05.05.1933
Efri deild: 64. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í C-deild Alþingistíðinda. (3896)

42. mál, eftirlit með sparisjóðum

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Ég er algerlega ósammála meiri hl. n. um það, að rétt sé að leggja þessa sýslan niður. Meiri hl. n. sendi fyrirspurn um þetta til tveggja af bönkunum. Ég get vel ímyndað mér, að margar þær stofnanir, sem eru undir eftirliti, mundu, ef þær væru um það spurðar, hafa einhverjar slíkar tilfinningar í brjósti, að þær kærðu sig ekkert um, að þessu eftirliti væri haldið áfram. Ég tel það lítilfjörlegt sönnunargagn, þó að stjórn banka hafi látið það í ljós, að hún kæri sig ekki um, að haldið sé áfram að hafa eftirlit með hennar gerðum, en þetta er þó eina upplýsingin, sem hv. meiri hl. byggir till. sínar á.

Mér sýnist, að hér eigi að leita upplýsinga á allt öðrum stað. Það ætti t. d. að spyrja þá menn, sem eiga innstæðufé í bönkum, hvort þeir óski eftir því, að það eftirlit, sem nú er samkv. l. með bönkum og sparisjóðum, verði burt numið. Ég er ekki í neinum vafa um, að þessir menn, sem eru þeir, sem hér eiga raunverulega hagsmuna að gæta, mundu frekar óska eftir auknu eftirliti heldur en að það yrði rýrt eða fellt burt.

Sú tilhögun, sem við höfum á þessu sviði, er sú sama og hjá nágrannaþjóðunum, og það eina, sem mér sýnist, að hægt sé að færa fram sem ástæðu fyrir því, að embættið sé lagt niður, er það, að þetta þyki of dýrt. Það er náttúrlega svo, að hér hjá okkur eru slíkar stofnanir færri og smærri en hjá nágrannaþjóðunum, og gæti því hugsazt sú mótbára, að þetta sé tæplega nóg verkefni fyrir einn mann á venjulegum tíma. Ég hefi því í nál, mínu leitt athygli að því, að ég telji fulla ástæðu til að auka verkefni eftirlitsmannsins, og þá fyrst og fremst þannig, að við hann sé bætt eftirliti með fjárvarðveizlu opinberra sjóða. Það eru ekki litlar eignir, sem teljast nú til opinberra sjóða. Munu þær nú nema a. m. k. á 2. millj. kr., t. d. sjóður Brunabótafélagsins, sem er einn af þeim stærstu, og í raun og veru er hann að því er lagaákvæði snertir undir ófullnægjandi eftirliti. Ég þarf ekki að telja upp aðra opinbera sjóði; menn vita, að þeir eru margir.

Þá vil ég benda á, að komið gæti til mála að fela þessum manni eftirlit á einu allmikilvægu sviði, þar sem okkur vantar stofnun tilsvarandi við það, sem nú er í nágrannalöndunum, og það er meðferð á ómyndugra fé. Hér á landi hefir ekki verið ennþá neitt fast skipulag á þeim málum, en í öðrum löndum eru sérstakar fjárráðastofnanir, sem ber skylda til að sjá um fé ómyndugra, nema þá að því hafi verið ráðstafað sérstaklega á einhvern annan hátt.

Ég tel því, að hér séu það mörg verkefni fyrir hendi, að full þörf sé á einum manni til að sinna þeim. Þessi verkefni eru meira að segja miklu meiri en svo, að rétt sé að leggja þau á einn mann, og er því auðvelt að bæta við starf þessa eina manns, ef mönnum virðist, að á venjulegum tímum sé það starf, sem hann hefir nú, ekki nægilegt einum manni. Ég er sannfærður um það, að menn mundu ekki una til lengdar þeirri skerðingu á tryggingunni fyrir varðveizlu á innlánsfé manna, sem það væri, ef 1. um eftirlitsmanninn með bönkum og sparisjóðum eru felld úr gildi. Í samræmi við þessa skoðun mína hefi ég leyft mér að bera fram svo hljóðandi rökstudda dagskrá á þskj. 537:

„Í því trausti, að ríkisstj. leggi fyrir næsta Alþingi till. um útfærslu á verksviði eftirlitsmannsins með bönkum og sparisjóðum, þannig að hann hafi einnig eftirlit með fjárvarðveizlu opinberra sjóða, tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá“.