01.06.1933
Efri deild: 86. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2527 í B-deild Alþingistíðinda. (4090)

191. mál, mjólkurbúastyrk og fl.

Frsm. (Jón Jónsson) [óyfirl.]:

Eins og kunnugt er hafa á seinni árum risið upp nokkur mjólkurbú, og hafa aðallega 5 samvinnufélög gengizt fyrir stofnun þeirra, t. d. er eitt í Eyjafirði, eitt í Borgarfirði, tvö í Árnessýslu og eitt í Rvík. Þessi félög eiga nú afarörðugt uppdráttar, stofnkostnaður hefir orðið geysimikill; mjög dýrt hefir reynzt að koma á fót vélum og öðru, sem til þessarar iðju heyrir. Ríkið hefir veitt þessum fyrirtækjum styrk, sem nemur ¼ af stofnkostnaði þeirra, og auk þess gert þeim hægt fyrir að fá rekstrarlán úr þeim sjóðum, sem til þess má ætlast af, t. d. viðlagasjóði. Það er nú eftirtektarvert, að sú stærsta af þessum stofnunum, Mjólkurbú Flóamanna, á einna örðugast uppdráttar. Ríkið hefir þegar veitt því fjárhagslega aðstoð, sem nemur öllum stofnkostnaði þess, 400 þús. kr., þannig, að ¼ af þeirri upphæð er beinn styrkur, en hin 300 þús. eru lánveiting, en fyrirtækið hefir enn ekki getað staðið undir greiðslum af þeirri skuld. Frv. fer fram á, að styrkauki sé veittur þessum mjólkurbúum, vegna þess að illa lætur í ári og kostnaður við þessi störf hefir farið upp úr öllu valdi, svo að þau eiga erfitt með að standast straum af skuldagreiðslum sínum. Ætlazt er til, að styrkurinn sé aukinn úr ¼ stofnkostnaðar allt upp í helming, og helzt á að haga þeim greiðslum svo, að bein útgjöld hljótist ekki af því fyrir ríkissjóð, t. d. með Mjólkurbú Flóamanna verði því svo fyrir komið, að því verður gefið eftir 1/3 af láninu, þ. e. a. s. 100 þús. kr., sem jafnframt er ¼ af stofnkostnaði, og að búnaðarbankinn taki við skuldabréfi því, sem mjólkurbúið gefur út fyrir þeirri upphæð, þó ekki hærra en sem nemi niðurfærslu á viðlagasjóðslánum hinna mjólkurbúanna. Það má nú e. t. v. segja, að nokkuð langt sé gengið með því að styrkja mjólkurbúin að svona miklu leyti, en vegna hinnar tæpu aðstöðu þeirra verður vart hjá því komizt.