11.05.1933
Neðri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2484 í B-deild Alþingistíðinda. (4054)

191. mál, mjólkurbúastyrk og fl.

Flm. (Ólafur Thors) [óyfirl.]:

Ég þarf í sjálfu sér ekki að orðlengja mikið um þetta frv. Öll þau rök, sem ég hefi fram að færa fyrir því, koma fram í grg. á þskj. 618. Þeim til leiðbeiningar, sem ekki kynnu að hafa lesið þá grg., vil ég geta þess, að það, sem farið er fram á í frv., er það, að mjólkurbúum þeim, sem þegar hafa verið stofnuð hér á landi og notið hafa styrks úr ríkissjóði, verði veittur nokkur viðbótarstyrkur. Hér er um fimm mjólkurbú að ræða, sjötta mjólkurbúið hér á landi, mjólkurbú Thor Jensens, hefir engan styrk fengið úr ríkissjóði, enda ekki sótt um það. Fjögur þeirra hafa áður fengið sem styrk úr ríkissjóði einn fjórða stofnkostnaðar, en hið fimmta, Mjólkurfélag Rvíkur, 3/16 stofnkostnaðar. Frv. fer fram á, að þau fjögur bú, sem fengið hafa ¼ stofnkostnaðar, fái aftur ¼ til viðbótar, og það fimmta, sem fengið hefir áður 3/16 stofnkostnaðar, fái aftur 3/16, þannig að allur styrkurinn til þessara fjögurra búa nemi helmingi stofnkostnaðarins, en styrkurinn til Mjólkurfélags Rvíkur 3/8 af stofnkostnaðinum. Þetta er hægt að gera án þess að ríkið þurfi að taka á sig ný útgjöld, því Mjólkurbú Flóamanna er reist fyrir lán úr ríkissjóði að ¾ hlutum. Nú hefir stofnkostnaður þess orðið 400 þús. kr. Ef frv. þetta nær fram að ganga, verður ríkissjóðsstyrkurinn til þessa bús alls 200 þús. kr. Eftir standa þá 200 þús. kr. sem skuld við ríkissjóð. Ætlazt er til, að búið gefi út skuldabréf ríkissjóði til handa fyrir þeirri upphæð, og ríkissjóður afhendi þau svo Búnaðarbanka Íslands sem afborgun á viðlagasjóðslánum hinna mjólkurbúanna, að tilskildu samþykki búnaðarbankans, sem ganga má út frá, að ekki standi á. Þessar 200 þús. kr. eiga að skiptast þannig milli aðilja, að Mjólkursamlag Eyfirðinga fái 37500 kr., Mjólkursamlag Borgfirðinga 35500 kr., Mjólkurfélag Rvíkur 72000 kr. og Mjólkurbú Ölfusinga 55000 kr. Það yrði því ekki tilfinnanlegt fyrir ríkissjóð að verða við þessari málaleitun.

Um þörfina fyrir slíka ráðstöfun er aftur það að segja, að stofnkostnaður allra þessara mjólkurbúa hefir orðið miklu meiri heldur en gert var ráð fyrir þegar lagt var út í framkvæmdirnar. Í sumum tilfellum varð kostnaðurinn fullkomlega helmingi hærri heldur en búizt var við. Við þennan óvænta kostnaðarauka bætist svo sú staðreynd, að mjólk og mjólkurafurðir hafa fallið mjög í verði. Orkar því ekki tvímælis, að þessi nytjafyrirtæki hafa mjög ríka þörf fyrir aukinn ríkisstyrk. Þingið hefir yfirleitt sýnt fullan skilning á hagsmunamálum bænda, bæði nú og á undanförnum árum, og vænti ég því, að þetta mál fái góðar undirtektir og afgreiðsla þess verði í samræmi við þann anda, sem hér hefir ríkt í garð bændastéttarinnar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að láta fylgja frv. lengri eða fleiri skýringar, en vil leyfa mér að leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. landbn.