12.05.1933
Neðri deild: 72. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í C-deild Alþingistíðinda. (3834)

169. mál, einkennisbúninga og önnur einkenni

Steingrímur Steinþórsson:

Ég ætla ekki að ræða um það atriði, sem aðallega hefir hleypt hita í þessar umr., brtt. hv. jafnaðarmanna um bann gegn misnotkun íslenzka fánans. Mun ég sleppa framhjá mér að koma inn í þær deilur, en lofa þeim aðilum einum að bítast um það.

Aðalmótbárurnar, sem fram hafa komið gegn frv. sjálfu, voru í ræðu hv. frsm. í gær og í ræðum hv. þm. Str. og hv. þm. V.-Húnv. nú. Mesta áherzlu skildist mér hv. frsm. leggja á það, hvað erfitt mundi að framfylgja ákvæðum frv. um bann gegn einkennisbúningum. Það er nú svo um mörg lög, að segja má, að erfitt sé að framfylgja þeim að fullu. Og það er engin fullgild mótbára gegn lagaákvæðum, þó ekki sé hægt að fyrirbyggja, að þau verði brotin. En ég hygg, að ekki yrði svo mjög erfitt að framfylgja ákvæðum þessa frv., ef stjórnmálafélögin sjálf og stjórnir þeirra væru látin vera ábyrg fyrir því, ef þau væru brotin af félögum þeirra eða flokksmönnum. Það mundi verða sá spori, sem kæmi í veg fyrir, að lögin yrðu brotin í stórum stíl. Mætti vel taka til athugunar að bæta inn í frv. einhverjum ákvæðum í þá átt fyrir 3. umr.

Hv. þm. Str. talaði um, að við værum að apa upp eftir Dönum, og hér væri þó gerólík aðstaða. Það skal að vísu játað að vissu leyti, að sambúðin við Þjóðverja á suðurlandamærunum gerir aðstöðu Dana í þessu efni verri en okkar. Mun það hafa ýtt undir þessa lagasetningu þeirra og gert það að verkum, að hún var drifin gegnum þingið á einni nóttu. En það kemur skýrt fram í umr. um málið í danska þinginu, að sambúðin við Þjóðverja var ekki eina ástæðan. Allflestir stjórnmálaflokkar í Kaupmannahöfn, þrír eða fjórir, voru búnir að koma sér upp einkennisbúningum, og einkennisbúnar sveitir úr stjórnmálaflokkunum voru farnar að ganga um göturnar og valda óeirðum. Um það þarf ekki að þrátta, að ef uppþot verða á annað borð, þá verða þau miklu hættulegri þegar einkennisbúnum flokkum lendir saman heldur en ef menn þekkja ekki sína menn frá andstæðingunum. (ÓTh: Ég held, að það geri ekki til, þó eitt kjaftshögg lendi á skökkum manni). Það má vera, að hv. þm. G.-K. sé sama, hvort hann ber sína samherja eða andstæðinga sína. En flestir munu þannig gerðir, að þeir vilja vinna fyrir sitt málefni, og ef til óeirða kemur, dregur það úr þeim, ef þeir vita ekki, hvort höggin lenda á sínum mönnum eða andstæðingunum. Um þetta þarf ekki að deila. Það vita allir, að göngur einkennisklæddra flokka auka æsingu og skapa möguleika til upphlaupa. Á því og engu öðru byggist frv., sem hér liggur fyrir. Það má vera, að ekki sé þingvilji fyrir því nú, að það nái fram að ganga. En það er spá mín, að til slíkra ráðstafana verði þá gripið síðar, í sambandi við óeirðir, sem ég því miður er hræddur um, að verði óumflýjanlegar hér sem annarsstaðar á næstu árum. Og það ber vott um litla framsýni hjá hv. þm. að vera frv. andvígir nú, því fyrir slíka hluti, sem hér er um að ræða, er betra að taka í tíma, áður en þeir hafa náð mikilli útbreiðslu eða alvarlegar óeirðir hafa brotizt út í sambandi við það, að þingið þekkir ekki sinn vitjunartíma, að taka í taumana áður en veruleg hætta er á ferðum.

Ég tala ekki um þetta í sambandi við neina sérstaka menn eða sérstaka stjórnmálaflokka, heldur skoða ég það algerlega almenns eðlis, til þess að fyrirbyggja eða draga úr möguleikum fyrir því, að alvarlegir atburðir gerist þegar ólga kemur í flokkana og ólíkar stefnur þeirra rekast hastarlega á, eins og vitað er, að þegar hefir orðið hér á landi. Ástandið í þessum efnum er nú orðið það ískyggilegt, að það er full ástæða til að draga úr hættunni eins og hægt er, og ég hygg, að hér sé um einn möguleika að ræða. Hv. þm. V.-Húnv. sló þessu öllu upp í grín. Ég get því ekki tekið hans ræðu alvarlega, því hún er alls ekki svaraverð. Í henni var engin heil hugsun. Hann var að tala um, að það ætti að banna blá verkamannaföt og gerði mikið gys að, hvílík fjarstæða það væri. Það er vitanlega sjálfsagt að banna blá verkamannaföt, séu þau notuð sem einkennisföt, í kröfugöngum og áflogum. Það er einmitt það, sem á að gera, að banna hverskonar einkenni, sem notuð eru til þess að sérkenna stjórnmálaflokka, hvort sem um blá verkamannaföt er að ræða eða eitthvað annað. Annars sýndi hv. þm. það, eins og ég hefi tekið fram, að hann skilur ekki nokkurn skapaðan hlut í málinu, eða vill ekki skilja það. Till. hv. þm. Str. um að vísa málinu til stj. er ég algerlega mótfallinn. Ég vænti, að d. geti fallizt á að lofa frv. að fara til 3. umr., og skal ég vera fús til samvinnu um brtt. við það fyrir þá umr.