02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2469 í B-deild Alþingistíðinda. (3987)

179. mál, innflutningsbann á niðursoðinni mjólk

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Mér þóttu það nú nokkuð merkilegar upplýsingar, sem hv. þm. Mýr. gaf, að mjólkurfélagið hefði í raun og veru haft einkasölu á mjólk vegna innflutningshaftanna. Mér þykir merkilegt að fá það upplýst, að innflutningshömlurnar hafa verið framkvæmdar með annað fyrir augum en að vera gjaldeyrisráðstöfun ein saman. Það er einkennilegt, ef gjaldeyris- og innflutningsn. hafa tekið sér það vald að verja sum fyrirtæki með innflutningshöftum á þeirri vöru, er þær framleiða, en önnur ekki. — Það er vald, sem ég bjóst ekki við, að þær n. tækju sér. — Þegar ég talaði um hátt verð á þessari framleiðslu, þá átti ég ekki fyrst og fremst við það, að verksmiðjan mundi hækka verðið upp úr öllu valdi, heldur miklu fremur við það, að í skjóli innflutningshaftanna gæti hún haldið verðinu uppi, þrátt fyrir það, þó mjólk á frjálsum markaði lækkaði. En hv. þm. vildi hugga mig með því, að þá gætu aðrar verksmiðjur risið upp og myndu gera það. En þess ber að gæta, að þær verksmiðjur yrðu þá að framleiða fyrir erlendan markað, þar sem innanlandsmarkaðurinn er svo þröngur, að hver og ein slík verksmiðja gæti fullnægt honum. En slíkt væri síður en svo arðvænlegt, þar sem stofnkostnaður við slíkar verksmiðjur er mikill, og mundi því engum koma slíkt til hugar. — Ég tel betra, að verksmiðja þessi færi aðra leið. Hún ætti að fá lán úr kreppulánasjóði og minnka með því stofnkostnað sinn, svo að hún yrði samkeppnisfær v ið erlenda framleiðslu. Ef svo útlendir framleiðendur reyndu til að koma mjólk með „dumping“ verði inn á markaðinn hér, þá mætti gefa ríkisstj. heimild til að taka í taumana og fyrirbyggja slíkt. Það væri allt annað en skilyrðislaust bann. — Hvort sem á þetta frv. er litið frá sjónarmiði framleiðenda eða neytenda, þá er það ekki til annars en ills eins.