26.05.1933
Neðri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2472 í B-deild Alþingistíðinda. (3994)

125. mál, víxillög

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Eins og skýrt er frá í grg. frv., þá er aðalástæðan fyrir þessum breyt., sem gera á á víxillögunum, til að samræma þau við erlend víxillög og tékkalög annara landa, til þess að hægt sé að ganga inn í þá samþykkt, sem ýms ríki hafa gert sín á milli í þessu efni.

N. hefir leitað álits bankastjórnar Landsbankans um þetta, og hefir hún ekkert sérstakt haft við það að athuga. Þó voru ýms smærri atriði, sem hún hefði gjarnan viljað, að væri öðruvísi skipað, en þar sem þau höfðu ekki neina verulega þýðingu, þá sá n. ekki ástæðu til að fara að breyta frv. á síðustu stundu, og þá líka með tilliti til þess, að þær breyt., sem eru svo smávægilegar, gengu á móti þeirri samþykkt, sem gerð var í Geneve um samræmingu víxillaganna. N. hefir á þskj. 775 gert grein fyrir þeim frávikningum og nýmælum, sem frv. flytur og almenna þýðingu hafa. En eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar, þá er frv. borið fram til þess, að við Íslendingar getum komið inn í þá samþykkt, sem gerð hefir verið á milli margra ríkja árið 1930, og okkur nú hefir verið boðið að taka þátt í.

Það voru nokkrar prentvillur í nál. og það átti að prenta það upp aftur, en endurprentun nál. hefir ekki verið útbýtt ennþá, en ég vænti þess, að þar sem hér er aðeins um auðsæjar prentvillur að ræða, sem mætti laga til 3. umr., að það tefji ekki fyrir framgangi málsins. Prentvilla hefir t. d. orðið við g-liðinn í nál., þar sem sagt er „ef lán hans er tekið til skiptameðferðar“, en á auðvitað að vera „ef bú hans er tekið til skiptameðferðar“.

Þær breyt., sem nefndin hefir gert við frv., eru aðeins leiðréttingar, annaðhvort á misprentun eða misritun, eða fastar kveðið á um atriði en í frv. Annars er þetta frv. nálega að öllu leyti sniðið eftir þeim lögum, sem sett hafa verið í Danmörku og öðrum Norðurlöndum, og að mestu leyti þýðing á þeim lögum, nema aðeins nokkrar frávikningar, sem betur henta fyrir okkur.

Ég vil svo f. h. nefndarinnar mælast til þess, að frv. fái greiðan gang í gegnum deildina.