05.05.1933
Efri deild: 64. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í C-deild Alþingistíðinda. (3912)

42. mál, eftirlit með sparisjóðum

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég vil vekja athygli á því, að hv. 5. landsk. blandar saman 2 óskyldum atriðum í þessu máli, hvort ástæða sé til að leggja starf bankaeftirlitsmannsins niður, og hinsvegar, að ég hafi vanrækt þetta starf. Er þetta tvennt mjög ólíkt. Hv. þm. sagði, að ef ég hefði unnið að þessu starfi eitthvað á hverjum degi, mundi engum hafa dottið í hug að bera fram frv. Í hinu orðinu segir hv. þm., að þetta starf sé gersamlega óþarft. Hvað skiptir það nú máli, hvernig ég hefi rækt þetta starf, úr því að hér er um tilgangslaust og þýðingarlaust verk að ræða?

Ég hefði haldið, að þessi hv. þm. hefði haft þau völd innan stj. meðan hann átti þar sæti, að honum hefði átt að vera auðvelt að segja mér upp starfinu, ef ég hefði vanrækt það. Hv. þm. er því hér í fullri mótsögn við sjálfan sig.

Hv. þm. var með bollaleggingar um það, hvernig ætti að vinna starfið. En ég get frætt hann um það, að það er mesti misskilningur, ef hann heldur, að slíkir eftirlitsmenn séu alla daga að endurskoða. Slíkt tíðkast hvergi. T. d. var það svo, er ég var í Kaupmannahöfn til að kynnast þessum málum, að þá voru engir sparisjóðir undir eftirliti, og það var aðeins gert fyrir mig, að eftirlitsmaður var sendur frá bankanum. Og þessu er ekki svo farið í Danmörku einni, heldur alstaðar um lönd. Hv. þm. getur auðvitað sett sig sem dómara um þetta, en ég leyfi mér að þykjast fullkomlega eins dómbær og hann um þessi mál.