02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (3924)

42. mál, eftirlit með sparisjóðum

Jón Auðunn Jónsson:

N. lítur líkt á þetta mál og á seinasta þingi, þegar það var til umr. hér, afgr. frá n. - Það er í fyrsta lagi það, að n. þykir ekki rétt að fella niður það öryggi, sem eftirlitið á að veita með bönkum og sparisjóðum, og eins og menn sjá, er gert ráð fyrir því, að eftirlitið með sparisjóðum sé falið Landsbankanum. N. leitaði umsagnar Landsbankastj. um þetta atriði. Reyndar hefir ekki ákveðið svar fengizt, vegna þess, að form. bankaráðsins er erlendis, en hinsvegar hafa þeir bankastjórar, sem við eru, tjáð nm., að þeir myndu ekki geta fallizt á, að bankinn tæki á sig slíkt eftirlit, enda myndi það verða óvinsælt, ef Landsb. ætti að hafa yfirumsjón með öðrum bankastofnunum í landinu á þennan hátt. Hinsvegar var það svo í n., að menn höfðu óbundnar hendur um að koma fram með breyt. á frv., en eins og séð verður, þá hefir það ekki verið ætlun neinna nm. Því er það, að fjhn. leggur einróma til, að frv. verði vísað til stj.

Það eru nokkuð skiptar skoðanir innan n. um það, hversu starfið hafi verið rækt. En það má ekki, vegna þess sérstaklega, að maðurinn, sem því hefir gegnt, hefir verið mjög lengi veikur - eitt árið svo að segja algerlega -, dæma það hart. En hins má geta, að bankarnir telja sér ekki nauðsyn á, að þetta eftirlitsstarf verði framkvæmt þeirra vegna, og mætti e. t. v. álíta, að það væri nauðsynjalítið bankanna vegna. En fjmrh. gat þess hér á þingi í fyrra, að hann vildi fá það athugað, hvort rétt væri að sleppa eftirlitinu vegna aðstöðu ríkisstj. til þessara stofnana. Hann taldi þá þörf á því, að ríkisstj. hefði á að skipa manni, sem undir öllum kringumstæðum gæti, ef þess væri óskað, rannsakað nákvæmlega hag bankanna og gefið ríkisstj. þær bendingar um starfræksluna, sem við þætti þurfa. - Ég sé, að hv. frsm. og form. n. er kominn í d., og skal ég því ekki segja fleira.