02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2467 í B-deild Alþingistíðinda. (3985)

179. mál, innflutningsbann á niðursoðinni mjólk

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Mér fannst vini mínum, hv. þm. Borgf., nú heldur skjátlast í röksemdunum. Hann sagði, að öllum væri frjálst að sjóða niður mjólk. Þetta getur að vísu verið rétt. En undirstaða frv. er þó það, og það rökstutt með því, að þessi verksmiðja geti framleitt nægjanlegt af niðursoðinni mjólk fyrir innlenda markaðinn. Og sé það rétt, þá er vitanlega fjarstæða að setja á fót fleiri verksmiðjur, ef þessi fullnægir þörfinni. Þessari verksmiðju er því í raun og veru gefin einkasala á niðursoðinni mjólk. Ef svo væri ekki, þá væri öðru máli að gegna. Og tal hv. þm. Borgf. um, að ekkert væri því til fyrirstöðu, að fleiri slíkar verksmiðjur rísi upp, er málinu eins og það liggur fyrir ekkert viðkomandi. Þar sem þessi verksmiðja nægir til að fullnægja innanlands þörfinni, að sögn hv. flm. sjálfra, þá yrði aukin framleiðsla á þessu sviði að byggja á sölu á erlendum markaði. En um það er naumast að ræða, og ekki eins og nú stendur. En í þessu er einmitt hættan fólgin. Samkeppnin við útlenda framleiðslu er útilokuð. Og ríkisstj. miðar eflaust verðið við það, sem verksmiðjan þarf að fá til að geta borið sig. En verksmiðja þessi hefir kostað mikið fé og er því dýr í rekstri. Verðið verður því hátt, en menn eru tilneyddir að kaupa, vegna þess að annað fæst ekki. Að vísu má segja, að niðursoðin mjólk sé ekki stór hluti af neyzluvöru almennings í landinu. En þá má segja í annan stað, að þegar einni tegund framleiðslu er tryggt verð, þá sé ekki hægt að skorast undan því að veita öðrum tegundum framleiðslu sömu skilyrði, ef þær, eins og segir í grg. fyrir þessu, fullnægja innanlandsþörfinni. Sé á þetta litið sem „princip“mál, er þetta alveg óhætt. Og það er engin afsökun, þó hér sé naumast um almenna neyzluvöru að ræða. Stefnan er röng og því réttmætt að vera á móti henni eins fyrir það, þótt þetta kunni að verða nokkrum mönnum að liði.