07.04.1933
Neðri deild: 47. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í C-deild Alþingistíðinda. (3941)

82. mál, fátækralög

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. frsm. skýrði rétt frá lagafyrirmælunum um þetta. En það var hæpið hjá honum, er hann sagði, að samþykki lögreglustjóra væri sama og úrskurður hans. Eftir þessu frv. er nóg, að hann skrifi bréf og leyfi, að viðkomandi maður sé settur á vinnuhæli, en það er allt annað en dómur. Annars kemur það hér fram sem oftar, að ríkissjóður á fáa formælendur. Það þykir alltaf fært að bæta á hann. Hv. frsm. sagði t. d., að þetta skipti engu fyrir ríkissjóð, en það skiptir þá alveg eins engu fyrir sveitarfélögin. Ég tel þetta þvert á móti skipta allmiklu máli, þar sem uppihaldskostnaður fyrir einn þurfaling á Litla-Hrauni nemur á ári fullkomlega meðalprestslaunum. Ég vil því halda mig við það, að þetta ákvæði um samþykki lögreglustjóra sé of lint, og að meiri trygging sé fengin í því, að dómur sé látinn ganga í málinu. Ég vil því mælast til, að frv. þetta verði ekki látið ganga lengra, því að það er alveg þýðingarlaust, þar sem sveitarfélögin geta náð alveg sama takmarki með því að láta ganga dóm um málið. En með því á að vera útilokað, að hægt sé að demba á ríkissjóð kostnaði, sem hann á ekki að bera að lögum.