02.06.1933
Efri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2530 í B-deild Alþingistíðinda. (4114)

211. mál, lántöku erlendis

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Undirbúningur málsins er sá, að ég átti í haust tal við Barcleysbanka um það, að ríkið kynni að þurfa rekstrarlán á þessu ári, og var vel tekið í þá málaleitun. Bað ég síðan hæstv. dómsmrh. að endurtaka lánsumleitunina, og er bankinn fús til að veita lánið. Frv. ber með sér, til hvers á að nota lánið. Það er bersýnilegt, að ríkið getur ekki greitt afborganir sínar af erlendum skuldum 1. júlí án þess að taka lán. l. jan. mátti heita, að væri sjóðlaust og skuldlaust. Síðan hafa ekki verið stofnaðar lausaskuldir, og má að heita sæmileg afkoma. Hinsvegar verður ekki skotizt undan því að greiða erlendar skuldir á gjalddaga. Reglan er sú, að tekjurnar koma örar inn síðara hluta ársins. Með þeim tekjum er tilætlunin að greiða lánið aftur, og vonirnar um endurgreiðslu byggjast á því, að þetta ár verði ekki lakara tekjuár en 1931 og að þingið veiti auknar tekjur, sem samsvari þörfum ríkissjóðs. Þetta eru að vísu aðeins vonir, en þær hafa mikið við að styðjast, en hitt er vafalaust, að lánið þarf að taka og að ekki má leggja það á innlendar lánsstofnanir. Hinsvegar eru líkur til, að stjórnin þurfi ekki að nota nema hálfa heimildina.

Það er rétt, að illt er, að lausar skuldir verði fastar, en slíkt hefir nú hent áður, þegar við hv. 5. landsk. vorum ráðherrar saman og áður, en nú verður ekki sagt annað en að útlit fyrir endurgreiðslu sé sæmilegt.