02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2465 í B-deild Alþingistíðinda. (3982)

179. mál, innflutningsbann á niðursoðinni mjólk

Jón Auðunn Jónsson:

Ég vil út af því, sem hv. þm. Mýr. sagði, benda honum á, að það hafa verið víða úti í löndum sett skilyrði fyrir því, hvaða mjólk megi selja, hvaða fitumagn eigi að vera í henni o. s. frv. Í flestum bæjum í Kanada og Hollandi og víða annarsstaðar er það ákveðið, að ekki megi selja nýmjólk, sem hefir minna fitumagn inni að halda en 9%. (BÁ: Það er í hverju héraði hér á landi). Er þá farið eftir því? (BÁ: Já, það er farið eftir því. — PO: Er farið eftir því í Kanada?). Það hefir sagt mér greinagóður maður, sem er bóndi í Kanada, að það sé rannsakað vikulega, hvort mjólkin sé eins og hún á að vera. Og ég vil segja það, að það er alls ekki forsvaranlegt, þegar á að einoka einhverja vörn, að setja þá ekki skilyrði fyrir því, hvernig hún á að vera. Ef einkasala hefði verið hér á mjólk, þá hefði mjólkurfélag Borgfirðinga aldrei umbætt sína mjólk, sem framan af var mjög gölluð vara og hætti því að ganga út. En síðari árin hefir verksmiðjan framleitt óskemmda vöru. En þrátt fyrir það á þetta innflutningsbann engan rétt á sér. Ef svo væri að farið með allar þær vörutegundir, sem framleiddar eru hér á landi, sjá allir, hve háskaleg sú braut er, sem inn á er gengið með þessu. Ég hygg, að heppilegra væri fyrir þetta fyrirtæki að láta sér nægja þá velvild, er það hefir hlotið hjá mjólkurkaupendum. Það getur allt eins orðið því til óþurftar, ef gengið er á rétt þúsunda manna á þennan hátt, þó það eigi að vera til þess að hlynna að þessu fyrirtæki.