02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2470 í B-deild Alþingistíðinda. (3988)

179. mál, innflutningsbann á niðursoðinni mjólk

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Það er varla hægt annað að segja en að hv. 4. þm. Reykv. hafi nú skitið í nytina sína, er hann sagði, að þetta frv. væri öllum til ills. Með því sagði hann, að það væri til ills eins, að framleiðendurnir, sem í þessu tilfelli eru bændurnir, gætu flotið áfram fjárhagslega á þessum erfiðu tímum. Þetta er rökrétt ályktun af því, sem hann endaði orð sín með. Ef allir bændur eru gerðir fjárhagslega ósjálfstæðir, þá er um leið boðið heim öllum þeim hörmungum, er þeim öfgastefnum fylgja, sem nú vilja nema sér hér land og festa klær sínar í íslenzku þjóðlífi.