15.05.1933
Neðri deild: 74. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2508 í B-deild Alþingistíðinda. (4072)

191. mál, mjólkurbúastyrk og fl.

Steingrímur Steinþórsson:

Ég sé ekki ástæðu til að lengja mikið umr. um þetta mál; verð þó að segja örfá orð út af ræðu hv. 1. þm. Eyf. Hann taldi, að brtt. okkar við 1. gr. frv. væri sérstaklega stefnt gegn mjólkursamlagi Eyfirðinga. En ég mótmæli algerlega, að henni sé beint gegn nokkru einstöku mjólkurfélagi. Í brtt. kemur einungis fram það, sem sumir af flm. frv. hafa þegar fallizt á, að hér sé um að ræða sérstaka ráðstöfun til hjálpar mjólkurbúunum vegna yfirstandandi kreppu, en ekki ákvörðun um, að framvegis skuli ríkið leggja fram sem styrk helming stofnkostnaðar þeirra mjólkurbúa, sem stofnuð kunna að verða. Það dettur engum í hug, að ef frv. væri samþ. óbreytt, yrði hægt að standa gegn því, að ríkið greiddi sama styrk til nýrra mjólkurbúa. Þá væri skapað fordæmi, sem ekki yrði hægt annað en fara eftir. Þetta eitt liggur til grundvallar okkar brtt. Mótmæli ég því harðlega öllum brigzlyrðum í þá átt, að hún sé fram borin af einhverjum verri hvötum. Það er síður en svo, að við sjáum ofsjónum yfir því, þó Mjólkursamlag Eyfirðinga fengi nokkrar krónur af þessum mjólkurbúastyrk, ef það hefir þörf á því. En hafi það enga þörf fyrir slíka hjálp, þá sé ég enga ástæðu til að veita því hana fremur en öðrum fyrirtækjum. Það eru áreiðanlega mörg fyrirtæki í landinu, sem kæmi mjög vel að fá einhverja hjálp á þessum tímum. Hv. þm. var að tala um, að þetta mætti ekki vera stuðningur við heilbrigðan atvinnurekstur. Ég veit ekki, hvað hann á við með því. Við viljum einmitt hjálpa heilbrigðum atvinnurekstri, sem ekki getur þó staðizt yfirstandandi kreppu. En að hjálpa atvinnurekstri, sem ekki þarf virkilega á hjálp að halda, í því er ekkert réttlæti og engin sanngirni á neinn hátt.

Hv. þm. talaði um, að miklu dýrara væri að koma upp mjólkurbúum heldur en frystihúsum. Já, það er nokkru dýrara, en munurinn mun ekki vera mikill. Kostnaðurinn við að koma upp frystihúsi hefir komizt upp í 200 þús. kr., og ég hygg, að sum mjólkurbúin hafi varla orðið svo dýr. Dýrasta mjólkurbúið kostaði um 400 þús. kr., en það varð líka langsamlega dýrast. Stofnkostnaður þessara tveggja tegunda fyrirtækja er því mjög sambærilegur. Að öðru leyti ætla ég ekki að fara út í neinn samjöfnuð þar á milli. Hv. þm. benti á, að við hefðum getað farið fram á viðbótarstyrk til frystihúsanna. Ég hefi eigi séð mér það fært. Ég tel ekki rétt að veita fyrirtækjum slíka aukafjárveitingu, nema brýna nauðsyn beri til. Út í það efni sé ég eigi ástæðu til að fara frekar, en mótmæli harðlega, að einhverjar sérstakar hvatir liggi til grundvallar fyrir brtt. okkar. Mér finnst hún sprottin af eðlilegum skilningi á því máli, sem hér liggur fyrir, og hvernig ber að leysa það.

Um ræðu hv. frsm. landbn. og þá skrifl. brtt., sem hann hefir borið hér fram, get ég verið stuttorður. Hann hefir gengið þar að miklu leyti inn á það, sem fyrir okkur vakti. Er það því aukaatriði fyrir mér, hvort till. hans er samþ. eða ekki. Ég vænti, að hæstv. stj. taki til greina það, sem fram kom í ræðu hv. frsm. og ég nú vil endurtaka, að ætlazt er til, að greiðsla þessa ¼ af stofnkostnaði mjólkurbúanna fari fram að undangenginni rannsókn á hag þeirra, og því aðeins, að þess sé brýn þörf. Verði þessum skilningi ekki mótmælt, tel ég ekki skipta miklu máli, þó ekki standi í frv. sjálfu þau orð, sem hv. þm. Borgf. vill fella niður, því ég geri ráð fyrir, að hæstv. stj. hagi framkvæmdum eftir þeim ummælum, sem hér hafa fallið. Sé ég svo ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta atriði.

Mér hafði dottið í hug að segja nokkur orð út af ræðu hv. þm. N.-Ísf., en hv. þm. Borgf. hefir nú svarað henni að nokkru leyti. Það er ekki af því, að ég geti ekki fallizt á ræðu hans að ýmsu leyti, en hann dró fram dæmi viðvíkjandi aðstöðu bænda hér á landi, sem mér virtust alls ekki rétt. Hann talaði t. d. um, að bændum dygði ekki að fá 20—22 aur. fyrir mjólkurpottinn. Það má vera, að mönnum dugi það ekki hér við Rvík, en ef bændur fengju almennt verð sem því svarar fyrir afurðir sínar, þá mundum við ekki þurfa að vera að bollaleggja um þær ráðstafanir hér, sem nú á að gera til viðreisnar landbúnaðinum, því þá munda bændur standa sig vel. En því miður er verðlag landbúnaðarafurðanna yfirleitt margfalt lægra en þessu svarar. Hv. þm. benti á það sem eitthvað sérstakt, að í Bandaríkjunum væri verðlag landbúnaðarafurða orðið lægra heldur en fyrir stríðið. Þetta er ekki annað en það, sem hér er orðið líka. Í haust fékkst t. d. ekki nema 6—7 kr. fyrir dilka. Ég man ekki betur en þeir væru í hærra verði 1912—1914. Þá munu hafa fengizt 8—9 kr. fyrir dilkinn, og það í betri krónum. Það er því ekkert einstakt dæmi, þó vöruverð sé komið niður fyrir það, sem var fyrir stríðið; það mun vera svo í flestum löndum. Það er ekki að miða við mjólkurverðið hér í Rvík, sem er alveg sérstakt, heldur verður að líta á hið almenna ástand. Vegna þess ástands verður að grípa til hinna sérstöku ráðstafana til hjálpar landbúnaðinum. Það er ekkert einsdæmi hjá okkur; svipaðar ráðstafanir er verið að gera í ýmsum löndum í kringum okkur. Þó stendur að einu leyti öðruvísi á hjá okkur en öðrum þjóðum. Við höfum lagt svo óhemju mikið fé í landbúnaðarframkvæmdir á síðustu árum, eftir okkar mælikvarða, að vart finnst hliðstætt dæmi hjá öðrum þjóðum. Við vitum, hvernig landbúnaðurinn var rekinn hér til skamms tíma, og hvernig hann er rekinn að miklu leyti enn. Bændur hafa næstum því ekkert af verkfærum, sem svara kröfum tímans, og vinna svo að segja með miðaldaaðferðum. Nú hefir verið lagt stórfé í það að færa búskapinn í nútíðarhorf, og það fé er viða ekki farið að svara vöxtum enn. Það hefir verið lagt mikið fé í að rækta jörðina, en hún er víða ekki komin í rækt enn. Þess vegna er aðstaða ísl. bænda erfiðari nú heldur en stéttarbræðra þeirra erlendis. Landbúnaðarkreppan lagðist á okkur með öllum sínum þunga á allra óheppilegasta tíma. Í nágrannalöndunum voru búnaðarumbæturnar komnar að gagni löngu áður, og þurftu bændur þar því ekki annað en halda í horfinu.

Ég undra mig ekkert á því, þó menn eins og hv. þm. N.-Ísf., sem er að nokkru leyti fulltrúi fyrir annan atvinnuveg, bendi á það, að hér sé verið að færa landbúnaðinum miklar fórnir; það er ekki nema eðlilegt. En ég vildi vekja athygli á því, að mér fannst hv. þm. ekki gera eins mikið úr verðfalli landbúnaðarafurðanna eins og það er í raun og veru. Árið 1928 seldum við Skagfirðingar dilkana á 18—20 kr. og töðuhestinn einnig á 18—20 kr. Nú fáum við ekki nema 7 kr. fyrir dilkana og þykir gott, ef við getum selt töðuhestinn fyrir 5 kr. heima á túninu. Þetta sýnir, hvað hinar fábreyttu afurðir ísl. bændanna hafa fallið gríðarlega í verði á svona skömmum tíma. Það er varla hægt að hugsa sér, að atvinnurekstur, sem verður fyrir slíku skakkafalli, geti gengið sinn eðlilega gang án sérstakra ráðstafana.

Um það, að auka þurfi fjölbreytni atvinnuveganna, er ég hv. þm. alveg sammála. Ég býst við, að það þurfi beinlínis að umskapa okkar landbúnað í framtíðinni. Nokkrar ráðstafanir hafa líka þegar verið gerðar á þessu þingi til þess að auka fjölbreytni framleiðslunnar. Það hafa verið sett 1. um innflutning karakúlafjár og um innflutning erlendra nautgripa af holdakyni. Fleira mætti benda á, sem sýnir, að menn hafa opin augu fyrir þessari þörf og vilja skapa möguleika til þess að umskapa landbúnaðinn eftir því sem kringumstæðurnar heimta nú og framvegis.

Ég sé ekki ástæðu til að koma frekar inn á það mál, sem hér liggur fyrir. Ég mun út af fyrir sig láta afskiptalaust, hvort brtt. hv. þm. Borgf. er samþ. eða ekki.