02.05.1933
Neðri deild: 63. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2445 í B-deild Alþingistíðinda. (3952)

179. mál, innflutningsbann á niðursoðinni mjólk

Magnús Jónsson:

Það getur náttúrlega vel verið, að þau ummæli í lok ræðu hv. fyrri flm. rætist, að tímarnir, sem nú standa yfir, séu sú lexía fyrir hv. þm., að þeir gangi á sínar fyrri samþykktir, en hvort það er svo sérstaklega holl lexía, skal ég ekki um segja. Annars er það svo, að við höfum búið hér við tvennskonar bannlög. Önnur bannlögin hafa verið þannig, að með hinum svokölluðu innflutningshöftum hefir ýmist verið bannaður eða takmarkaður innflutningur á mörgum vörum um ákveðinn tíma, og svo höfum við eina vöru, sem hefir verið bönnuð, og það er vínið. Nú er stungið upp á því að innleiða við hliðina á vínbannlögunum okkar bann á öðrum drykk, og það er mjólkin. Eftir að reynslan hefir sýnt mönnum, að það er jafnvel erfitt að banna vínið, þá finnst þeim, að nú sé tími kominn til þess að banna líka mjólkina. Ég skil ekki sannast að segja, að flm. skuli ekki hafa séð svo vel líkinguna milli þessara tveggja banna, að þeir skyldu ekki setja þau ákvæði í frv., að sektir skv. þessum 1. skuli renna í menningarsjóð í staðinn fyrir ríkissjóð. Mér finnst sjálfsagt að tengja það saman, sem skylt er! Ég hefi verið á móti þessum bráðabirgðabönnum, innflutningshöftunum, þegar þau hafa verið sett á einstakar vörutegundir, og hefi ekki ennþá séð það gagn, sem af þeim hefir orðið. Um hitt bannið, sem ég upphaflega var með, er það að segja, að þar hefi ég neyðzt til að breyta minni skoðun og orðið að gerast meðflm. að frv. um að afnema það. Ég get því ekki fylgt þessu banni. Ég álít ekki þessa aðfluttu mjólk svo miklu hættulegri en vínið, að það eigi að banna hana sem sverasta eitur. Það eru náttúrlega sömu rökin, sem eru færð fram fyrir þessu eins og jafnan koma fram, þegar um slíkt er að ræða, hvort heldur það er bann, hátollar eða annað, að það þurfi að vernda innlendu framleiðsluna, efla atvinnulífið í landinu o. s. frv. Ég veit ekki, hvort ég á að vera að eyða tíma hv. þd. í að koma enn einu sinni inn á það, hvað það er, sem langtíðast er fært fram sem rök fyrir verndartollum eða innflutningsbanni, en það er alltaf gert upp á einhvers annars kostnað. Hvort sem það eru verndartollar eða bönn, þá eru þau sett fyrst og fremst til að styðja þá innlendu framleiðslu, en sú innlenda framleiðsla verður dýrari í skjóli þessara laga. Það, sem menn verða að velja um, er það, hvort þeir vilji láta einn borga til þess að styðja annan, Það er auðvitað, að ef t. d. er gengið inn á að samþ. frv. eins og þetta, þá mun koma með fullkomlega sömu rökum fjöldi af öðrum vörum á eftir. Ef þau rök eru nóg, að hægt er að framleiða einhverja vöru í landinu, til þess að banna innflutning á henni, þá þyrfti helzt að setja mþn. til þess að telja upp þann sæg af vörum, sem hægt er að framleiða hér innan lands, og banna svo innflutning á öllum þeim vörum. Ef við lítum á reynsluna, þá er hún langskýrust frá Bandaríkjunum, sem eru sérstaklega vel sett með að hafa verndartolla, vegna þess, hve landið er stórt og framleiðir margt. Nú er svo komið, að það land er einna lakast statt fjárhagslega í veröldinni, og þar hafa menn ekki annað ráð en að sitja á ráðstefnum til að íhuga, hvernig þeir eigi að fara að losna við eitthvað af þessari vernd allri saman. Þeir hafa rekið sig í það, að í skjóli verndartollanna hefir komið upp í landinu mikil og óheilbrigð starfsemi. Þeir ætla að fara að lækka þessa tolla hægt og hægt og reyna að losna einhvern veginn við þá. Þeir eru búnir að sjá, að það er lífsskilyrði fyrir þá.

Hv. fyrri flm. sagði, að hér fengju allir sitt; þeir, sem framleiddu, fengju tryggan markað, og þeir, sem neyttu, fengju tryggingu fyrir sanngjörnu verði í skjóli 2. gr., sem er um það, að það megi setja hámarksverð á vöruna. Þetta hefir verið reynt af okkur. Á stríðsárunum var hver n. sett eftir aðra til þess að ákveða hámarksverð á vörum, og það var farið að gera það þannig, að setja í n. einmitt þá, sem skömmuðust mest yfir því, að hámarksverðinu væri ekki framfylgt; og það dugði ekki neitt, af því að það er h. u. b. ómögulegt að vinna það verk. Það er að vísu einfaldara, þegar um eina einustu vörutegund er að ræða, en ég vil spyrja, við hvað á að miða þetta hámarksverð? Halda menn, að einhver vara sé ódýrari, ef ákveðið er eitthvert hámarksverð á henni? Það getur verið ákveðið tvöfalt verð hinnar innlendu vöru. Það er ekki nokkur minnsta trygging fyrir því, að varan sé seld fyrir sannvirði, þó að ákveðið sé hámarksverð á henni. Ég gæti trúað, að blessaðir innlendu framleiðendurnir vildu segja eitthvað um það, hvað þeir þyrftu að fá fyrir hana til þess að framleiðslan borgaði sig. Ef ákveða á hámarksverð á mjólkinni, gæti ég trúað því, að fullt svo mikið myndi vera hugsað um, að mjólkurframleiðendurnir fengju sitt eins og um það, þó að einhverjir kaupstaðabúar borguðu hana helzt til háu verði. Ég sé ekki, hvaða gagn innlendu framleiðendunum er að þessu, annað en að fá hærra verð fyrir vöruna. Ef þeir væru samkeppnisfærir við erlenda vöru, þá fengju þeir markað. Hv. flm. gat um, að niðursoðin mjólk hefði verið seld hér með óeðlilega lágu verði. (BÁ: Boðin, sagði ég). Það getur verið „dumping“, undirboð. Ég fyrir mitt leyti skal vera fús til þess að vera með í því, ef hv. þm. vill leita einhverra ráða á móti slíkum óheiðarlegum boðum á vörum. Það er ekki nema algengt, að þjóðir, sem unna frjálsum viðskiptum, geri sérstakar ráðstafanir á móti þeirri sölu, sem er algerlega óeðlileg. Annars megum við dálítið vara okkur á að tala ákaflega digurbarkalega um þessa óeðlilegu sölu, a. m. k. meðan við höfum hér til meðferðar í þinginu frv., sem ómögulegt er að skilja öðruvísi en að þar sé um „dumping“ að ræða, en ég skal ekki fara frekar út í það.

Ég skal ekki segja fleira um þetta mál, en vildi aðeins gera grein fyrir því, hvers vegna ég greiði atkv. á móti þessum nýju bannlögum nú þegar við 1. umr. Ég tel það svo mikla fjarstæðu, að engu tali taki að styðja að því, að verndartollur verði settur á þessa vöru, vegna þess að ég veit, að þetta er nauðsynleg vara og að margir neytendanna hafa úr litlu að spila, og því frekar er ég á móti því að banna algerlega innflutning á þeirri vöru. Mér finnst það óheilbrigt, ef á að setja hreint verzlunarbann á vöru, sem enginn segir, að sé skaðleg á neinn hátt.