29.04.1933
Neðri deild: 61. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í C-deild Alþingistíðinda. (3818)

169. mál, einkennisbúninga og önnur einkenni

Jóhann Jósefsson:

Það er efalaust góður tilgangur hv. flm. með þessu frv. En ég vil, út af því, sem tekið er fram í grg. um samskonar bann í Danmörku, benda á það, að þar horfir þetta nokkuð öðruvísi við heldur en hér á landi. Öllum er það vitanlegt, okkur hér líka, að suðurlandamæri lands þeirra er þeim viðkvæmt mál, eins og líka norðurlandamæri Þýzkalands eru Þjóðverjum viðkvæmt mál. Nú horfir þetta svo við, að Danir álíta sér mikla hættu stafa af þjóðernishreyfingunni í Þýzkalandi og þeim mönnum í Slésvík, sem fylgja þessari hreyfingu. En þessi hreyfing hyllir þá stefnu, sem Danir eru hræddir við, að landamærin þarna breytist á ný. Þetta mun nú vera aðalundirrót þess, að Danir hafa amazt við því, að teknir séu upp þessir einkennisbúningar hjá stjórnmálaflokkum. Hér á landi bólar ekki á neinu, sem á skylt við þetta. Það er ekki vitanlegt, að hér séu neinir flokkar, sem tekið hafa upp að nota einkennisbúninga. Hitt er vitanlegt, að fánanælur og tákn og merki hafa sumir stjórnmálaflokkar haft hér á landi, án þess að mönnum hafi dottið í hug að amast neitt við því fyrr en nú. Það er einkennilegt, að nú skuli vakna mótmæli gegn þessu, þar sem nú er að rísa þjóðernishreyfing, sem vill hrinda óheillavænlegum, erlendum stjórnmálaskoðunum af höndum okkar. Ef hægt væri að koma í veg fyrir alla æsingu í stjórnmálum með því einu að banna mönnum að bera nælu í hnappagatinu, þá væri það góðra gjalda vert að gera það. En slík bönn geta því miður aldrei verið nein lækning á stjórnmálaæsingum.

Í 2. gr. frv. stendur, að þeim, sem þegar hafa helgað sér slík merki, skuli verða leyft að nota þau áfram. Það er vitanlegt, að til eru stjórnmálaflokkar hér á landi, sem hafa helgað sér ákveðin merki um langt skeið, og eftir þessu ættu þeir að fá að halda sínum merkjum, en þeim, sem hefja vilja baráttu í andstöðu gegn þeim, er gert erfiðara fyrir. Ég vil benda hv. flm. á það, að ef það er höfuðtilgangur þeirra með frv. að forða árekstri milli stjórnmálaflokkanna í landinu, þá er þetta ekki öruggasta meðalið til þess.

Ég tók eftir því, að hv. þm. var í ræðu sinni að tala um hættu á því, að unglingar innan við fermingu væru dregnir í dilk sérstakra stjórnmálaflokka. Þetta hefir átt sér stað um langt skeið, sérstaklega hjá kommúnistum. Ég get tekið undir það með hv. þm., að þetta er mjög ámælisvert. En bann gegn einkennismerkjum er ekki öruggasta ráðið til að halda æsingamönnum í skefjum, heldur hitt, að ríkisvaldið sé nægilega öflugt til þess að geta kveðið niður þá, sem ekki vilja þola lögin. Það eina, sem getur hamið þá, sem á annað borð vilja nota ófrið og æsingu, er nógu sterkt lögregluvald. Um það býst ég við, að hv. flm. geti verið mér sammála. Öll lagaboð um þessi efni eru gagnslaus, svo fremi, sem ekki er til nægilega öflugt framkvæmdavald til þess að framfylgja þeim, og alveg sama gegnir um frv. það, er hér liggur fyrir. Það mun á engan hátt geta komið í veg fyrir árekstra á milli hinna æstu flokka. Ég mun þó greiða því atkv. til 2. umr. og n., með því líka að ég á sæti í n. þeirri, sem fær það til meðferðar. Mér þótti rétt að láta þetta koma fram strax, til þess að hv. flm. vissi afstöðu mína til málsins.