12.05.1933
Neðri deild: 72. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í C-deild Alþingistíðinda. (3838)

169. mál, einkennisbúninga og önnur einkenni

Hannes Jónsson:

Af því þetta er síðasta mál á dagskrá og nokkuð eftir af fundartíma, þá finnst mér það ekki saka, þó um það verði eitthvað meiri umræður heldur en því hæfir í raun og veru.

Úr því að hv. frsm. meiri hl. hélt því fram, að ég bæri lítið skynbragð á þessa hluti, þá skal ég að vísu játa, að ég er heldur fákunnandi í þessum efnum, en þó er það sérstakt, hvað ég á ákaflega erfitt með að samræma skoðanir hans, sem koma fram hér í umr., við ákvæði 2. gr. frv., því þar er beint sagt, að félög, sem helgað hafi sér merki áður en frv. þetta kom fram, skuli óáreitt fá að halda þeim framvegis. (StgrS: Þetta er tómur misskilningur). Hvernig er sá misskilningur? (StgrS: Það er aðeins heimilað, ef merkið er ekki notað sem tákn sérstakra stjórnmálaskoðana). Þessi ákvæði standa skýrum stöfum í 2. gr., að þeir fái undanþágu, sem þegar hafa tekið sér upp merki. (JónasÞ: Vill hv. þm. ekki lesa 2. gr. til enda?). Hv. þm. Dal. er óhætt að trúa því, að þetta er rétt. (JónasÞ: Þessu verður útvarpað í kvöld). - Annars get ég ekki skilið þennan ótta við einkennisbúningana. Mér finnst einmitt öryggi í því, að óaldarflokkarnir séu merktir. Þá fengju þeir tækifæri til að klappa hver öðrum og njótast í friði (HG: Ætli þeir mundu ekki heldur njótast í ófriði?), en friðsamir menn fengju þá að vera óáreittir. Með bezta vilja til þess að skilja tilgang þessara manna hefi ég ekkert getað fundið út úr frv., er nokkur áhrif mundi hafa í þá átt að minnka ólætin. Hér hafa orðið alvarlegar óeirðir án allra ytri merkja eða tákna, og ég hefi meira að segja heyrt, að 9. nóv., þegar þær náðu hámarki hér á landi, þá hafi friðsamir menn, sem lentu í þvöguna, orðið fyrir óréttmætum árásum af hendi upphlaupsmannanna, og að þykkja hafi verið tekin upp fyrir þeirra hönd. Ef ómögulegt er að komast hjá því, að flokkar vilji afgreiða sín mál með höndum og bareflum, þá er bezt, að þeir útkljái þau sjálfir án þess að aðrir dragist inn í þá bardaga. Það er ekkert í frv., sem bendir til þess, að það leiði til meiri friðar meðal manna, þó merki séu bönnuð. Það gæti þá fyrst komið til mála um einhvern árangur af lögunum, ef menn væru skyldaðir til að klæðast einhverjum vissum litum, sem hefðu róandi áhrif á skap manna. Ég veit ekki, hvort rauði liturinn væri sá líklegasti. Ég hefi heyrt, að a. m. k. verki hann ekki vel á sumar stéttir manna. (HG: Hann verkar sérstaklega illa á vissar stéttir manndýra). Já, hann verkar illa á eina tegund húsdýra vorra, og má vel vera, að hann geti haft samskonar áhrif á suma menn. Annars verð ég að segja það, að mér þykir þetta frv. svo ómerkilegt, að ég get ekki einu sinni greitt því atkv. til stj., heldur vil ég fella það þegar í stað, því d. hefir margt þarfara að vinna en að fást við annað eins mál og þetta. Ég álít, að stj. hafi heldur ekkert með málið að gera. Hún hefir enga þörf á einkennisbúningum og getur unnið sín störf án þess að vera einkennisbúin.