31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2454 í B-deild Alþingistíðinda. (3967)

179. mál, innflutningsbann á niðursoðinni mjólk

Jón Baldvinsson:

Það er sjálfsagt rétt hjá hv. 4. landsk., að niðursuðuverksmiðjan í Borgarnesi mun hafa samið við innflutningsnefndina á sínum tíma og setti þá niður mjög mikið verðið frá því, sem áður var. Varð það til þess, að ekki var leyfður innflutningur mjólkur frá árinu 1932. En því ekki að láta sitja við þetta? Það eru líkindi til, að haldist eitthvað hömlurnar á gjaldeyrinum og innflutningi fyrst um sinn, og þá má gera ráð fyrir, að nauðsynlegt verði leyfi fyrir innflutningi á erlendri niðursoðinni mjólk. Er þá á valdi nefndarinnar að neita, nema því aðeins, að verðmunurinn sé svo mikill, að það þyki óforsvaranlegt að synja um innflutningsleyfi. Skömmu fyrir áramótin síðastl. var gerður samanburður á verði innlendrar og erlendrar mjólkur, og það reyndist mikill munur, og var þó verksmiðjan í Borgarnesi búin að setja niður að stórum mun. Skilst mér því, að með þessu frv. væri það verksmiðjan, sem gæti hækkað sitt verð.

Mér skilst, að afleiðingin af þessu frv. verði sú, að verksmiðjan í Borgarnesi þurfi ekki framar að taka tillit til heimsmarkaðsverðsins á mjólkinni, og geti því hækkað verðið á mjólk sinni í skjóli innflutningsbannsins.

Það var talsverður reyfarabragur á þeirri sögu, sem hv. 4. landsk. sagði um mjólkurhringa stórveldanna, sem væru að seilast til þess að drepa niðursuðuverksmiðjuna í Borgarnesi. Að sjálfsögðu vinna margir verzlunarhringar að sölu á niðursoðinni mjólk og togast á um markaðinn í löndunum, en það er undarlegt, ef þeir hafa allir komið sér saman um að útrýma Borgarnesverksmiðjunni, því að verðtilboð á erlendri niðursuðumjólk eru frá mörgum verksmiðjum og firmum frá andstæðum verzlunarhringum. Og samkv. þeim tilboðum er verðið miklu lægra en á innlendu mjólkinni. Það gætu auðveldlega risið upp mörg iðnaðarfyrirtæki í landinu og gert sömu kröfu til löggjafarvaldsins og verksmiðjan í Borgarnesi. Þau gætu sagt hið sama og fulltrúar Borgarnesverksmiðjunnar segja nú, og með sama rétti, að þau geti ekki keppt við erlendan iðnaðarvarning, og þess vegna verði að banna innflutning á honum, til verndar innlendu vörunni. Það er náttúrlega gott fyrir þá, sem reka fyrirtækin, að fá þessa vernd, en það er ekki gott fyrir neytendur, sem kaupa vörurnar, að framleiðendum þeirra sé veitt slík aðstaða til þess að selja vöru sína miklu hærra verði en samskonar vörur frá útlöndum. Vitanlega er þetta aðeins sagt út í loftið, að hið útlenda auðmagn ætli að kúga verksmiðjuna í Borgarnesi til þess að gefast upp. Sannleikurinn er sá, að það er hið lága verð mjólkurinnar á heimsmarkaðnum, sem gerir það að verkum, að þessi mjólkuriðnaður í Borgarnesi á við erfiðleika að etja. Og mér finnst, að það sé veitt talsverð vernd með því, að það skuli þurfa bæði innflutnings- og gjaldeyrisleyfi til þess að fá erlenda mjólk til landsins, og auk þess verður að greiða af henni toll. Hér er því um marga þröskulda að ræða fyrir erlendu mjólkina í samkeppninni á markaðnum hér á landi, en þrátt fyrir það getur hún verið þriðjungi ódýrari en innlenda mjólkin. Hér er því um að ræða þungar búsifjar fyrir kaupendur mjólkurinnar, ef lögleitt verður innflutningsbann á Mjólk vegna þessarar einu verksmiðju. Enda má alls ekki gera það; slíkt hefnir sín geipilega síðar. Því verður ekki tekið með þökkum, að þetta eina einkafyrirtæki í landinu fái aðstöðu til þess að plokka menn í skjóli innflutningsbanns, eftir eigin geðþótta. Ef hér væri um að ræða ríkisfyrirtæki, sem ríkið hefði tekjur af, þá mætti bæta um þetta. En ég tel alveg óhæfilegt að bera fram svona frv., um að banna innflutning á nauðsynjavöru, sem svo mikið er notuð í landinu. Mér finnst, að rök hv. 4. landsk. mæli á móti frv., og ber það vott um, að í huga hans leynist nokkur vafi á því, hvort nokkur þörf sé á slíkum ráðstöfunum sem þessum.