18.05.1933
Neðri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2570 í B-deild Alþingistíðinda. (4142)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Nú sýnast vera orðnar nokkuð skiptar skoðanir á þessu frv. Manni liggur við að láta sér detta í hug, að þegar á nú að selja þessa mjólkurkú, þennan markað í Rvík, þá vilji margir fá hlutdeild þar i. Það virðist svo, að erfitt verði að finna fyrirkomulagið á afhendingu þessa markaðs til þeirra sveitahéraða, sem mönnum kemur saman um, að eigi að fá að njóta þessara fríðinda. Nú rignir niður brtt. um þetta, sem m. a. ganga út á að stækka mikið það svæði, sem á að fá þessi fríðindi.

Um þetta mál vil ég fyrst og fremst segja það, að það er engin þörf fyrir þessa d. að samþ. slík l. vegna heilbrigðisástæðna. Fyrir nokkrum árum fóru mjólkurframleiðendur þess á leit við bæjarstjórn Rvíkur, að hún bannaði að selja aðra mjólk en gerilsneydda, og var það, að því er fram kom við þær umr., m. a. til þess að neyða ýmsa mjólkurframleiðendur, sem höfðu ekki tök á að gerilsneyða mjólk sína, til að ganga í sölusamband með þeim, en meðfram til að tryggja, að eingöngu holl mjólk væri seld. En þó að bæjarstjórn gengi þá ekki inn á að afhenda framleiðendunum markaðinn á þennan hátt, þá er þetta mál samt komið í trygga höfn. Þess vegna held ég, að ástæðulaust sé fyrir d. að samþ. þetta frv. af þeim ástæðum, að með því sé séð fyrir því, að holl mjólk sé seld á markaðinum í Reykjavík. Bæjarstjórn Rvíkur er einfær um að sjá um það með þeim l., sem hún hefir að styðjast við. Hv. þdm. er því óhætt að fella frv. þeirra hluta vegna.

En það kom líka fram í ræðu hv. frsm., að þeir vilji nú aftur fá lagastuðning til að knýja þá framleiðendur, sem hafa ekki viljað vera í samtökunum með öðrum mjólkurframleiðendum, til að taka nú þátt í þessum félagsskap framleiðendanna hér í nágrenninu. Ég held, að þessi d. ætti að athuga það mjög nákvæmlega, áður en hún gerir það að ástæðu til að samþ. þetta frv., því að þessu mundu fylgja mjög margháttaðar breyt. á högum framleiðenda hér í kring, og þarf sérstakrar rannsóknar við, áður en þingið samþ. l. um það.

Þá verð ég að segja það, að fyrir utan þessi atriði finst mér eitt stórt atriði vera í þessu frv., sem ég tel, að engin sanngirni sé að láta standa þar, þó að d. vildi nú samþ. frv., og það er að ætla að skattleggja alla mjólkurframleiðendur hér í nágrenninu, og það svo stórlega, að lítil líkindi eru til, að þeir geti haldið áfram búrekstri sínum. Þetta á að gera í því skyni að gera mjólkurframleiðsluna ódýrari lengra burtu frá bænum. Það má áreiðanlega fullyrða, að afleiðingin af þessari löggjöf yrði sú, að mjólkurframleiðsla í fjarlægari héruðunum ykist svo mikið, að verðið hlyti að stórlækka af þeim sökum, og er þá fjarri því, að tilgangi flm. sé náð. Það ætti öllum að liggja í augum uppi, að hjá þessu getur ekki farið, og þó að tilgangurinn sé annar í augnablikinu, þá kemur þetta fram áður en langt um líður, og er þá verr farið en heima setið, fyrir utan þau rangindi, að skattleggja framleiðendurna hér í nágrenninu, svo að þeir geti ekki haldið áfram framleiðslu sinni. Þessi skattur er svo hár, að aldrei hefir stjórnarvöldum þessa bæjar dottið í hug að leggja slíkan skatt á til opinberra þarfa. Og er þá ekki of langt farið, ef þingið vill gefa samþ. sitt til að aðrir framleiðendur eigi að fá sér til hagsbóta að skattleggja þessa menn svo stórkostlega, að þeir verði að leggja atvinnurekstur sinn niður? Þetta þýðir þar að auki það, að ekki verður haldið áfram að rækta landið kringum Rvík, og hv. frsm. vill e. t. v. segja, að þar sé enginn skaði skeður. (BÁ: Það hefi ég aldrei sagt). Hann segir það, ef hann viðurkennir, að þessi verði árangurinn. (BÁ: Ég hefi aldrei viðurkennt það). Þá hlýtur hann að halda því fram, að mjólkina eigi að framleiða þar, sem það er ódýrast, og þess vegna eigi ekki að rækta landið kringum Rvík, því að það sé tvöfalt dýrara en að rækta austur á Rangárvöllum eða austur undir Eyjafjöllum. En það á ekki að miða við þetta, heldur hitt, hver geti á eðlilegan hátt fullnægt markaðinum ódýrast. Og þá má ekki skattleggja suma framleiðendurna til að styrkja aðra, sem keppa við þá á sama markaði.

Ég get ekki skilið, að d. geti fallizt á, að þetta verði gert. Ég get ekki skilið, að hv. þm. vilji samþ., að teknar verði við skulum segja 50 þús. kr. á ári af mjólkurframleiðendum í grennd við Rvík og dreift niður á bændur austur í Árnes- og Rangárvallasýslum. Það er eðlilegt, þegar svona frv. kemur fram, að þeir, sem búa utan þeirra takmarka, sem hér eru sett, sem í frv. eru 150 km. frá sölustað, það er eðlilegt að þeir, sem búa 155 km. frá sölustaðnum, segi sem svo: „Hvers vegna megum við ekki eins njóta þessara fríðinda eins og þeir, sem búa einum 5 km. nær sölustaðnum en við?“ Það er því eðlilegt, að þm. þessara héraða komi með brtt. um að færa þessi takmörk lengra út, af því að þeir sjá, að hér er verið að veita sérstökum flokki manna mikil fríðindi á kostnað annara. Svo þegar á að fara að mæla þessa 150 km. út frá sölustaðnum, þá má ekki mæla beina stefnu, heldur verður að fara götur og krókaleiðir eins og leið liggur, og er þetta vitanlega gert til að fækka þeim sem mest, sem eiga að fá þessi fríðindi. Og svo heldur hv. frsm. fram, að hér sé engum verið að vinna mein, heldur öllum gagn. Þessu mótmæli ég algerlega. Það er a. m. k. ekki verið að vinna gagn smærri framleiðendum í nágrenni Rvíkur, sem á nú að skattleggja svo stórkostlega, að það hlýtur að drepa atvinnurekstur þeirra. Það er ekki sæmandi fyrir þessa d. að stuðla að því að eyðileggja búskap þessara manna, sem nú á síðari árum hafa komið sér upp mjólkurbúi með ærnum kostnaði og mér er sagt að eigi nú 800—1000 kýr.

Til að reyna að koma í veg fyrir þetta, hefi ég nú borið fram brtt. á þskj. 684, þar sem lagt er til, að þetta 5% gjald af framleiðendum í nágrenni Rvíkur skuli falla úr frv.

Ég vona, að hv. d. líti með sanngirni á þetta mál og samþ. þessa till., þegar til atkvgr. kemur.