02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í C-deild Alþingistíðinda. (3925)

42. mál, eftirlit með sparisjóðum

Steingrímur Steinþórsson:

Í fyrra var ég riðinn við frv. um að fella niður eftirlitsstarfið með bönkum og sparisjóðum, en féllst á það þá til samkomulags í fjhn., eins og hv. þm. N.-Ísf. gat um, að málinu yrði vísað til stj. Var það af því, að ég gat við frekari athugun fallizt á, að rétt væri að athuga, hvort ekki myndi nauðsynlegt að hafa einhverskonar eftirlit, eins og verið hefir a. m. k. að nafninu til, hvað þetta snertir. Og í nál., sem kom frá fjhn. í fyrra, var lögð mikil áherzla á það, að stj. léti athuga fyrir næsta þing, hvort ekki væri ástæða til að breyta til um eftirlitið á einn eða annan hátt. En þetta varð aldrei útrætt í d. í fyrra og því ekki að vænta, að stj. hafi látið athuga það, sem fólst í nál. fjhn. þá. Nú sé ég, að fjhn. þessarar d. hefir komizt að sömu niðurstöðu nú, að vísa beri málinu til stj., og þar sem nál, er byggt á sömu röksemdum og í fyrra og ég var talsvert við málið riðinn þá, vil ég leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til stj., einkum hæstv. fjmrh., hvort ekki mætti treysta því, að ef þessi till. fjhn. verður samþ., fari fram athugun á þessu starfi fyrir næsta þing, því að það skilst mér vaka fyrir fjhn. nú, eins og áreiðanlega vakti fyrir henni í fyrra, þegar hún afgr. þetta mál, því að skoðanir voru allskiptar, eins og mun vera nú, eftir ræðu hv. þm. N.-Ísf. að dæma. - Ég ætla ekkert að fara að taka upp aftur af því, sem ég hélt hér fram í fyrra, að starfið er gagnslaust eins og það hefir verið rækt, því að það mun nú algerlega vera hætt að fara eftirlitsferðir vegna sparisjóðanna, og hv. þm. N.-Ísf. gat þess, að bankarnir teldu, að ekki væri þörf fyrir þetta eftirlit sinna vegna, enda eru þeir hættir að greiða þann hluta, sem þeim ber af launum eftirlitsmannsins. Þeir telja hann algerlega óþarfan með því skipulagi, sem nú er komið á bankamálin. Ef þetta er gagnslaust eftirlit, verður að breyta til og taka eitthvað fram um, hvernig varið skuli eftirliti með sparisjóðum. Ég get að því leyti fallizt á ummæli, sem fram komu hér í d., að það gæti verið ástæða til að hafa eftirlit með opinberum sjóðum, og væri þá meira en sparisjóðirnir, sem um væri að ræða. Við það, sem kemur fram í þessu frv., að það sé einmitt Landsbankinn, sem annist þetta eftirlit, þá get ég ekki séð, að það yrði sérstaklega óvinsælt. Landsbankinn er okkar aðalpeningastofnun og á að veita forgöngu í okkar peningamálum. Það er því mjög eðlilegt, að Landsbankanum verði falið þetta, og ég get ekki séð, að hann gæti skorazt undan því. En ég vildi einkum geta þess, að ég mun greiða atkv. á móti því, að frv. verði vísað til stj., í því trausti, að frv. verði samþ. En hinsvegar geri ég ráð fyrir því, að því verði vísað til stj., og vildi því beina því til hennar, hvort ekki mætti vænta þess, að þetta yrði athugað rækilega fyrir næsta þing. Mætti þá vænta frekari till. í þessu máli.

Annars ætla ég ekki að ræða þetta neitt frekar nú eða um gagnsemi eftirlitsins eins og það hefir verið rækt. Það var gert í fyrra, og ég tók þátt í þeim umr. og endurtek ekkert af því, því að ég er sama sinnis um það atriði.