12.05.1933
Neðri deild: 72. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í C-deild Alþingistíðinda. (3844)

169. mál, einkennisbúninga og önnur einkenni

Frsm. minni hl. (Bergur Jónsson):

Hv. 1. þm. Skagf. hnekkti engu af því, sem ég sagði í gær um það, að frv. þetta mundi reynast erfitt í framkvæmd og mundi ekki ná þeim tilgangi, sem ætlazt væri til í grg. þess. Hann benti á þá leið til að koma í veg fyrir brot gegn þessum lögum, að sekta þau félög, sem stæðu að ólöglegri notkun einkennisbúninga. Ég held satt að segja, að slíkt ákvæði gerði ekki mikið gagn. Fyrst og fremst er það, að erfitt gæti orðið að sanna það, þó einhverskonar merki hefðu verið notuð í óeirðum og upphlaupum. Í öðru lagi hefði það lítið að segja eftir á, þó einstök félög yrðu sektuð eftir að þeir atburðir hefðu gerzt, sem einkennisbúningarnir hefðu orsakað.

Brtt. jafnaðarmanna get ég ekki greitt atkv. þó ég hinsvegar viðurkenni, að það sé leiðinlegt, ef sérstakir stjórnmálaflokkar taka upp á því að nota þjóðfánann sem sitt sérmerki, en við því er þá það ráð, að allir flokkar taki upp sama sið; ef þeir viðurkenna fánann, þá hættir hann af sjálfu sér að vera sérmerki vissra flokka.

Þó sá tilgangur þessa frv. að draga úr ófriðarhættu sé auðvitað góður, þá get ég ekki séð, að í frv. felist nokkur trygging fyrir því, að þeim tilgangi verði náð. Ég get ekki séð, að bardagarnir yrðu á nokkurn hátt hættuminni, þó menn séu ekki einkennisbúnir. Það kom oft fyrir í bardögum til forna, að liðsmönnum lenti saman innbyrðis, af því þeir þekktu ekki hvorir aðra. Slíkt kæmi ekki fyrir, ef menn væru einkennisbúnir. Þá yrðu bardagarnir skipulegri og menn berðu þó ekki á öðrum en óvinum, og má ætla, að hvorumtveggja væri það ljúfara.