11.05.1933
Neðri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2487 í B-deild Alþingistíðinda. (4056)

191. mál, mjólkurbúastyrk og fl.

Flm. (Ólafur Thors) [óyfirl.]:

Ég get vel skilið þá hugsun, sem liggur til grundvallar mótbárum hv. þm. N.-Þ. gegn þessu frv. Það er mjög eðlilegt að segja, að ekki sé rétt, að ríkið ívilni mjólkurframleiðendum meira heldur en kjötframleiðendum. En ef sá hugsunarháttur hefði ríkt hér á þingi á undanförnum árum að segja : „ég vil ekki vera þetta fyrir þessa bændur, því þá verða einhverjir aðrir, sem fá minna heldur en þeir“, þá hefði áreiðanlega lítið verið gert fyrir bændur yfirleitt. Þessi hugsunarháttur er mjög hættulegur þeirri stefnu, sem ríkt hefir á Alþingi um að létta undir með bændum, og láta það ekki ráða undirtektum og afstöðu til mála, þó vissum hóp bænda væri ívilnað eitthvað án þess að þær ráðstafanir næðu til allra bænda í landinu. Ekki hafa heldur aðrir framleiðendur í landinu gert kröfur til sérstakra ívilnana í hvert skipti sem bændum er eitthvað hjálpað, þó þeir hafi oft staðið höllum fæti líka. Ég vænti, að þessi stefna haldi áfram að ríkja í þingsölunum, þó færa megi ýms skynsamleg rök fyrir því, sem fram kom í ræðu hv. þm. N.-Þ., og menn gangi enn inn á að hjálpa bágstöddum bændum, þó ekki sé um leið bættur hagur allra bágstaddra bænda í landinu.

Ég held, að það sé á misskilningi byggt, að sum mjólkurbúanna séu sérstaklega vel stæð. Ég get svarað fyrir annað þeirra búa, sem hv. andmælandi tók út úr, Mjólkurfélag Rvíkur. Mér er kunnugt um, að það félag á að mörgu leyti við mjög þröngan fjárhag að búa. Það hefir ráðizt í margar lofsverðar framkvæmdir og stendur því eins og allir, sem sýnt hafa óvenjulegt framtak, mjög höllum fæti. Ég get frætt hv. þm. N.-Þ. um það, að afurðir þeirra bænda, sem skipta við Mjólkurfélag Reykjavíkur, hafa á seinustu árum fallið um nær 70%: bendir það á, að þeim muni ekki veita af þeim styrk, sem hér er farið fram á.

Mér virtist það þungt á metunum hjá hv. þm. N.-Þ., að ef frv. þetta næði lögfestingu, væri með því skapað fordæmi, sem gerði það að verkum, að þau bú, sem reist yrðu í framtíðinni, ættu kröfu til helmings stofnkostnaðar úr ríkissjóði. Það er langt frá því, að þetta sé meining okkar, sem frv. flytjum, og það er langt frá því, að slíkt þurfi að verða. Frv. þarf að mínu áliti ekki að skapa neitt fordæmi. Það má ganga út frá, að a. m. k. þeim mjólkurbúum, sem kann að verða komið upp á næstunni, megi koma upp með miklu minni tilkostnaði heldur en þeim vinnustöðvum, sem búið er að koma á fót. Með þeirri ráðstöfun, sem hér er um að ræða, er ekki verið að efa neitt fordæmi, sem verka á fram í tímann, heldur er verið að gera upp þessi fimm illa stæðu mjólkurbú, sem eru eign þeirra manna, sem brautryðjendur hafa verið á þessu sviði hér á landi. Það má því létta þeim áhyggjum af hv. þm. N.-Þ.

Með þetta tvennt fyrir augum, að hér þarf ekki að vera um fordæmi að ræða, og hvað landbúnaðurinn á mikið undir þeim hugsunarhætti, að ívilna megi einum, þó ekki sé hægt að ívilna öllum öðrum um leið, vænti ég þess, að hv. þm. N.-Þ. eins og aðrir geti sætt sig við, að þetta frv. nái fram að ganga.