12.05.1933
Neðri deild: 72. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í C-deild Alþingistíðinda. (3837)

169. mál, einkennisbúninga og önnur einkenni

Héðinn Valdimarsson:

Mér skilst, að þm. Vestm. hafi beint þeirri fyrirspurn til mín, hvort óeirðirnar 9. nóv. síðastl. hefðu stafað af einkennisbúningum. Ég hefi ekkert talað um einkennisbúninga í sambandi við þetta mál. Ég hefi aðeins talað fyrir þeirri brtt., sem ég hefi flutt við frv., og ég mun greiða henni ásamt frv. atkv. til 3. umr.

Óeirðir geta risið út af fleiru en einkennisbúningum, en þær minnka ekki við, að andstöðuflokkarnir hafi hver sinn einkennisbúning. En ef lögreglan hefði ekki 9. nóv. verið einkennisbúin, þá hefði hún ekki orðið eins fyrir barðinu á verkamönnunum og hún varð. Annars hélt ég, að allir vissu um ástæðurnar fyrir óeirðunum 9. nóv. Þær voru eingöngu hið lélega stjórnarfar hér í bænum - um það verður rætt síðar hér í þessari d. -, þegar meiri hl. bæjarstj. hugðist að svipta bláfátæka verkamenn með ofbeldi, þá, sem lægstu launin höfðu, þriðjungi af þessu lága kaupi, sem þeir höfðu. Óeirðirnar stöfuðu af því, að bæjarstj. vildi ekki hætta við þetta óheyrilega áform sitt. Þær eru algerlega eðlileg afleiðing af þeirri óstjórn, sem ríkir í flokki þm. Vestm., óstjórn, sem fólkið vildi mótmæla þegar lögreglan réðst á það. Ástæðurnar fyrir óeirðunum 9. nóv. voru því gefnar af flokki þm. Vestm., sem auk þess er fulltrúi einvaldskúgaranna þýzku hér á landi og stuðningsmaður og ráðunautur skoðanabræðra þeirra hér á landi, fasistanna íslenzku.