02.05.1933
Neðri deild: 63. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2443 í B-deild Alþingistíðinda. (3951)

179. mál, innflutningsbann á niðursoðinni mjólk

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Við hv. þm. Borgf. höfum áður flutt á Alþingi samskonar frv. og þetta, en þá gat það ekki orðið að lögum. Hinsvegar má gera ráð fyrir, að það gangi greiðara nú, með því að ástæður eru töluvert breyttar í landinu frá því, sem þá var, þessu máli í vil. Fyrst og fremst hefir aðstaða til sölu ýmsra landbúnaðarafurða versnað um allan helming frá því, sem þá var. Það er afarerfitt að koma þeim í peninga, og kjötframleiðslan verður að sæta hinni hörðustu samkeppni á erlendum markaði. Það verður því sýnilega að umleggja landbúnaðinn, með það fyrir augum að framleiða landbúnaðarafurðir sérstaklega fyrir innlendan markað, af því að erlendi markaðurinn fyrir íslenzkar landbúnaðarvörur virðist smám saman vera að lokast. — Í öðru lagi hefir orðið allmikil breyt. á framleiðslu á niðursoðinni mjólk í landinu, þannig að niðursuðuverksmiðjan í Borgarnesi framleiðir nú þessa vöru á miklu öruggari og fullkomnari hátt en áður var gert. Ég minnist þess, að því var áður haldið fram af andmælendum þess frv., er við fluttum þá um þetta efni, í fyrsta lagi, að þessi verksmiðja framleiddi ekki nægilega fullkomna vöru til þess að forsvaranlegt væri að útiloka innflutning á erlendri mjólk, og í öðru lagi, að hún framleiddi ekki nægilega mikið til þess að fullnægja eftirspurninni innanlands. En nú, eftir að niðursuðuverksmiðjan var reist í Borgarnesi með nýtízku útbúnaði, er niðursuða mjólkurinnar miklu fullkomnari, og jafnframt hafa framleiðslumöguleikarnir aukizt mikið. Fyrirtækinu er stjórnað af erlendum manni, sem hefir fullkomna þekkingu og reynslu í þessum efnum. Og heita má, að engar umkvartanir hafi komið fram út af mjólkinni, síðan þessi verksmiðja var reist. Það er því sýnilegt, að hin innlenda niðursuða á mjólkinni er komin í það horf, sem allir neytendur mega vel við una. Auk þess hefi ég fengið ábyggilegar upplýsingar um, að það muni vera hægt að framleiða í niðursuðuverksmiðjunni í Borgarnesi nægilega mjólk til þess að fullnægja eftirspurninni eftir niðursoðinni mjólk hér innanlands.

Það má taka það fram, að skipin, sem eru nokkuð stór neytandi í þessari vörugrein, hafa leyfi til þess að bæta inn á sinn „proviant“ nokkru af þessari vöru eins og öðrum, þegar þau koma í erlenda höfn og geta því að nokkru leyti notað hinn erlenda markað. Það er svo augljóst mál, að ég býst ekki við, að ég þurfi að fara mörgum orðum um það, að þegar leita verður að hverri einustu holu, ef svo má segja, innan lands og utan fyrir hina innlendu framleiðslu, þá er sjálfgefið, að það verður að tryggja landsins eigin börnum þann markað, sem til er í þessu landi. Hvað sem líður öllum skoðunum um frjáls viðskipti og frjálsa verzlun á venjulegum tímum, þá erum við Íslendingar til neyddir að fara þær sömu slóðir og nú eru farnar um allan heim, að reyna að tryggja hinn innlenda markað fyrir hina innlendu framleiðslu, og þá er sjálfsögð afleiðing af því, að þegar risinn er upp í landinu iðnaður svipaður þessum, sem byggist algerlega á því að koma hinni innlendu framleiðslu í nothæfa vöru og peninga, þá á fyrst og fremst að tryggja honum innlenda markaðinn. Þar sem nú er svo ástatt um kjötmarkaðinn, að það má segja, að hann sé algerlega í hundunum, þröngur innanlands og takmarkaður utanlands, þá gefur það að skilja, að þeir bændur, sem hafa aðstöðu til þess, gefa sig meir og meir að framleiðslu mjólkur, svo framarlega sem hægt er að koma henni í verð. Þetta er einn liðurinn í því að breyta til um búskaparhætti, eftir því sem yfirstandandi tímar heimta. Það mætti segja, að hægt væri að tryggja þessari niðursoðnu mjólk hinn innlenda markað á annan hátt, t. d. með því að hækka tollinn á innfluttri mjólk; en ég tel mjög vafasamt, að það takist, vegna þess, að eins og kunnugt er, þá er sala og framleiðsla á niðursoðinni mjólk svo að segja um allan heim í höndum örfárra sterkra hringa, sem ráða algerlega yfir verðinu og er í lófa lagið, ef þeir vilja, að taka fyrir kverkarnar á fyrirtækjum eins og þessum, með því að undirselja þau í 1—2 ár, enda er full ástæða til að ætla, að því hafi verið beitt einmitt hér á landi gagnvart því fyrirtæki, sem hér um ræðir. Upp á síðkastið hafa verið svo ískyggilega lág tilboð um sölu á erlendri dósamjólk, að það eru engar líkur til, að það samsvari neinu heilbrigðu erlendu verði, heldur sé það hrein og bein tilraun til þess að kyrkja þessa stofnun, sem hér er að rísa upp. En þó að takast mætti á þennan hátt, með hækkun tolla, að stemma stigu fyrir innflutningi á erlendri mjólk, þá hefði það í för með sér, að verðið á hinni innlendu vöru yrði skrúfað upp. Hinsvegar með því að innleiða aðflutningsbann á þessari mjólk og með því að setja hámarksverð á hina innlendu framleiðslu, þá er hvorttveggja gert: Hinum innlendu framleiðendum er tryggður hinn innlendi markaður og séð fyrir því, að ekki sé okrað á neytendum þessarar vöru. Til þessa er tillit tekið í frv. okkar hv. þm. Borgf., og býst ég við, að þeir tímar, sem nú standa yfir, séu öllum hv. þm. svo holl og heilbrigð lexía, að þeir taki þessu frv. með velvild.