11.05.1933
Neðri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2491 í B-deild Alþingistíðinda. (4059)

191. mál, mjólkurbúastyrk og fl.

Björn Kristjánsson:

Hv. þm. Borgf. leggur mikla áherzlu á það, að þau mjólkurbú, sem nú eru komin á fót hér á landi, hafi átt við mikla byrjunarörðugleika að stríða. Það má vera, að svo hafi verið; þó hefi ég ekki fyrr heyrt um nein sérstök óhöpp, sem þau hafa orðið fyrir vegna þess, að þau eru brautryðjendur á sínu sviði. En ég vil taka fram, að frystihúsin hafa orðið fyrir samskonar örðugleikum og þeim, sem hv. þm. lýsti. Mér er a. m. k. kunnugt um það, að þegar við réðumst í að byggja frystihúsið á Kópaskeri, gerðum við ýms glappaskot, sem komast hefði mátt hjá, ef meiri reynsla hefði verið fengin.

Fyrsta tilraunin á þessu sviði var frystihúsið á Hvammstanga. Þegar það var byggt veit ég ekki til, að við neina reynslu hafi verið að styðjast um byggingu frystihúsa til að frysta kjöt til útflutnings hér á landi. Næst var byggt frystihús á Reyðarfirði. Þar á eftir byggðum við okkar og fórum eftir upplýsingum frá Kaupfélagi Reyðarfjarðar, sem reyndust að ýmsu leyti ekki réttar, sem ekki var heldur von, þar sem það frystihús var þá alveg nýbyggt og sama sem ekkert reynt. Og afleiðingin varð sú, að ýms mistök áttu sér stað við fyrirkomulag og gerð húsanna, sem ollu félagi okkar skaða, sem nam miklu fé og komast hefði mátt hjá, ef rétt var að farið. Ef það er nú rétt, að farið sé að styrkja mjólkurbúin á ný vegna byrjunarörðugleika, sem stafað hafa af vöntun á reynslu, þá sé ég ekki annað en nákvæmlega það sama eigi við um frystihúsin.

Hv. þm. Borgf. sagði, að hér væri ekki um neitt ósamræmi að ræða, því Alþingi hefði áður litið svo á, að frystihúsin þyrfti ekki að styðja nema með láni, en mjólkurbúin einnig með ¼ stofnkostnaðar í beinan styrk. Ég játa, að till. þær, sem nú eru fram bornar, eru í samræmi við þetta. En ég get ekkert réttlæti séð í þeim fyrir það. Við getum alveg eins sagt, að sú regla að veita mjólkurbúunum styrk, en frystihúsunum aðeins lán, hafi alltaf verið röng. Hún réttlætir því alls ekki það, sem hér er verið að gera.