01.06.1933
Efri deild: 86. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2482 í B-deild Alþingistíðinda. (4042)

127. mál, varnarþing og stefnufrest í víxilmálum

Frsm. (Jón Þorláksson):

N. hefir náttúrlega ekki tekið neina afstöðu til þessarar brtt., sem nú fyrst er fram komin. Það skal viðurkennt, að brtt. felur í raun og veru í sér skref til meira samræmis við þær reglur, sem geta gilt hér. Því að það hefir verið svo um allflesta víxla, eins og þeir venjulega eru útbúnir, að heimilt er að höfða og sækja mál út af þeim fyrir gestarétti í þinghá þeirri, þar sem víxillinn á að greiðast. Ég geri ráð fyrir, að þótt 1. gr. héldi áfram að vera eins orðuð og hún er nú, þá myndi þetta þó verða heimilt áfram í ýmsum tilfellum, þar sem ákvæði löggjafarinnar annars heimila, að málflutningur fari fram fyrir gestarétti. En ég vil skjóta því til hv. tillögumanns, hvort 2. gr. frv. verði ekki í raun og veru óþörf, ef brtt. hans verður samþ., og hvort honum þætti ekki réttara að láta till. bíða athugunar til 3. umr.