02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2465 í B-deild Alþingistíðinda. (3981)

179. mál, innflutningsbann á niðursoðinni mjólk

Magnús Jónsson:

Ég held, að það hafi verið skynsamlegt af hv. þm. Borgf., eins og vænta mátti af jafnskynsömum manni, að halda ekki þessa ræðu fyrr en ég var dauður. En ég held, að ég þurfi ekki nema stutta aths. til þess að svara honum.

Hv. þm. sagði, að það væri ákaflega mikill munur á þessari gömlu og nýju einokun. Hann sagði, að hér væri verið að vernda framleiðslu þjóðarinnar. En hann veit það, að þegar einokunin var sett, var Ísland og Danmörk eitt ríki, — allir voru þegnar sama konungs. En að þessi einokun var sett á, var af tómri vitleysu, og það er ákaflega líkt með þessari fyrri og síðari einokun, en ég vil ekki segja, að þeir séu vitlausir, sem eru að þessu nú, en það er jafngott, að þá, sem eru svona sigurglaðir yfir þessu, svíði undan sannleikanum. (PO: Mig svíður ekkert undan þessu). Ég er viss um, að hv. þm. Borgf. svíður, þegar hann er að slöngva slíkum orðum að mér, jafngóðum kunningja.

En út af því, sem hv. þm. Borgf. sagði, að ég hefði verið að tala í hlustir heildsala, þá vil ég geta þess, að ég sé, að þarna er kominn einn í blaðamannaherbergið, en ég held hann hafi ekki verið kominn, þegar ég talaði áðan, svo ég vona, að hv. þm. vilji bera honum orð mín. En mér þykir sennilegt, að það sé mögulegt, að hv. þm. Borgf. hafi verið að tala í hlustir einhverra með sinni ræðu.