27.05.1933
Neðri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

1. mál, fjárlög 1934

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég verð að segja, að d. hefir góða matarlyst, ef hún getur gleypt við þessu frv. eins og það liggur nú fyrir. En það er eins með þetta mál og sum önnur hér í þinginu, að það á ekki að gefa mönnum tækifæri til að athuga þau og færa í það horf, sem við megi una. Og ég hafði haldið, að það væri eitt af verkefnum þeirrar stj., sem nú situr, að reyna að sjá sæmilega borgið fjárhag lands og þjóðar, en það sést ekki, að hún sé á neitt sérstaklega glæsilegum vegi í þá átt með því að ganga að þessu frv. eins og það liggur fyrir. Bæði hv. frsm. fjvn. og hæstv. fjmrh. sýnast nú ekki sérstaklega ánægðir yfir þessu frv. Þeir viðurkenna, að það sé svo að segja ómögulegt í mörgum greinum, og samt sem áður er þróttleysið á svo háu stigi hjá þessum þm. og vantrúin svo rótgróin, að þeir trúa ekki á tilraunir til þess að færa það í eitthvert skárra horf, sem við megi una. Tekjuhallinn er orðinn ½ millj. kr. og vantar inn í þá málsgr. alla niðurstöðu 22. gr., og hvað ætli það sé mikið á aðra millj.? Ég hefi ekki reiknað það út, en n. hefir sjálfsagt gert það, því að sennilega hefir fjvn. gert ráð fyrir því, hve miklar greiðslur ríkissjóður verður að inna af hendi, og hverjar tekjur hann fær eftir þessu frv. Og hversu mikið er það ekki, sem verður að greiða fyrir utan það, sem stendur í fjárl. Á ég þar við greiðslur samkv. sérstökum lögum, sem nema mörgum hundruðum þúsunda. En auk þess munu vera í þessu frv. eins og h. u. b. öllum fjárl.frv., sem fyrir þinginu hafa legið, að ýms útgjöld eiga eftir að hækka frá því, sem hér er áætlað, og það ekki um smávægilegar upphæðir, ef að vanda lætur. Ég skal játa það og viðurkenna, að tekjuhlið þessa frv. er eins og venja hefir verið varlega áætluð, og sumar tekjugreinarnar fara sennilega fram úr áætlun. Þó eru gerðar nokkrar hækkanir á frv. að þessu leyti við 3. umr. í Ed. Nú hefir það verið viðkvæði hjá öllum, sem minnzt hafa á þessa hluti, að nauðsyn væri á og að þinginu bæri skylda til þess að ganga svo frá fjárl., að sómasamleg niðurstaða fengist. En nú get ég búizt við, að það, sem hyggt er á, séu þau tekjuaukafrv., sem fyrir þinginu liggja. En af því að ég hefi ekki fengið tækifæri til þess að athuga þetta rækilega og sýna fram á það með rökum, sem ég hygg, að niðurstaðan muni verða, ef þetta frv. verður samþ. óbreytt: að stórkostlegur greiðsluhalli verði á árinu, og af því að ég hefi ekki vegna þess mikla annríkis, sem verið hefir Undanfarna daga, getað dregið saman þau rök, sem eiga að geta sýnt þetta nokkuð nákvæmlega, þá vildi ég mælast til þess, að frekari umr. um þetta mál yrðu dregnar til mánudags. Ég álít, að það sé ekki svo þýðingarlaust, hvernig fjárl. eru afgreidd, að það eigi að horfa í það að fresta afgr. fram yfir helgina. Þó að ég ætli ekki að fara inn á nein einstök atriði við 22. gr., sem ég tel vera langathugaverðasta í frv., þá vil ég þó benda á, að í henni felast þær till., sem skapa mjög varhugavert fordæmi og nauðsyn er að taka út úr frv., ekki eingöngu vegna upphæða, sem þær hafa að geyma, heldur vegna þess fordæmis, sem þær óneitanlega munu leiða af sér fyrir framtíðina. Ég skal taka t. d. — og munu menn þá segja, að ég höggvi á því, sem minnst er —, að hér er um fjárveitingu að ræða til þess að kaupa listaverk. Ef á að fara að veita fé til þess sérstaklega í fjárl., fram yfir þær ráðstafanir, sem gerðar eru í þessum efnum með menningarsjóði, þá sé ég ekki annað en að komið sé út á algerlega ófæra braut. Hér í þessu frv. er till. um að veita ríkisábyrgð fyrir rekstrarfé einstaks fyrirtækis. Þetta er óforsvaranleg braut inn á að ganga. Ef farið er að gera þetta fyrir eitt fyrirtæki, koma önnur á eftir. Það er ekki nóg að veita styrki, lán og ábyrgðir til þess að koma fyrirtækjunum á stað, heldur á einnig að veita ábyrgð ríkissjóðs til þess að reka þessi fyrirtæki. Þarna er gengið út í þær öfgar, að ómögulegt verður fyrir þingið að halda þessu áfram, en það verður örðugt að standa á móti því, þegar einu sinni er gengið inn á þessa braut. Ég tala nú ekki um till. eins og þá, að veita ábyrgð fyrir um 350 þús. kr. láni til þess að reisa síldarverksmiðju á Seyðisfirði. Ég hélt, að ríkið hefði nokkurnveginn nóg með að reka þessa síldarbræðslustöð, sem það hefir á Siglufirði, ef það kynni nú líka að kaupa eða leigja aðra stöð þar til þess að starfrækja á næsta sumri. Sem sagt, af því að ég hefi ekki getað aflað mér þeirra gagna, sem nauðsyn ber til þess að hefja rökstuddar umr. um þetta málefni, þá vil ég eindregið mælast til þess, að þetta a. m. k. annað stærsta mál þingsins verði ekki dregið svo áfram í gegnum þessa umr., að ekki gefist tækifæri til þess að bera fram brtt. við frv. og rökstyðja það, að þær brtt. verði að samþ.