12.05.1933
Neðri deild: 72. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í C-deild Alþingistíðinda. (3831)

169. mál, einkennisbúninga og önnur einkenni

Héðinn Valdimarsson:

Mér finnst hart að fá ekki að svara hv. þm. Str., sem bað um orðið á undan mér, en verð líklega að láta mér það lynda.

Þeir hafa verið bæði margorðir og harðorðir, sjálfstæðisþm., eins og venjulegt er. Hv. þm. N.-Ísf. talaði um, að rauði fáninn væri erlent merki. Honum er nú e. t. v. nokkuð fyrirgefandi, hvað hann segir um slíka hluti, vegna þess hvað lítið skynbragð hann ber á þá. Eins og kunnugt er, þá er rauði fáninn merki alþjóðlegrar stefnu, sem á fylgjendur í öllum löndum. Hann er ekki fremur erlendur en íslenzkur, því hann er alþjóðlegur. Það mætti eins segja, að merki kirkjunnar, krossmerkið, væri útlent merki; það er alþjóðlegt merki alveg eins og rauði fáninn.

Þeir, sem mest hafa hreykt sér undir íslenzka fánanum nú og misnotað hann í flokksþágu, eru þessir „þjóðernissinnar“, eins og þeir kalla sig. Hreyfing þeirra er nývöknuð hér. Hafa þeir nú gefið út fyrsta blað sitt. Í því er bæði klám og guðlast, svo falleg er nú stefnan, sem þeir vilja hafa þjóðfánann að tákni fyrir. (ÓTh: Eru þeir nú farnir að guðlasta í blöðunum!). Þeir, sem forgöngumenn þessarar hreyfingar hér á landi hafa tekið sér til fyrirmyndar, eru þeir, sem nú elta menn uppi í Þýzkalandi og drepa þá á laun, taka verkamenn, sócialista og kommúnista og varpa þeim í fangelsi í þúsundatali, pynda þá og drepa. þeir virðast jafnvel láta sér annara um þjóðfána sinn heldur en þeir tveir hv. þm., sem hér töluðu síðast. Það kom í útvarpsfregn hér, að Hitlersmaður einn hefði staðið upp og mótmælt því, að ríkisfáninn þýzki væri notaður í leikriti einu, vegna þess hvað það væri lélegt. Hvað ætli sá maður hefði sagt, ef ríkisfáninn hefði verið borinn á undan æpandi strákaskríl, sem veður um göturnar í þeim tilgangi að berja menn niður fyrir það að hafa aðrar skoðanir. Það væri þá betra að hafa engan þjóðfána heldur en að misnota hann þannig.

Við jafnaðarmenn erum eins og kunnugt er miklu betri Íslendingar heldur en þeir, sem kalla sig sjálfstæðismenn. Ég man þá stund 12. júní 1912, þegar við íslenzku stúdentarnir, sócialistarnir ekki síður en hinir, rifum niður danska fánann hjá föður hv. þm. G.-K., vegna þess að hann vildi ekki draga hann niður þegar aðrir hófu íslenzka fánann á stöng í mótmælaskyni við danska herskipið, er hafði gert íslenzkan fána upptækan á Rvíkurhöfn. Sá atburður sýndi ásamt öðru, að þjóðernistilfinningin á ekki djúpar rætur í brjóstum hinna hálfdönsku uppskafninga hér á landi. Í hinum svokallaða Sjálfstfl. er fullt af mönnum, sem þannig hafa komið fram í sjálfstæðismálum þjóðarinnar og fánamálinu, að beinlínis er til skammar. Menn muna framkomu þeirra í sambandsmálinu 1918. Og síðast en ekki sízt má minna á norska samninginn, þar sem hv. þm. G.-K. gekk í broddi fylkingar við að veita útlendingum þau mestu réttindi, sem þeim hafa verið veitt hér á landi. Þessir menn vilja telja sig hina einu og sönnu sjálfstæðismenn og ganga um bæinn undir íslenzka fánanum, eins og hann væri þeirra flokksmerki. Með því finnst mér fánanum gerð svo mikil svívirðing, að ég get ekki skilið annað en allir utan þessa flokks geti fallizt á að banna slíkt athæfi.

Hv. þm. Vestm. vildi láta líta svo út, að með till. okkar ætti yfirleitt að banna Íslendingum að nota fána sinn. Það er síður en svo. Mönnum á aðeins að vera óheimilt að nota fánann sem sérmerki til þess að fegra með honum ófagran stjórnmálaflokk. Hvar sem menn mæta annarsstaðar en á stjórnmálafundum eða stjórnmálagöngum mega menn auðvitað nota íslenzka fánann óhindrað.

Viðvíkjandi fjárframlögum til stjórnmálaflokka þarf ég ekki margt að segja. Það er öllum kunnugt, að jafnaðarmönnum allan heim standa saman í baráttunni fyrir sinni stefnu og þeir styrkja hverjir aðra þegar þeir geta. Því fylgja engin skilyrði um það að semja réttindi af þjóð sinni, eins og hv. þm. G.-K. hefir unnið að og hv. þm. Vestm. greitt atkv., þó hann talaði móti því í d. Jafnaðarstefnan er þess eðlis, að flokkar hennar í ýmsum löndum geta vel unnið saman. Alþýðan í öllum löndum hefir sömu hagsmuna að gæta sameiginlega gegn yfirstéttunum. En hver alþýðufl. fyrir sig er öðrum óháður fyrir því. Öðru máli er að gegna þegar útlendingar, sem atvinnurekstur hafa í einhverju landi, leggja þar fram stórfé í pólitískum tilgangi, bókstaflega til að efla sína eigin hagsmuni, eins og þegar Morgunblaðið var stofnað hér. Þá er ekki hægt að segja, að verið sé að efla neina alþjóðlega stefnu; það eru aðeins hagsmunir útlendra fjárplógsmanna, sem um er að ræða. Og starfsemin fyrir hið erlenda fjármagn hefir verið allstór liður í baráttu Sjálfst.fl.

Ég þykist vita, að sjálfstæðismennirnir, sem svo kalla sig, íhaldsmennirnir íslenzku, berjist fast fyrir því að fá að nota íslenzka fánann áfram á sama hátt og þeir hafa gert, t. d. á kosningabíla sína og handa þessum nazistaskríl sínum, sem þeir hafa til að ganga hér um göturnar. Þeir vilja í friði fá að setja merki þýzku harðstjóranna, þórshamarinn, fyrir ofan sjálfan fánann á stöngina, sem getur orðið til þess, að aðrir fái ógeð á öllu saman, og er þá illa farið.