30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

1. mál, fjárlög 1934

Jóhann Jósefsson:

Þessi hv. d. samþ. hér við 3. umr. fjárl. þá einróma till.fjvn. að veita 10 þús. kr. úr ríkissjóði til ræktunarvega í Vestmannaeyjum, en nú hefir hv. Ed. lækkað þessa upphæð niður í 6 þús. kr. Það virðist svo sem hv. Ed. hafi sýnt hér allmikla óbilgirni, þegar á það er litið, hversu einróma fylgi fjvn. Nd. þessi fjárveiting hafði, því það verður að líta svo á, að það sé nokkuð ólíku saman að jafna, hvort till. er samþ. með yfirgnæfandi meiri hl. Nd. eða að hún aðeins merst í gegn. Ég varð var við það, að hv. þdm. komu með brtt. við þessa umr. til þess að leiðrétta sumar þær breyt., sem Ed. hafði gert á frv., og flyt ég því brtt. um lagfæringu á þessu, sem ég vona, að hv. þd. samþ., ef fjárl. verða opnuð á annað borð. Upphafleg till. fjvn. þessarar hv. d. var studd með tvennum rökum. Annarsvegar þeim, að Vestmannaeyjar fengju ekki annað fé til vega úr ríkissjóði en þessar 10 þús. kr., og hinsvegar, að hér væri um nauðsynlegar atvinnubætur að ræða. En þrátt fyrir þessi rök hefir hv. Ed. höggvið nálega helminginn af fjárveitingunni. Fari nú hinsvegar svo, að ekki verði hreyft við fjárl. og till. mín felld, vil ég benda á það, að þessi upphæð, 6 þús. kr., nær enganveginn tilgangi sínum sem atvinnubót, auk þess sem hún er miklu lægri en það, sem Vestmannaeyjar ættu skilið að fá móts við önnur héruð. Ég vil og í þessu sambandi minna á það, að Vestmannaeyjar hafa ekki enn fengið neitt af atvinnubótafé því, sem hingað til hefir verið úthlutað úr ríkissjóði, og verði brtt. mín á þskj. 837 felld, verð ég að benda hæstv. stj. á það, að vonast er til þess, að hún sýni Vestmannaeyjum fulla sanngirni hvað úthlutun á atvinnubótafé snertir.