30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

1. mál, fjárlög 1934

Jónas Þorbergsson:

Ég vil út af því, sem fram kom í ræðu hv. frsm., að fjvn.-menn stæðu ekki allir saman um þá till., sem hann ber hér fram fyrir hönd n., minna á, að í ræðu minni áðan lýsti ég því yfir, að ef það sýndi sig við afgreiðslu hv. d. á þeim brtt., sem liggja fyrir, að þær hafa ekki fylgi, og ef þær till. yrðu allar felldar, sem til atkvæða koma á undan minni brtt., þá mundi ég taka mína till. aftur. Ég gat þess; að ég hefði aðeins af því að hv. dm. eru ekki á einu máli um að taka þessari sendingu hv. Ed. þegjandi, viljað lofa þessari till. að koma fram.

Hv. þm. V.-Húnv. lét þess getið í sinni ræðu, að litlar líkur væru til, að 11 þús. kr. myndu hrökkva til að bera uppi rekstrarhalla útvarpsins árið 1934. Kvaðst hann styðja það álit sitt við þá staðreynd, að á síðastl. ári hefði orðið 100 þús. kr. halli á þessu fyrirtæki. Það er rétt hjá hv. þm., að í rekstrarfjárhagsyfirliti því, sem hæstv. fjmrh. gaf þegar hann lagði fjárl. fyrir þingið, var talinn 100 þús. kr. rekstrarhalli hjá útvarpinu. Ég hefi nú reynt að afla mér upplýsinga um það hjá þeim, sem ríkisbókhaldið annast, við hvað þessi reikningsfærsla hefði að styðjast, eða á hvern hátt ríkisbókhaldið hefði komizt að þessari niðurstöðu, því það hefir að sjálfsögðu búið hæstv. ráðh. í hendur þessa skýrslu. Ég get nú gefið þær upplýsingar, og það munu bækur ríkisbókhaldsins votta, að á umræddu ári hefir ekki verið greidd ein króna til útvarpsins úr ríkissjóði fram yfir það, sem áætlað var. Ég geri ráð fyrir, að hjá bókhaldinu hafi blandazt þarna saman við auknar tekjur útvarpsins eða tekjur þess umfram áætlun, sem gengið hafa til að mæta þeim útgjöldum, sem farið hafa fram úr áætlun. Einnig munu hafa blandazt inn í upphæðir, sem ekki var ætlazt til, að kæmu á rekstrarreikningi, svo sem afborgun af Marconiláninu. Úr ríkissjóði væru greiddar á umræddu ári rúmlega 9 þús. kr. upp í stofnkostnað útvarpsins, og hefir sú upphæð verið afgreidd í fjáraukalögum hér nýlega. En til rekstrarins sjálfs var ekkert greitt úr ríkissjóði fram yfir það, sem stóð í fjárl. þess árs.

Það er rétt, að bæði tekjuáætlanir og útgjaldaáætlanir útvarpsins hafa verið mjög ófullkomnar í fjárl. seinustu ára.

Upphaflega voru gjöld þessarar stofnunar áætluð án þess nokkur reynsla væri fyrir hendi um það, hver þau raunverulega yrðu. Smátt og smátt fæst reynsla í þessu efni, en það tekur tíma fyrir þessari stofnun eins og öðrum nýjum fyrirtækjum að komast á fastan grundvöll, hún er ennþá vaxandi. Og jafnframt tekur það tíma að fá þær leiðréttingar á útgjaldaáætlunum hennar, sem reynslan sýnir, að þarf að gera.

Hvað snertir spá hv. þm. V.-Húnv. um það, að sú litla upphæð, sem ætluð er á þeim fjárl., er nú liggja fyrir til afgreiðslu, til útvarpsins, muni hrökkva skammt til að bera uppi tekjuhalla þess á næsta ári, þá er það ekki ósanngjarnlega til getið hjá þm., því upphæðin er harla lítil. En hv. þm. til hugarléttis skal ég taka það fram, að ég hefi von um, að ekki þurfi að óttast þetta svo mjög, ef vel gengur innheimta afnotagjaldanna, því útvarpsnotendum hefir fjölgað mjög fram yfir það, sem gert var ráð fyrir í áætlun yfirstandandi árs. Ég vonast því til, að hræðsla hv. þm. V.-Húnv. reynist í þessu efni ástæðuminni heldur en hann gerir ráð fyrir.