15.05.1933
Neðri deild: 74. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2501 í B-deild Alþingistíðinda. (4067)

191. mál, mjólkurbúastyrk og fl.

Jón Auðunn Jónsson:

Það eru aðeins nokkur orð almennt um þá stefnu, sem virðist vera hjá Alþ. um þessar mundir í atvinnumálum.

Í þessu frv. er farið fram á, að styrkur til mjólkurbúa nemi helmingi stofnkostnaðar. Áður hafa þessi fyrirtæki verið styrkt með framlagi, sem nam ¼ stofnkostnaðar þeirra, og með því að veita þeim mjög hagkvæm lán fyrir hinum hlutanum. Þetta er nú verulegur styrkur, og ef atvinnurekstur ber sig ekki með því í venjulegum árum, þá finnst mér í þessu sem öðru stefnt í mesta óefni.

Það er sí og æ verið að kvarta undan dýrtíð, og einstökum mönnum og stéttum gefin sök á dýrtíðinni. En jafnframt eru a. m. k. á þessu þingi gerðar ráðstafanir til frambúðar til að halda við dýrtíðinni. Ég er ekki að tala um það, sem gert er fyrir landbúnaðinn vegna yfirstandandi kreppu. Ég á ekki við þær ráðstafanir, sem gerðar eru til að rétta hann við. En þegar þar að auki er farið inn á þær brautir, sem mér virðast algerlega skakkar í atvinnulífi landsmanna, þá vil ég benda á það.

Sumir menn virðast búast við því, að við getum rekið landbúnað með mikilli útflutningsstarfsemi, með því verðlagi á afurðum hans, sem nú er. En ef menn athuga verðlagið á heimsmarkaðinum, þá sjá menn, að þetta er blekking. Hvernig eigum við að reka útflutning á mjólkurvörum, þar sem mjólkurverðið er 8—9 aur. í Hollandi og Danmörku? En við teljum ekki, að við getum komizt af fyrir íslenzkan landbúnað með 16—20 aur. verði á lítra, án þess að fá styrk til að framleiða mjólkina fyrir þetta verð. Nú er t. d. smjörverðið í Danmörku, eftir nýjustu skýrslum að dæma, 1,45 kr. pr. kg. í 100 kg. pökkum af fyrsta flokks smjöri. Hér hefir gott smjör víðast verið selt á kr. 3,00—3,50 og jafnvel allt að 4,00 kr. Nú er bannaður innflutningur á þessari vöru, sem hægt er að fá miklu ódýrari annarsstaðar frá. Og farið er fram á að banna innflutning á niðursoðinni mjólk, sem unnin er úr hollenzkri mjólk. Náttúrlega hlýtur verðlagið stórkostlega að hækka við þessar ráðstafanir. Jafnframt fer kaupgjald nokkuð eftir verðlagi, ef rétt er með farið, þótt það hafi hér verið langt fyrir ofan það eðlilega í því sambandi.

Í skýrslum frá Board of Agriculture, U. S. A., 15. nóv. síðastl., er tekið fram, að verðlag á öllum framleiðsluvörum þar sé samanlagt að meðaltali 561/16% af verði því, sem var á framleiðslunni fyrir stríð. Hinsvegar eru vinnulaun þar, eftir sömu skýrslum að dæma, 84% af því, sem var fyrir stríð. Skattar og tollar, sem hvíla á landbúnaðinum þar, hafa aukizt um 250% síðan fyrir stríð. Landbúnaðarráðuneytið þar sér enga von um neina breyt. til batnaðar fyrir landbúnaðinn, nema með því að minnka framleiðsluna stórkostlega, og hefir á undanförnum árum ekki séð sér fært að grípa inn í, þótt hundruð þúsunda bænda hafi orðið að hætta við framleiðsluna. Hér hafa bændur til skamms tíma verið hvattir til að framleiða sem allra mest, án þess að nein von hafi verið um erl. markað, fyrir afurðirnar, sem mundi borga nándar nærri það verð, sem framleiðendur nauðsynlega þurfa að fá. Ég held, að í þessu efni hafi verið ákaflega skakkt stefnt, en að það þurfi í þessu tilfelli eins og öðrum að minnka framleiðsluna, þegar ekki er hægt að selja hana því verði, sem þarf til þess að hún beri sig. Ég er orðinn undrandi yfir því, að þeir, sem hafa átt að veita forsjá landbúnaðinum — og ég á þar ekki sízt við Búnaðarfél. Ísl. —, að ráðandi menn þess hafa ekki, þrátt fyrir ábendingu frá öðrum þjóðum, gert tillögur til breyt. á framleiðsluháttunum. Við þurfum áreiðanlega að breyta mikið til og framleiða fyrst og fremst þær landbúnaðarvörur, sem við getum notað sjálfir innanlands, svo sem grænmeti, garðávexti, egg og fugla, en fremur að draga úr annari framleiðslu.

Það er allmikið kvartað undan því, að þau atvinnufyrirtæki, sem hér ræðir um, mjólkurbúin, hafi orðið dýrari en búizt var við. En hvar sjáið þið annað í atvinnurekstri þessa lands og annara landa á undanförnum árum? Við höfum keypt skip frá útlöndum fyrir 5 árum. Fyrir 2 árum voru þau helmingi minna virði en það, sem við keyptum þau fyrir.

Það má benda á íshúsin úti um land, sem notuð hafa verið til að frysta fisk og fleira, en þó sérstaklega beitu. Þessi íshús hafa nær undantekningarlaust verið rekin með tapi, í sumum tilfellum svo tugum þúsunda nemur. Ég veit, að þau mundu verða seld nú, ef nokkur vildi kaupa þau, fyrir helming þess verðs, er þau kostuðu, þegar þau voru byggð 1929—1930, eða minna.

Ef yfirleitt ætti að koma í veg fyrir verðfall með styrk úr ríkissjóði til atvinnufyrirtækja, hvort sem er til lands eða sjávar, þá mundi lánstraust ríkissjóðs verða þrotið áður en því yrði fullnægt til hálfs, hvað þá til fulls. Menn mega ekki láta það blekkja sig, að á þessum, og því miður að mér sýnist á nálægum tímum, þá verður tap á atvinnuvegunum, líka á sjávarútvegi. Það var gerð lítilsháttar tilraun til þess í fyrra að bæta markaðsverð á fiski með því að stórútgerðin kom sér saman um að láta skip sín ganga a. m. k. 2 mán. skemur en venja er til á vertíðinni. Fiskframleiðsla lækkaði um 50—60 þús. skippund. Að nokkru leyti fyrir þessa ráðstöfun, svo og bætt sölufyrirkomulag, hækkaði verðið á erlenda markaðinum um full 20%.

Menn eru að tala um það, að þess megi vænta, að vöruverð fari hækkandi í heiminum. Já, það er von margra, en ekki vissa. En það er víst, að það kemur okkur ekki til góða á heimsmarkaðinum, nema við verðum nokkurn veginn samkeppnisfærir við aðra. Vitanlega kemur verðhækkun þeim fyrst og fremst til góða, sem geta framleitt ódýrt, því að þeir, sem geta haldið atvinnurekstri sínum í jafnvægi með núverandi verðlagi, þeir hafa fyrst hag af verðhækkuninni, sem menn nú eru að vona eftir, og þeir munu þá auka framleiðslu sína. En við, sem erum að selja með tapi, og mundum gera það, jafnvel þótt verðlagið hækkaði eitthvað, njótum ekki þessarar aðstöðu.

Þess vegna er að mínu áliti ekki um annað að gera fyrir okkur en að breyta þannig til, að neyta sem mest sjálfir af landbúnaðarafurðum okkar, þegar nú stendur svo á, að yfirleitt í öllum löndum nema Englandi er framleitt miklu meira af slíkum vörum heldur en þjóðirnar geta, hver fyrir sig, notað til eigin neyzlu eða markaður er fyrir. Það er hrein blekking að halda því fram, að hægt sé, eða að ætla sér að halda uppi vöruverði, sem er 50—100% fyrir ofan heimsmarkaðsverð, með styrkjum á einn eða annan hátt. Slíkt er firra, sem getur ekki lengi blessazt, því að vitanlega verður að taka það, sem er fram yfir 25 eða 30% af venjulegu markaðsverði, af einhverri annari framleiðslu. Og frá öðru en framleiðslunni fáum við ekki peninga.

Ég sé ekki, eins og nú horfir, að nein von sé um verulega bót að því er landbúnaðarframleiðslu okkar snertir, ef ekki er hægt að framleiða fyrir lægra verð en nú er, nema með því að breyta til um framleiðslu að verulegu leyti. Í þessum kvörtunum, sem hér hafa komið fram, er nokkur barlómur, eins og kemur fyrir, þegar menn gefa opinberlega skýrslur um sínar framkvæmdir. Þess vegna get ég ekki fylgt þessu frv., og líka vegna hins, sem ég þykist hafa gert grein fyrir, að ég álít, að hér sé boginn spenntur of hátt, sem geti leitt til þess, að hann bresti, ef ekki er að gætt í tíma.