mikið varið í að skreyta sig með slíkum búningum eða merkjum, enda þótt þeir hafi enga ákveðna sannfæringu um þá stefnu, sem merkið táknar. Ef börn innan við fermingu fara að bera slík merki, tel ég það öfgar, sem vart er hægt að líða.

Við flm. lítum svo á, að setja beri skorður við þessu strax, áður en þessi ófögnuður nær meiri útbreiðslu, því að réttara sé að byrgja brunninn áður en barnið fellur í hann. Einkum teljum við hættulegt, ef óþroskaðir unglingar af ungæðisskap og æfintýralöngun lenda inn á þessar brautir, og getur það með öðru orðið til þess að skipa þeim í sveit ýmissa öfgastefna, sem nú er svo mikið af bæði hér heima og erlendis.

Ég sé ekki ástæðu til að fara frekar inn á að ræða þetta mál, nema ef umr. gefa tilefni til.

Um form frv. vil ég taka það fram, að við flm. erum fúsir til breyt. á því, ef ástæða þykir til, einkum í samráði við hæstv. dómsmrh. Formsatriði frv. er okkur flm. ekki mest áhugamál, heldur hitt, að hindra útbreiðslu notkunar á einkenningsbúningum sem tákn sérstakra stjórnmálaskoðana, sem að okkar álíti getur aukið ófriðarhættu í landinu. Við Íslendingar höfum ekki reynslu um þetta enn sem komið er, en aðrar þjóðir hafa orðið að grípa til þess að gera slíkar ráðstafanir sem í frv. getur, vegna þess að svo mjög hefir borið á óeirðum í sambandi við það, að ýmsir stjórnmálaflokkar hafa komið einkennisbúnum sveitum upp, sem stundum er notað sem árásarlið eða til varnar eftir ástæðum.

Að svo mæltu óska ég, að hv. dm. leyfi málinu að ganga til 2. umr. og að því verði vísað til allshn.