30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

1. mál, fjárlög 1934

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það er ekki vonum fyrr, að þetta mál kemur hér til umr. Ég hafði búizt við, að málið yrði afgreitt hér á fundinum í gær, en þá var það tekið út af dagskrá og svo sett aftur á dagskrá í dag, sem 10. mál. Það er kominn af því mesti skriðurinn sem var, þegar átti að fella það af á nokkrum mínútum fyrir helgina. En það verður nú að taka því, sem orðið er í þessu efni, enda hefi ég sniðið þær brtt. á þskj. 836, sem ég flyt við frv., einmitt með tilliti til þess, að breyt. á fjárl. yrðu ekki meiri hér í Nd. en svo, að gera mætti ráð fyrir því, að Ed. vildi taka við þeim þannig breyttum, svo að þessi afgreiðsla þyrfti á engan hátt að verða til þess að tefja þingstörfin.

Eins og tekið var fram þegar málið var fyrst á dagskrá við þessa einu umr., þá er tekjuhalli fjárl. ½ millj. kr. Nú ætla ég að gera ráð fyrir því, að sú tekjulöggjöf, sem sennilega verður samþ. á þessu þingi og á að gilda, fyrir árið 1934, muni nokkurnveginn duga til þess að jafna þennan tekjuhalla. En þá eru eftir þær greiðslur, sem ekki eru teknar með í samanlagningu fjárl., og það eru fyrst og fremst greiðslur samkv. sérstökum lögum, sem gera má ráð fyrir, að geti undir engum kringumstæðum orðið minni en 400 þús. kr., og það eru greiðslur eftir heimildum, sem ég get ekki séð, ef þetta frv. verður samþ. óbreytt, að geti orðið mikið undir 600 þús. kr. Þá er þarna kominn 1 millj. kr. greiðsluhalli, sem næsta þing verður að sjá fyrir á einhvern hátt með bráðabirgðalöggjöf, eða þá að lausu skuldirnar verða að aukast. Ennfremur má gera ráð fyrir því, að útgjöldin í fjárl., sem eru að miklu leyti áætlunarupphæðir, muni fara fram úr áætlun, sem ég hygg að muni ekki verða minna en ½ millj. kr., og þó er tekið tillit til þess, að tekjurnar kynnu að fara eitthvað fram úr áætlun, en samt er greiðsluhallinn orðinn 1½ millj. kr. Ég hefi gert ráð fyrir því, að tekjurnar muni fara lítið fram úr áætlun, en af því að það hefir reynzt svo undanfarin ár, að tekjurnar hafa farið mikið fram úr áætlun, og með því að svo kann enn að fara, þá vil ég rökstyðja þessa skoðun mína nokkuð nánar og miða við þá útkomu, sem var á fjárl. síðastl. ár.

Þá er það fyrst tekjuliður 2. gr. Það er fasteignaskatturinn. Hann er áætlaður 370 þús. kr. en reyndist 371 þús. kr. Þó var hann reiknaður út eftir hinu nýja mati, það getur því ekki komið til mála, að þessi tekjuliður fari fram úr áætlun. Tekju- og eignarskatturinn er áætlaður 1 millj. kr., en hann var á síðastl. ári 1350 þús. kr., en þar í var 25% viðaukinn á þessum skatti, svo að hann hefir í raun og veru ekki orðið nema 1070 þús. kr. Árangurinn af þessum tekju- og eignarskattsauka verður vitanlega sá, að hækkunin hlýtur að hafa áhrif á tekju- og eignarskattinn í ár, svo að það verður að reynast talsvert miklu betra yfirstandandi ár heldur en árið 1931, til þess að þessi liður fari fram úr áætlun.

Lestagjaldið er áætlað hér um bil eins hátt, og reyndist um 70 þús. kr. Aukatekjurnar eru reiknaðar nærri eins háar og síðastl. ár, og eru litlar líkur til, að þær fari fram úr áætlun. Erfðafjárskatturinn nokkru hærri en hefir verið. Vitagjaldið lítilsháttar lægra heldur en síðastl. ár eða 58 þús. kr. En nú hefir þetta gjald verið lækkað samkv. lögum, sem samþ. hafa verið á þessu þingi, svo að það eru ekki miklar líkur til þess, að þessi liður fari fram úr áætlun. Þá er leyfisbréfagjaldið eins og það reyndist, og stimpilgjaldið nákvæmlega eins og það reyndist síðastl. ár, því er ekki ástæða til að ætla, að það fari fram úr áætlun. Skólagjöld eru reiknuð eins og síðastl. ár. Bifreiðaskatturinn er reiknaður 50 þús. kr. hærri en hann reyndist síðastl. ár. Má vera, að hann nái þeirri áætlun, vegna þess að l. um bifreiðaskatt giltu ekki allt síðastl. ár. Þó hefir orðið nokkur breyt. á þessari löggjöf á þessu þingi, sem hefir lækkandi áhrif á skattinn. Það má gera ráð fyrir, að þessi áætlun haldist nokkurnveginn, en það er ekki hægt að gera sér vonir um auknar tekjur frá því sem þarna er áætlað. Útflutningsgjaldið er reiknað 100 þús. kr. lægra heldur en það reyndist síðastl. ár. Þar getur verið að megi vænta einhverra aukinna tekna, en árið sem leið var flutt óeðlilega mikið út, nokkru meira en eðlilegt var, miðað við það, sem framleitt var á því ári, og mun það hafa stafað af því, að meira var flutt út af fyrra árs framleiðslu heldur en geymt var til næsta árs.

Áfengistollurinn er reiknaður eins og síðasta ár, og ég trúi því vart, að hann fari vaxandi, þar sem svo mjög fleygir fram kunnáttu manna á framleiðslu áfengis í landinu. Tóbakstollurinn er áætlaður 100 þús. kr. hærri en hann reyndist síðastl. ár. Hæstv. fjmrh. gerði ráð fyrir, þegar hann lagði fram fjárlagafrv., að vænta mætti nokkurrar hækkunar á þessum tekjulið frá því, sem hafði reynzt síðastl. ár, enda hefir verið tekið tillit til þess í fjárlagafrv. og þessi liður verið hækkaður um 100 þús. kr. Þessi von um aukningu á þessum tekjulið byggist á því, að nokkuð hefir verið óeðlilega flutt inn af þessari tollvöru 1931, vegna þess að lögin um tóbakseinkasöluna gengu í gildi þá um áramótin, og það hefir aftur valdið því, að nokkru minna hefir verið flutt inn á síðastl. ári. Fjmrh. gerði ráð fyrir því, að fyrir þessar ástæður mundi hækkunin nema 200 þús. kr., og þar er aðeins helmingurinn tekinn, enda er fullvíst, að svo miklu hefir þetta numið fyrir ríkissjóðinn eins og það er áætlað.

Kaffi- og sykurtollurinn er reiknaður 24 þús. kr. hærri í þessu frv. heldur en hann reyndist síðastl. ár, og ég hefi litla ástæðu til að halda, að óbreyttri löggjöfinni, að þessi tollur fari fram úr áætlun. Annað aðflutningsgjald er áætlað nokkru hærra, og eru ekki miklar líkur til, að það fari fram úr áætlun. Vörutollurinn er áætlaður eins og hann reyndist síðastl. ár, og eru litlar líkur til, að sá tekjuliður fari fram úr áætlun.

Verðtollurinn er reiknaður ¼ millj. kr. hverri en síðastl. ár. Þetta var annar liðurinn í fjárlagafrv., sem hæstv. fjmrh. gerði ráð fyrir, að mundi fara batnandi frá því sem var síðastl. ár, enda er gert fullkomlega ráð fyrir því, með því að hækka hann um ¼ millj. kr. Það getur því tæpast komið til mála, að þessi áætlun fari fram úr áætlun svo nokkru nemi. Ég vil auðvitað ekki slá því föstu, að þetta geti ekki orðið meira en þarna er áætlað, en það eru ekki nein rök, sem renna undir þá skoðun, sem hægt sé að telja óyggjandi. Þá kemur gjaldið af innlendum tollvörum. Það er áætlað á 220 þús. kr. og má gera ráð fyrir, að það sé á annað hundrað þús. kr. of hátt, en það er gert ráð fyrir honum svona háum til þess að jafna tekjuhallann á fjárl. ásamt bráðabirgðalöggjöfinni, sem er um tekjur ríkissjóðs næsta ár.

Með því að fara þannig gegnum þessa áætlunarliði og bera saman við reynslu síðustu ára, sé ég ekki, að komi fram nein veruleg aukning á tekjunum frá því, sem heildarniðurstaðan sýnir. Um aðra tekjuliði eða 3. gr. frv. er lítið að segja. Ég býst við, að hún standist nokkurnveginn. Hún er áætluð 130 þús. kr. hærri en reyndist að vera síðastl. ár, og ég get búizt við, að sú áætlun muni standast.

Um 4. og 5. gr. er lítið að segja. Ég geri ráð fyrir, að þær munu standast, nema kannske 4. gr., þar sem eru vaxtatekjurnar. Ég býst við, að þær verði nokkru lægri en áætlunin sýnir. Þá eru tekjuliðir frv. upp taldir, og hefi ég ekki komið auga á, að í þeim felist nokkur von um meiri tekjur heldur en áætlað er í frv.

Niðurstaðan fyrir þessar athuganir hefir orðið sú, að mér telst til, að 1½ millj. kr. vanti í ríkissjóðinn til þess að nokkurnveginn standist á tekjur og gjöld. En það er að því gætandi, að þó þessi tekjuhalli reynist nú svona, þá er hagur ríkissjóðs ekki þeim mun verri sem þessu nemur, því að þarna í eru innifaldar allar afborganir á skuldum ríkissjóðs, sem nemur um 900 þús. kr., svo beinn rekstrarhalli ætti ekki að verða yfir ½ millj. þó að þessar afborganir á föstu skuldunum yrðu til þess að auka lausu skuldirnar, þá er það ekki til þess, að hægt sé að segja, að hagur ríkissjóðs hafi versnað. En hitt er athugunarvert, að auka lausu skuldirnar frá því, sem nú er, því að þær höfðu vaxið árið 1932 um 1½ millj. kr. En hvað verða lausu skuldirnar miklu meiri á þessu ári?

Mér hefir skilizt, að tekjuaukalöggjöfin, sem nú liggur fyrir þessu þingi, og gera má ráð fyrir, að verði samþ., muni ekki nema meiru en því, að afborganir fastra skulda færist yfir í lausaskuldir.

Það er a. m. k. ein millj. kr., sem um er að ræða í viðbót við lausaskuldina á þessu ári, og þegar þar að auki bætast við lausaskuldir, sem námu í ársbyrjun 1932 yfir ½ millj., þá er í óefni komið, ef við þurfum að líta fram á árið 1934 með 1½ millj. króna í auknum lausaskuldum á herðunum. Ég vil taka það fram, að eitthvað má lækka þessa aukningu með því að samþ. ýms tekjuöflunarfrv., sem fyrir þinginu liggja, t. d. viðbótar-tekju- og eignarskattinn. En það mun hafa komið fyllilega í ljós, að þótt látið sé í veðri vaka, að þessi löggjöf eigi ekki að gilda nema fyrir þetta eina ár, þá hefir því mætt óánægja úr ýmsum áttum, og eins vel má búast við því, að ekki verði látið þar við sitja, heldur krefji nauðsyn, að það verði framlengt næsta ár, og mun þó ekki hrökkva til. Það er margt fleira athugavert við afgreiðslu þessara mála og þó að tekjuauki sé ríkissjóði nauðsynlegur, þá er þetta varhugaverð skattapólitík. Tekjur ríkisins hvíla þá að svona miklu leyti á bráðabirgðalögum, ½ millj. á yfirstandandi, önnur ½ millj. í auknum tekju- og eignarskatti og að auki ½ millj. Auknar tekjur eru þá hálf önnur millj. með bráðabirgðalögum og er þá ekki talinn hinn fyrirhugaði 25% gengisviðauki, sem ég veit ekki nákvæmlega, hve miklu muni nema, en ég hygg þó, að það sé milli 4 og 5 hundr. þús. Þetta er stefna, sem algerlega er óviðunandi að búa við, og það þarf áður en langt líður að koma þessu í réttlátt horf, og skattakerfið þarf að komast í fast og réttlátt horf. Hvers vegna er nú ríkið komið út á þennan hála ís? Til þess liggja tvennar orsakir. Fyrst og fremst er um það að kenna hinum erfiðu tímum, er við nú lifum á, en í öðru lagi er það þetta stefnuleysi, þessi lausgopaháttur, sem kominn er inn í afgreiðslu fjárl., algert skeytingarleysi um það, hvernig þau líta út þegar þau koma frá þinginu. Menn munu e. t. v. segja, að ég ætli heldur ekki að taka föstum tökum á þeim, ef litið er á mínar till. En ég hefi mesta tilhneigingu til þess, að 22. gr. verði alveg tekin út af I. En ég vissi hinsvegar, að það yrði ekki til annars en að tefja störf Alþ., því að Ed. mundi ekki láta á sér standa að setja inn aftur megnið af henni, ef ekki allt saman óbreytt. Till. mínar hafa ekki meiri lækkun að geyma en 160000 kr. í beinum útgjöldum á næsta ári, en þar í eru líka fólgnar upphæðir, sem greiðast eiga á næstu árum. Það er eitt, sem komið er inn í afgreiðslu fjárl., sem sífellt færist í vöxt með hverju ári, sem líður, og það eru hinar hóflausu ábyrgðir, sem ríkissjóður er látinn ganga í. Ég sé ekki, að þetta geti gengið svo til lengdar, að það verði ekki algerlega óviðunandi, að á hverju ári bætist við margar millj. Hve lengi þolir ríkissjóður, að hlaðið sé á hann þessum ábyrgðum? Og þetta er allt fyrir utan þær ábyrgðir, sem heimilaðar eru með sérstökum lögum á hverju þingi. Ég ætla ekki að fjölyrða um brtt. mínar, 8 þær fyrstu eru í sjálfu sér ekki stórvægilegar og eiga við ýmsar greinar fjárl., en 9—11 fara fram á niðurfellingu á heimild fyrir ríkissjóð til þess að kaupa bæði hús og jarðir, sem ég álít ekki, að ríkissjóði sé svo bráðnauðsynlegt að eignast, að því megi ekki fresta. Svo eru ábyrgðarheimildir fyrir sjúkrahúsbygging á Reyðarfirði, öldubrjót á Siglufjarðareyri, steinsteypuhús fyrir póst og síma á Húsavík, síldarbræðslustöð á Siglufirði og tunnuverksmiðju, sem fella skal niður. Ég skal fúslega játa, að þessum brtt. mínum mætti vel raða í flokka, sem ættu mismunandi rétt á sér, en ég hirði ekki um að fara út í þá sálma, því að ég veit, að það eru fleiri eða færri hv. þm. hér í d., sem finna sig knúða til þess að halda langar ræður, en ég held ekki, að umr. hafi nein afgerandi áhrif á úrslit þessa máls. Ég vil að lokum taka það fram, að ekki ein einasta af brtt. mínum fer fram á hækkun útgjalda, og hafði ég vænzt þess, að d. mundi skera niður útgjöldin sem mest hún mætti og sæi sóma sinn í því að koma ekki fram með neina hækkun. En ekki varð mér að þeirri von, því að ýmsir af hv. þm. hafa einmitt orðið til þess að fara fram á viðbót. Það er engu líkara en að þeim finnist þeim ekki bera skylda til að hafa hag ríkissjóðs í huga. Þeim finnst þeir hafa rétt til þess að hlaða á hann ábyrgðum og útgjöldum, án þess að nokkrir möguleikar séu fyrir hendi til þess að hægt sé að greiða úr þeirri flækju. Seinni tímar munu sjá það og sýna, hvort þessar skuldir verða léttar á metunum. Ég vona sem sagt, að hv. d. sýni einhvern lit á og vilja til að færa niður útgjöldin, og standi fast á móti öllum till., sem fara fram á hækkun þeirra.