13.05.1933
Neðri deild: 73. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2548 í B-deild Alþingistíðinda. (4129)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Ólafur Thors:

Ég þakka háttv. n. fyrir góða og skjóta afgreiðslu þessa máls. Eins og máli þessu er varið hefði ég helzt kosið að skipta mér ekki af umr. um það. Afstaða hv. 4. þm. Reykv. til þess ber vott um, að hann hafi ekki hugsað málið vel. Ég þyrfti að tala langt mál, ef ég ætti að hrekja alla ræðu hans eins og þörf væri á, því að hún var öll á misskilningi byggð. Í frumræðu minni sýndi ég fram á, að getsakir þær, sem hann var með, eru með öllu óþarfar. Einnig er mikið af ræðu hans hrakið með ræðu hv. frsm. Hann var ennþá að kvarta yfir því, að málið hefði ekki verið sent til umsagnar bæjarstjórnunum í Rvík og Hafnarfirði, og hann gekk svo langt í málflutningi sínum, að hann vildi jafnvel gefa það í skyn, að það hefði verið vitandi vits að láta frv. koma svona seint fram, svo ekki væri hægt að leggja það undir bæjarstjórnirnar. Þetta eru ómaklegar aðdróttanir, því að það er vitanlegt, að skoðanir bæjarstjórnanna fara ekki dult hér á Alþingi, hvorki í þessu máli né öðrum, sem ekki er undarlegt, þar sem hér eiga sæti menn úr bæjarstjórnunum, eins og t. d. úr bæjarstjórn Rvíkur hv. 4. þm. Reykv. og borgarstjórinn sjálfur. Það virðist því næsta einkennilegt af hv. þm. að vera að fjargviðrast yfir þessu. Það verður ekki með sanni sagt, að við komum fram með frv. þetta á elleftu stundu. Efni þess er vel kunnugt bæjarstjórnunum og þær eiga sína talsmenn hér. Mér heyrðist hv. þm. segja, að mikið hefði verið hugsað um þetta mál, helzt í mörg undanfarin ár í bæjarstjórn Rvíkur. Þetta má vel vera. En hv. þm. hefði þá átt að vera orðinn viðbúinn að taka afstöðu til þess, nú þegar það kemur inn í þingið. Að fara að senda málið til umsagnar bæjarstjórnar Rvíkur nú, var alveg sama og kæfa það. Hinsvegar skal ég játa, að ég hefði ekki talið annað við eiga en að senda henni það, ef hún hefði ekki átt jafnmarga fulltrúa hér á Alþingi og hún á.

Mér fannst bera mest á því í ræðu hv. 4. þm. Reykv., að með frv. þessu væri verið að skattleggja neytendur og smáframleiðendur kringum bæina með drápsklyfjum. En þetta er gersamlegur misskilningur á grundvallaratriðum málsins. Það, sem vakir fyrir okkur, er það, að koma á sameiginlegu skipulagi milli allra þeirra, sem framleiða mjólk og selja hingað til Rvíkur og Hafnarfjarðar. Hvort hér sé farin hin réttasta leið til þess að bæta úr því ástandi, sem nú er um mjólkursöluna, má kannske deila um. En það veit hv. þm., að þegar mikið berst af einni vörutegund á markaðinn, þá er hætta á, að hún falli í verði. Og til þess að koma í veg fyrir þessa hættu er frv. fram komið. Ég benti á það í frumræðu minni, að hér í Rvík væru hartnær 100 mjólkurbúðir, í stað þess sem reglugerðin um mjólkursölu hér gerir ráð fyrir 12. Með tilliti til þess, sem fólki hefir fjölgað hér síðan reglugerð þessi var sett, mun láta nærri, að þær ættu að vera 20 nú.

Ein fullyrðing hv. þm. var sú, að hver sú mjólkurbúð, sem hægt væri að halda opinni án tekjuhalla, ætti rétt á sér. Ég skal ekki að þessu sinni fara að rökræða þessa staðhæfingu hv. þm., en benda vil ég honum á; að þó að mjólkurbúð kannske beri sig reikningslega, þá er ekki víst, að hún sé sem heppilegust fyrir því. Það út af fyrir sig er engin trygging fyrir því, að ekki sverfi svo að framleiðanda mjólkurinnar, að hann verði að selja hana undir framleiðslukostnaði, og að neytandinn greiði samt of hátt verð fyrir mjólkina. Aðalatriði þessa frv. er að halda verði mjólkurinnar í sem mestu samræmi við framleiðslukostnaðinn, og því er farið fram á, að mjólkurframleiðendur greiði skatt í hinn svonefnda verðjöfnunarsjóð.

Sé það rétt hjá hv. 4. þm. Reykv., að smáframleiðendurnir kringum kaupstaðina hafi lagt fram mikið fé til stofnkostnaðar búrekstri sínum, og standi því höllum fæti í samkeppninni við aðra mjólkurframleiðendur, sem hafa ódýrari framleiðslu, þá er það sýnilegt, að engum er meiri þörf á því en þeim að halda verðlagi mjólkurinnar í sem réttustu hlutfalli við framleiðslukostnaðinn. Þess vegna á það að vera og er sérstakt hagsmunamál fyrir þá, að þessi samtök komist á. (PHalld: Kannske þau séu aðeins gerð fyrir þá?). a. m. k. ekki síður en fyrir aðra, þar sem verið er að koma í veg fyrir e. t. v. allt að 10 aur. verðfall á mjólkinni. En 10 aur. lækkun á mjólkinni myndi hafa í för með sér gjaldþrot, fyrst og fremst þeirra, sem standa höllum fæti, og líka margra annara bænda.

Þó að frv. sé að sjálfsögðu borið fram til verndar bændum, þá er það og einnig borið fram til verndar neytendum. Það á að tryggja þá gegn því, að verðlag mjólkurinnar verði of hátt. Verðlagsnefnd skipuð 7 mönnum, aðeins 2 af hálfu framleiðendanna, á að vera neytendunum full trygging fyrir því, að þeirra hagsmuna verði gætt, að verðlag mjólkurinnar verði jafnan sett eins lágt og unnt verður.

Það hefir verið spurzt fyrir um það, eftir hverju eigi að fara þegar verðlag mjólkurinnar sé ákveðið. Í fljótu bragði er ekki hægt að telja það allt upp, en að sjálfsögðu verður byggt á fóðurkostnaði, hirðingarkostnaði, flutningskostnaði, kaupgjaldi, vöxtum o. fl. o. fl. Það, sem hér þarf að gera, er að finna út kvóta fyrir verðlag mjólkurinnar. Það eiga vitrir menn, eins og t. d. hagstofustjórinn hér í Rvík, að vinna það verk.

Það er rétt, að sitt á við á hverjum stað, það á annað við hér í Rvík heldur en norður í Eyjafirði, enda ekki ætlazt til, að sama verðlagsnefnd verði á báðum stöðunum. Hitt nær engri átt af hv. þm., að ætla okkur flm. að kveða upp um það, hvert eigi að vera mjólkurverðið í framtíðinni.

Ég ætla að enda mál mitt með því að geta þess, að sá skattur, sem leggst á skjólstæðinga hv. þm., er eigi meiri en sá, sem skjólstæðingar okkar flm. frv. verða að bera. Kaupstaðarbúar hafa engu síður hag af ákvæðum þessa frv. en bændur. Það ætti því að vera sameiginlegt áhugamál okkar flm. frv. og hv. 4. þm. Reykv. að vinna að því að leiða þetta mál til farsællegra lykta.