05.05.1933
Efri deild: 64. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (3913)

42. mál, eftirlit með sparisjóðum

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Hv. frsm. meiri hl. hefir nú talað tvisvar, og hefir farið fyrir honum eins og vant er, ef hann fær að skeiða með laust beizlið, að hann hefir farið í kringum sjálfan sig og ratað í fyllstu mótsagnir. Hann taldi eftirlitið gott, en eftirlitsmaðurinn yrði að gefa sig við því allan ársins hring, að undanskildu sumarfríi. Með þessari yfirlýsingu hefir hann alveg kippt fótunum undan því meginatriði frv. síns, að leggja starfið niður. Ef eftirlitið væri alveg óþarft, kæmi í sama stað niður, hvort mikið eða lítið verk væri í það lagt. En sé starfið nauðsynlegt, eins og hv. þm. viðurkennir, en hinsvegar ekki nógu vel rækt, á auðvitað að skipta um þann mann, sem gegnir því, en ekki leggja það niður. Hv. þm. er því alveg kominn út fyrir grundvöll málsins, eins og hans var von og vísa.

Ég skal ekki fara út í það, hvernig eftirlitsmaðurinn hefir gegnt starfi sínu, en mér er kunnugt um það úr minni stjórnartíð, að hann hefir gert mikið gagn, og ég er þess fullviss, að ef starfið yrði lagt niður, myndi ekki líða á löngu áður en menn söknuðu þess. Hv. þm. sagði, að einhver banki hefði neitað að greiða fyrir starfið. Þetta er ásökun í garð stj. og ekki góð lýsing á þeim banka, er gert hefir sig sekan í slíkri vanrækslu, en það sannar ekkert um, að starfið sé óþarft.

Þá færði hann það gegn dagskrártill. minni, að á ferðinni væri till. um að leggja alla opinbera sjóði undir þjóðbankann. En nú er það svo um marga þessa sjóði, að fyrirmæli eru um stjórn þeirra í gjafabréfum, og ég tel það óforsvaranlegt að ganga á snið við þann vilja gefendanna, og tel, að samþykkt slíkra ákvæða, sem felast í till. þeirri, er hv. þm. nefndi, gæti hreint og beint orðið til þess, að menn hættu að gefa fé í slíka sjóði, ef þeir sjá, að vilja gefenda er svo traðkað. En hitt er rétt, að hafa gætur á, að stjórnendur sjóðanna misbrúki ekki sína stöðu. Því hefir hv. þm. ekki getað hnekkt því í dagskrá minni, að hafa þurfi eftirlit með opinberum sjóðum.