12.05.1933
Neðri deild: 72. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í C-deild Alþingistíðinda. (3828)

169. mál, einkennisbúninga og önnur einkenni

Jón Auðunn Jónsson:

Ég verð að segja, að það brá undarlega við, þegar þetta frv. kom fram. Ég býst við, að því hafi valdið hreyfing sú, sem kölluð hefir verið þjóðernishreyfing Íslendinga og fyrir skömmu er hafin hér í Rvík og e. t. v. víðar á landinu. En ég hygg, að sú hreyfing sé harla léttvæg ástæða fyrir því að bera fram slíkt frv. sem þetta, nema þá ef ganga á svo langt að banna mönnum að nota íslenzka fánann á mannfundum, eins og hv. jafnaðarmenn hafa nú flutt till. um. Ég skil vel þann óróa, sem gripið hefir hv. 2. þm. Reykv. og flokksbræður hans, því öllum, sem einhverja þjóðernistilfinningu hafa, hlýtur að leiðast að ganga undir erlendum merkjum, þegar þeir sjá aðra samtímis ganga undir þjóðfána sínum. Þess vegna vill nú hv. 2. þm. Reykv. banna öðrum að ganga undir þjóðfánanum og nota hann við fundahöld. En hinsvegar finnst mér hann ekki geta vænzt þess, að Alþingi fallist á að banna Íslendingum að nota sinn eigin fána. Það væri nær fyrir hann að leggja niður hinn útlenda rauða fána og taka upp íslenzka fánann. Enn er öllum Íslendingum heimilt að nota hann, og ég vona, að Alþingi gangi aldrei inn á þá braut að banna mönnum að ganga undir íslenzka fánanum hvar sem er, þegar menn aðhafast ekki annað en það, sem lög leyfa.

Ég er hv. þm. Barð. sammála um það, að erfitt gæti orðið að neita mönnum um að ganga undir félagsmerkjum og fánum í skrúðgöngum og kröfugöngum. Slíkt hefir þegar tíðkazt alllengi, án þess till. hafi komið fram um að banna það. E. t. v. vilja nú sócialistar vinna til að leggja niður sín merki, til þess að kommúnistar missi sín merki líka. Væri vel farið, ef þeir af fúsum vilja og innri þjóðernishvöt vildu hætta að veifa þessum rauðu dulum.