07.04.1933
Neðri deild: 47. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í C-deild Alþingistíðinda. (3939)

82. mál, fátækralög

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég sé ekki ástæðu til að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir. Það er rétt; sem ég tók fram við 1. umr., að jafnan þegar dómur gengur um þessi mál, þá greiðir ríkissjóður kostnaðinn. Hér er því um það að ræða, að ríkissjóður greiði kostnað, sem af því leiðir, að þessir menn séu settir á Litla-Hraun án dóms. Nú þykir mér það ákaflega undarlegt að fara fram á það, að ríkissjóður greiði fyrir þessa menn, sem settir eru þannig á Litla-Hraun, þegar svo stendur á, að ekki er úr því skorið með dómi, hvort þessir menn falli undir lögin frá 1928. Það er sem sé ekki skylda ríkissjóðs að greiða með þessum mönnum, nema þeir séu slæpingjar eða óreiðumenn. En ef uppfyllt eru þau skilyrði, sem sett eru í lögunum frá 1928, er ekki annað en fá dóm yfir þeim; þá er víst, að ríkissjóður greiðir fangavist þeirra eins og annara fanga. Mér fannst hv. flm. taka vel í þetta við 1. umr., að fara að eins og ég stakk þá upp á, og er ég því hálfhissa á að sjá frv. koma fram aftur. Það mun hafa komið fyrir eitt tilfelli, þar sem sveitarfélagi hefir verið neitað um greiðslu fyrir þurfaling vegna dvalar hans á Litla-Hrauni. Mér er að sjálfsögðu illa við að íþyngja ríkissjóði. Þegar nú sveitarfélögin geta, ef skilyrði laganna frá 1928 eru fyrir hendi, komið öllum kostnaði af fangavist þessara þurfamanna sinna yfir á ríkissjóð, með því að láta dóm ganga í málum þeirra, þá finnst mér þau megi vel við una.