31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2452 í B-deild Alþingistíðinda. (3966)

179. mál, innflutningsbann á niðursoðinni mjólk

Pétur Magnússon:

Ég vil gjarnan gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls með nokkrum orðum og jafnframt greina frá ástæðum til þess, að þetta frv. er fram komið. Eins og e. t. v. sumum hv. þdm. er kunnugt, var sett upp mjólkurniðursuðuverksmiðja í Borgarnesi fyrir nokkrum árum. Verksmiðjan var eign hlutafélags, er mestmegnis var skipað innanhéraðsmönnum. Þetta fyrirtæki gekk illa, og það var vafalaust að ýmsu leyti af vanefnum gert, og munu bæði tækin hafa verið heldur ófullkomin og vantað ýms skilyrði til þess, að varan gæti uppfyllt þau skilyrði, sem nauðsynleg eru til að vinna markað. Fyrir 1½ ári varð sú breyt. á, að Mjólkurfélag Borgfirðinga — samvinnufélag — keypti eignina, bætti við miklu af nýjum vélum og fékk vel lærðan mann til þess að veita niðursuðunni forstöðu. Eftir þessa breyt. á rekstrinum reyndist mjólkin ágætlega vel, og hafa skemmdir aldrei komið fyrir síðan, en sala farið hraðvaxandi. Skömmu eftir að verksmiðjan tók til starfa í þessari nýju mynd komu gjaldeyrishöftin, og ég hygg, að ekki hafi verið leyfður innflutningur á niðursoðinni mjólk síðan á miðjum vetri 1932. Og þótt nokkrar birgðir væru þá fyrirliggjandi, þá er það komið í ljós nú, að verksmiðjan getur framleitt þá mjólk, sem þarf til innanlandsnotkunar. Þess skal getið, að um leið og gjaldeyrisnefndin gekk að því, að nokkru leyti fyrir tilhlutun stjórnar niðursuðuverksmiðjunnar í Borgarnesi, að banna innflutning á niðursoðinni mjólk, þá skuldbatt mjólkursamlagið sig til þess að selja mjólkina með lægsta gangverði á hverjum tíma, og óhætt að segja með nokkuð lægra verði en var á innfluttri mjólk til þess tíma, og það verð hefir haldizt óbreytt síðan. — En eftir að fram á þetta ár kom hefir þess orðið vart, að farið er að bjóða erlenda mjólk hér miklu lægra verði en Borgarnesmjólkina. Nú eru þetta út af fyrir sig ekki nein rök fyrir því, að banna eigi innflutning á útlendri mjólk. En þegar farið var að rannsaka þetta mál — en það var gert ýtarlega af einu stærsta verzlunarfirma hér í Reykjavík —, þá kom í ljós, að verð það, sem útlend mjólk var boðin fyrir hér, var langt fyrir neðan venjulegt markaðsverð, og var augljóst, að hér var auðugur erlendur mjólkurhringur að gera niðurfærslu á verðinu í þeim tilgangi einum að drepa þennan innlenda iðnaðarvísi, sem hér var kominn. Það þykir máske ekki sennilegt, að þessi auðugi félagsskapur lúti svo lágt að seilast á þennan hátt til hins íslenzka markaðs. En það er nú yfirleitt svo, að verzlunarhringarnir teygja klærnar eins langt og þeir ná og láta ekki bola sér út að óreyndu, jafnvel þó um smáræði á þeirra mælikvarða sé að ræða. Nú vil ég taka það skýrt fram, að hið eina, sem gerði það að verkum, að ég gat léð þessu frv. fylgi, var, að ég vildi ekki láta drepa þennan innlenda iðnaðarvísi á þennan hátt — vil ekki, að erlent auðvald sé notað til þess að selja vörur hér undir sannvirði, til þess að hindra framhald þessa atvinnurekstrar hér á landi, sem á að geta orðið til gagns bæði mjólkurframleiðendum og neytendum. En takist að stöðva þessa innlendu framleiðslu, þá mun ekki líða á löngu áður en mjólkurverðið er aftur komið upp fyrir það, sem íslenzka mjólkin er seld, því að eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið, hafa ekki neinar verulegar breyt. orðið á heimsmarkaðinum á mjólk síðan þetta gerðist, sem gæti réttlætt þessa verðlækkun.