30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

1. mál, fjárlög 1934

Bernharð Stefánsson:

Ég á hér litla brtt. á þskj. 837 um 250 króna styrk til Halldórs Jónssonar á Brekku í Svarfaðardal, til dýralækninga. Í gildandi fjárl. er þessum manni veitt lítilsháttar upphæð til þessarar starfsemi. Sökum þess, að þetta var tekið upp í fjárl. í fyrra, þá hefir þessi maður breytt nokkuð atvinnuvegi sínum í trausti þess, að hann fengi að halda þessum styrk áfram.

Þegar fjárl.frv. var lagt fyrir þingið nú í vetur, þá var þessi liður í frv., en var tekinn út, þegar frv. lá hér fyrir þessari hv. d. Ég lít nú svo á, að það hefði verið þessum manni betra, að aldrei hefði verið tekinn upp styrkur til hans, heldur en að veita honum hann aðeins í eitt ár og fella styrkinn svo niður þegar þessi maður er búinn að breyta til um atvinnu í trausti þess að geta gefið sig áfram við þessu starfi. Ég leyfi mér því að bera fram brtt. um það, að liður þessi verði tekinn upp aftur með 50 kr. lækkun frá því, sem fyrst var farið fram á. Ég vona, að þessi till. verði samþ., svo framarlega sem nokkur breyt. verður gerð á fjárlagafrv. En ég skal geta þess, að mín skoðun er, að réttast sé að samþ. fjárlagafrv. óbreytt hér í d. eins og það kom frá Ed., því að þótt ýmislegt megi kannske finna að frágangi þess þar, þá hefi ég ákaflega litla trú á því, að það taki nokkrum umbótum við það, þótt farið verði að breyta því hér í hv. d. Það gæti orðið alveg eins mikið, sem samþ. yrði til skemmda eins og hitt, sem yrði til bóta.

Ef samkomulag gæti orðið á milli hv. dm. um að samþ. fjárlfrv. óbreytt eins og það er nú, þá held ég því ekki þessari till. minni til streitu.

Hv. þm. V.-Húnv. hefir nú flutt nokkrar brtt. á þskj. 836. Þ. á m. eru till. um að fella niður liði, sem ég lagði til, að teknir væru upp á fjárl. þegar fjárlagafrv. var hér fyrr til umr. Hv. þm. kom lítið inn á einstök atriði í ræðu sinni áðan, og þess vegna þarf ég engu að svara honum út af því, sem hann tók fram, og það því síður, sem ég gerði rækilega grein fyrir þeim atriðum, sem hér koma til greina, þegar fjárl. voru til 2. og 3. umr. hér í hv. d. Ég vil aðeins, út af þessum till., benda hv. þm. á, að það gæti orðið töluvert vafasamur sparnaður fyrir ríkissjóð, ef 5. og 14. brtt. hans væru samþ., um að fella niður styrk og ábyrgðarheimild vegna öldubrjóts á Siglufirði. Ég lýsti því allýtarlega fyrr á þinginu, hvers vegna kapp væri á það lagt að byggja þennan öldubrjót, að það væri einkum til varnar bryggjum og öðrum hafnarmannvirkjum á Siglufirði. Og ég gat um það, að ríkið sjálft ætti þarna bryggjur, og að stuðningur þess til byggingar öldubrjóts fram af Siglufjarðareyri væri því öryggisráðstöfun vegna þessara eigna ríkisins. Þess er ekki lengra að minnast en að í hitteðfyrra urðu skaðar á bryggjum ríkissjóðs þarna, sem nákunnugir menn segja mér, að muni hafa numið fullum 90 þús. kr. Og ekki er hin minnsta trygging fyrir því, að slíkt tjón geti ekki endurtekið sig, jafnvel árlega. Og ef það yrði, eða þótt það nú yrði ekki nema annað eða þriðja hvert ár, þá yrði ekki lengi að koma eins há upphæð, sem ríkissjóður skaðaðist um, eins og sú upphæð er, sem farið er fram á, að hann leggi fram til þessara framkvæmda. Á þetta atriði vildi ég benda, en að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þessi efni, þar sem ekki hefir neitt fram komið enn, sem á nokkurn hátt hefir hrakið rök þau, sem ég færði fram fyrr á þingi um nauðsyn þessa máls.