13.05.1933
Neðri deild: 73. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2541 í B-deild Alþingistíðinda. (4126)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Ég hafði beiðzt þess við 1. umr. þessa máls, að frv. yrði sent bæjarstjórnum Rvíkur og Hafnarfjarðar til umsagnar, áður en málið kæmi aftur fyrir í d., af því að hér er um ráðstafanir að ræða, sem snerta þessi bæjarfélög vissulega ekki lítið. Landbn. hefir þó ekki séð ástæðu til að verða við þessum tilmælum mínum, og hélt ég þó, að það gæti verið fróðlegt bæði fyrir n. og Alþingi að frétta, hvað bæjarstjórn Rvíkur t. d. hefir nú á prjónunum þessu máli viðvíkjandi, en bæjarstjórnin hér vinnur nú að athugun þess, hvernig fyrirkomulag mjólkursölunnar hér í Rvík verði haganlegast fyrir komið fyrir báða aðilja, neytendur og framleiðendur. Þær ráðstafanir, sem hér eru ráðgerðar, fara í bág við það, sem bæjarstj. hér helzt mun hafa hugsað sér að samþ. í þessu efni, því að hér er farið fram á að afhenda framleiðendunum takmarkalítið réttinn á markaðinum í hinum stærri kaupstöðum, einkum þó hér í Rvík og í Hafnarfirði, þannig að þessi markaður verði sem arðbærastur fyrir framleiðendurna, þó svo, að þeir framleiðendur, sem bezta aðstöðu hafa til að selja mjólkina ódýrt, eiga samkv. frv. að greiða skatt til hinna, sem eru lengra í burtu og erfiðari aðstöðu hafa, til þess að jafna afurðaverðið milli framleiðendanna, þeirra, sem nær eru, og þeirra, sem eru fjær. Finnst mér einmitt þetta vera aðalatriðið fyrir framleiðendurna, að hér er stefnt að því að jafna hlut þeirra, sem fjær eru, við hlut hinna, sem eru nær, og til þess að koma þessari jöfnun á, hefir sú leið verið valin, að skattleggja framleiðendurna hér í nágrenni bæjarins, og það ekki minna skatti en svo, að ef miðað er við útsvar þessara manna, verður skatturinn, sem þeir samkv. frv. eiga að greiða til keppinauta sinna, meiri en fært þykir að láta þá breiðu í útsvör til bæjarins. Getur þetta auðvitað ekki komið til mála. Deildin hlýtur að vita, að framleiðendurnir hér í nágrenni Rvíkur verða að kosta meiru til framleiðslu sinnar en þeir, sem engu þurfa til að kosta til þess að rækta land sitt til mjólkurframleiðslu, en það er hinsvegar á margan hátt óhagstætt að gera landið hér í nánd við bæinn arðbært. Er þetta atriði sérstaklega varhugavert, og er enda beinlínis sama sem dauðadómur yfir öllum þeim, sem brotizt hafa í því að rækta land hér í kringum bæinn með það fyrir augum að selja mjólkina hingað til Rvíkur. Ég mun og ekki geta greitt slíkum ráðstöfunum sem þessum atkv. mitt, fyrr en mér þá hefir verið sýnt fram á það, að þetta geti orðið án þess að mjólkurframleiðslan hér í nágrenninu bíði stórtjón af og jafnvel falli niður. Gæti ég hugsað mér, að n. hefði athugað, hve mjólkurframleiðslan er mikil hér í nágrenni Rvíkur. Sé ég ekki réttlætið í því að skattleggja hina reykvísku mjólkurframleiðendur til þess að hjálpa þeim, sem fjær eru, til þess að þeir standi betur að vígi að keppa á mjólkurmarkaðinum hér. Eru þessar ráðstafanir óforsvaranlegar með öllu, þar sem þær miða fyrst og fremst að því að auka fjárhagslega erfiðleika þeirra manna, sem lagt hafa fé sitt í ræktun hér í nágrenni Rvíkur, til þess að hafa ofan af fyrir sér með mjólkursölu, og verður Alþingi að gera sér ljóst, hvað við tekur, ef þessi framleiðsla verður gjaldþrota vegna slíkra ráðstafana.

Þá vildi ég drepa lítillega á annað atriði. Svo er til ætlazt samkv. frv., að skipuð verði n. til að ákveða mjólkurverðið, en allir þeir, sem eru allt að 130 km. burtu frá sölustaðnum, geta tekið þátt í mjólkursölunni. Hvernig á nú þessi n. að ákveða markaðsverðið? Til hvers á að taka tillit í því sambandi? Á að miða við framleiðslukostnað þeirra, sem lakasta aðstöðu hafa til framleiðslunnar, eða hinna, sem bezta hafa aðstöðuna? Eða á að taka meðaltal af þessu tvennu og miða við það, sem duglegur bóndi með meðalaðstöðu til framleiðslunnar getur látið sér nægja? Geri ég helzt ráð fyrir, að þessi millivegur verði farinn, og vil þá spyrja hv. n., hvort hún hafi gert sér grein fyrir, hvernig verður aðstaða þeirra framleiðenda, sem á að skattleggja sérstaklega í þessu augnamiði. Er ekki einmitt með þessum ráðstöfunum verið að útrýma reykvísku framleiðendunum, þar sem fara á að skattleggja þá í því skyni að styrkja keppinauta þeirra, sem eru lengra frá markaðinum? Eða getur n. e. t. v. sýnt fram á, að svo sé ekki? Geri hún það þá.

Ýms smærri atriði í þessu frv. gætu gefið tilefni til athugunar, en ég skal þó ekki fara frekar út í frv. að sinni.