18.03.1933
Neðri deild: 30. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

2. mál, fjáraukalög 1931

Frsm. (Hannes Jónsson):

Þetta frv. er samið eftir sömu reglum og gilt hafa um samningu fjáraukalaga a. m. k. um 10 ára skeið. Í nál. fjhn. á þskj. 165 er gerð nokkurn veginn grein fyrir töluniðurstöðum þeim, sem frv. og landsreikningurinn í heild sýnir. N. hefir gert sér far um að bera nákvæmlega saman frv. og LR. og sérstaklega athugað um þær umframgreiðslur, sem orðið hafa á árinu án þess aukafjárveitingar væri leitað fyrir þeim. Alls eru þær umframgreiðslur, eins og hv. þdm. geta séð á nál., rúmlega 1690 þús. kr. Aftur hafa nokkrir gjaldaliðir orðið undir áætlun, sem nemur um 800 þús. kr. Hvortveggja þessara liða eru svo sundurgreindir í nál. og taldir upp allir liðir, sem hafa farið fram úr áætlun, en ekki verið leitað aukafjárveitingar fyrir. Einn liðurinn í þessari upptalningu er samandreginn, nefnilega það, sem greiðslur samkv. launalögunum hafa farið fram úr áætlun. Að öðru leyti eru liðirnir ekki fleiri á LR, heldur en þessari upptalningu.

Þá sé ég ástæðu til að skýra nokkuð a. m. k. tvær tölur af þeim, sem teknar hafa verið hér upp á fylgiskjal til þess að finna út þær greiðslur, sem farið hafa fram yfir áætlun eða ekkert verið áætlað fyrir, en sem eru taldar lögboðin gjöld, svo ekki þarf að leita aukafjárveitinga fyrir þeim. Það eru þá fyrst lögboðnar fyrirframgreiðslur. Þær eru taldar hér 15 þús. kr., en eru í LR. rúmar 25 þús. kr. Að þær eru hér taldar þetta lægri, stafar af því, að fjárveiting er til fyrir 70 þús. kr. af þessari upphæð. Þá eru greiðslur samkv. sérstökum lögum hér taldar 6 þús. kr. lægri heldur en í LR., sem stafar af því, að leitað hefir verið aukafjárveitingar fyrir rúmum 6 þús. kr., sem í þessari upphæð felst. Er það framlag til bryggjugerðar í Borgarnesi. Til þeirrar bryggju var veitt fé samkv. l. frá 1926. Þar var tiltekin ákveðin upphæð, sem fjárveitingin mátti ekki fara fram úr, 150 þús. kr. Á árunum 1930 og 1931 var varið nokkru fé til þessarar bryggjugerðar; en fjárveitingin var áður komin upp í hámark, og þessvegna var leitað aukafjárveitingar fyrir því, sem greitt var fram yfir 150 þús. kr. Að öðru leyti eru þær tölur, sem hér eru upp teknar, nákvæmlega eftir LR.

Ég skal geta um það, að af vissum ástæðum eru þessi fjáraukalög óeðlilega há, samanborið við eldri fjáraukalög. Það stafar að nokkru leyti af því, að upp hefir verið tekin ný regla um færslu LR, að því er snertir ýmsar stofnanir ríkisins. Þær hafa áður fyrr oft ekkert komið inn á LR., og þó tekjuafgangur hafi orðið hjá þeim, hefir hann verið færður sem sjóðsaukning hjá stofnununum sjálfum, en ekki látinn koma á LR. Nú er farið að færa tekjuafgang ríkisstofnana tekjumegin á LR., og ef hann er látinn halda áfram að vera sem rekstrarfé stofnananna sjálfra, þá er það fært til útgjalda á væntanleg fjáraukalög. Sú upphæð, sem þannig er tilkomin á fjáraukalagafrv. nú, nemur um 360 þús. kr.

Einnig má geta þess, að í þessu fjáraukalagafrv. eru eftirstöðvar af byggingarkostnaði landssímastöðvarinnar, útvarpsstöðvarinnar og síldarbræðsluverksmiðjunnar á Siglufirði, sem nema 400 þús. kr., og 200 þús. kr. útgjöld vegna ábyrgðar fyrir h. f. Kára og Samvinnufélag Ísfirðinga. Þessar greiðslur allar valda því, að fjáraukalagafrv. er nú óvenjulega hátt.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar. N. leggur til, að frv. verði samþ. með nokkrum smávægilegum breyt. Eru það aðeins leiðréttingar á prentvillum, samlagningarvillum og einni smáskekkju, sem stafar af því, að yfirskoðunarmönnum LR. hefir yfirsézt, að til var fjárveiting fyrir hluta af þeirri upphæð, sem leitað er aukafjárveitingar fyrir í frv., til íslenzkra stúdenta á erlendum háskólum. Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar.