12.05.1933
Neðri deild: 72. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í C-deild Alþingistíðinda. (3842)

169. mál, einkennisbúninga og önnur einkenni

Steingrímur Steinþórsson:

Það eru aðeins örfá orð út af seinni ræðu hv. þm. V.-Húnv. Hann gat ekki betur sannað það, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, en hann gerði nú, að hann hefir ekki kynnt sér þetta frv. áður en hann fór að dæma um það. Hv. þm. heldur, að 2. gr. tryggi það, að hver sá stjórnmálaflokkur, sem búinn er að helga sér merki eða búning þegar frv. verður að lögum, geti óáreittur haldið því og notað í pólitískri starfsemi sinni framvegis. Þetta er svo mikil vitleysa, að hún nær vitanlega ekki nokkurri átt. Það er sagt í þessari sömu 2. gr., að félög megi halda sínum merkjum áfram, er þau hafa áður haft, ef notkun þeirra kemur ekki í bága við ákvæði 1. gr., en þar er tekið fram, að enginn megi nota merki eða einkenni sem tákn sérstakra stjórnmálaflokka eða skoðana. Í raun og veru er ekki ástæða til að segja neitt fleira um þetta atriði. Ég vil aðeins taka það fram út af ræðu hv. þm. Vestm., að það er fyrst og fremst nauðsynlegt að geta haldið óeirðunum í skefjum, og ég er honum sammála um það, að þjóðfélagið þarf að hafa afl til slíkra hluta, en nauðsynlegast af öllu er að geta búið svo um hnútana, að sem minnst afl þurfi til þess, og enginn hefir mótmælt því, að einkennisbúningar hefðu þau áhrif að auka þá hættu, að óeirðir brjótist út, og því er nauðsynlegt að banna þá eins og allt annað, sem gefur tilefni til þess, að hættan verði meiri. Og með tilliti til lögreglufrv. vil ég segja það, að þó lögreglan verði eitthvað aukin, þá á sú löggjöf fyrst og fremst að stefna að því að minnka ófriðarhættuna hvar sem er. Okkar löggjöf verður vissulega að stefna að því, að ekki þurfi her manns til þess að halda óeirðum í skefjum, heldur verði svo stýrt, að ekki þurfi til slíkra óyndisúrræða að grípa.