19.05.1933
Neðri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2576 í B-deild Alþingistíðinda. (4145)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég hafði skrifað hjá mér nokkrar aths., sem ég ætlaði að víkja að. Mest af því er heldur smávægilegt, og hefði ég getað fallið frá því að taka til máls nú, af því að það kom ekki til á þeim sama fundi.

Hv. þm. Mýr. færði enn nýjar ástæður fyrir því, að það ætti að samþ. þetta frv. Virtist mér einna veigamest sú ástæða, að þessi löggjöf hefði reynzt svo vel í öðrum löndum, og af þeim ástæðum væri eins hægt að lögleiða þetta hér. Það er nú svo, þegar verið er að vitna í löggjöf annara landa, að þá er oft og einatt farið á hundavaði þar yfir. Ég fyrir mitt leyti get ekki beygt mig fyrir því, þó að vitnað sé í það, að einhver löggjöf hafi gefizt vel annarsstaðar, nema ég hafi góða aðstöðu til þess að athuga þær ástæður, sem þar koma til greina. Það getur vel verið, að þar séu ástæður fyrir hendi, sem ekki eru hér. Löggjöf, sem reynist vel annarsstaðar, getur verið óheppileg hér. Svo er nú alltaf þessi ástæða, þegar verið er að vitna í löggjöf annara landa, að það getur vel verið, að maður hefði verið á móti henni þar líka. Það út af fyrir sig er ekki gild ástæða, að þó að eitthvað hafi verið lögleitt einhversstaðar í veröldinni, þá sé skynsamlegt og gott að lögleiða það hér. Ég held, að við verðum að dæma málið eftir því, hvað við álítum, að það sé heppilegt fyrir okkur, en ekki aðra. Hitt er annað mál, að oft er gott að athuga löggjöf annara landa og fá þaðan hugmyndir, en við verðum að skoða það ofan í kjölinn, hvort sú löggjöf sé heppileg hér á landi eða ekki.

Hv. þm. vildi sýna fram á, að allir græddu á þessu; allir framleiðendur nær og fjær, sem kæmu undir 1., græddu á því og neytendurnir græddu. Ef svo er, væri vissulega mikil ástæða til að samþ. þetta frv.; en það er ekki annað en staðhæfing, sem stendur þarna, og það er eftir að rökstyðja hana. Þegar til rökstuðningsins kom, virtist mér bresta þó nokkuð á, að hann gæti borið uppi þessa staðhæfingu. Það verður erfiðast fyrir meðmælendur þessa frv. að sýna fram á, að framleiðendurnir hér í Rvík græði á þessu. Það er vitanlegt, að undir niðri er tilgangurinn með þessu frv. sá, að bægja þessum keppinautum úr vegi með einhverjum hætti, koma þeim út úr samkeppninni, sem vegna aðstöðu sinnar standa bezt að vígi, þrátt fyrir þá erfiðleika, sem á því er. Það er náttúrlega gott og blessað að segja, að það sé miklu ódýrara að framleiða mjólkina austur í Fljótshlíð en hér í Rvík, en þá er gengið út frá rangri skilgreiningu á því, hvað er að framleiða. Það getur verið, að minna verð komi á mjólkina, þegar hún kemur úr kýrspenanum austur í Fljótshlíð, en til framleiðslunnar heyrir allt frá því að byrjað er á framleiðslunni og þangað til hún er komin til þeirra, sem eiga að nota hana. Þar með verður að telja flutningskostnaðinn, sem er á mjólkinni austan úr Fljótshlíð. Reynslan sýnir, að þegar allt er reiknað með, eru þeir, sem búa á þessu dýra bæjarlandi, hættulegir keppinautar. Þetta frv. er bezta sönnunin fyrir því, því að það er borið fram til þess að leggja á þá þennan skatt, en þeir fá ekki neitt í aðra hönd, og þetta er gert til þess að gera þá jafna í samkeppninni. Þrátt fyrir það, þó að bæjarlandið sé dýrt og þeir eigi við marga erfiðleika að stríða, sleppa þeir við þennan stóra lið í framleiðslunni, sem er flutningurinn á vörunum á neyzlustaðinn, og annað það, sem þeir, er fjær búa, verða að leggja í mikinn kostnað. Að selja mjólk úr fjósinu er kannske aðferð, sem út af fyrir sig má deila um, en það er tvímælalaust, að þegar mjólkin er seld spenvolg úr fjósinu, er hún þrátt fyrir allt heldur ekki eins dýr í framleiðslu eins og hin, sem allur þessi flutningskostnaður leggst á.

Einn megintilgangur með þessu frv. er að koma þessum mönnum undir þennan 5% skatt, til þess að gera þeim erfiðara fyrir um samkeppnina. Á móti þessu eiga þeir svo aftur að græða á því að fá það, sem hv. frsm. kallaði nokkurskonar einkarétt til þess að selja slíka mjólk sem þessa. En því aðeins er hann einhvers virði, að erfitt sé að selja mjólkina án þess að hafa einkarétt. Því er ég ekki nógu kunnugur, en ef framleiðendurnir geta selt sína mjólk fyrirhafnarlaust, hvers virði er þá þessi einkaréttur? Þá fyrst væri hægt að telja þennan svo kallaða „einkarétt“ hlunnindi, ef einhverjar hömlur væru á sölu slíkrar mjólkur hér. En það, sem þeir eiga að fá fyrir þennan skatt, er einskis virði. Tilgangurinn með þessu frumvarpi er enginn annar en sá, að knýja þessa framleiðendur burt úr þessari betri aðstöðu. Það er sagt, að Mjólkurfélag Rvíkur og Thor Jensen, sem eru stærstu framleiðendurnir hér, séu með þessu. Ég hefi nú reyndar dregið það í efa með annan framleiðandann. En ég er hræddur um, að þetta sé of mikil veiðibræði hjá þessum framleiðendum, og sé í raun og veru skammsýni að vilja koma þessu skipulagi á. Ég skal ekki fara lengra út í þetta, því að hv. 4. þm. Reykv. hefir dregið það svo skýrt fram áður, hve ranglátur þessi skattur er gagnvart framleiðendum innan Rvíkur eða þeim, sem selja mjólkina beint frá heimilum sínum til neytendanna.

Ég ætla þá að koma að neytendunum aftur. Ég skal játa það, að það er aðallega þeirra vegna, sem ég er á móti þessu frv., þó það sé líka ósanngjarnt í garð framleiðendanna, og ég er aðallega á móti því vegna þess, að ég er sannfærður um, að sú almenna regla, að neytendurnir líði undir hverskonar skipulagi, sem er á verzlun, á líka við í þessu tilfelli.

Það hefir verið talað um þá hollustuhætti, sem leiða mundi af samþykkt þessa frv., og hv. frsm. útmálaði það, hvílíka ógurlega sjúkdóma gæti leitt af því að leyfa að selja mjólk ógerilsneydda. En ég veit nú ekki betur en að sumir sjúkdómar, eins og t. d. taugaveiki, geti borizt með gerilsneyddri mjólk, og svo er nú eftir þessu frv. leyft að selja ógerilsneydda mjólk. — Það er annars undarlegur þessi feikna áhugi fyrir þessu, en ég þykist vita, að það á ekki að vera tilgangurinn með frv., en Rvík á að vera einskonar mjólkurkýr í þessu tilfelli. Ég get vel skilið, að þeir, sem vilja hafa hana fyrir mjólkurkú, láti sér annt um heilsu þessarar skepnu og vilji sjá um, að hún verði ekki veik, en það ætti að reyna að verja hana gegn öllum sjúkdómum. En sú mjólk, sem seld er beint frá þeim, sem framleiða hana, til neytendanna, er ennþá undanþegin því að verða gerilsneydd, og þess vegna er ómögulegt að framfylgja ströngustu kröfum um sölu mjólkur, þó þetta frv. verði samþ.

Þá var hv. þm. Mýr. að sigla á milli óvættanna Karibdys og Skylla. Hann ætlaðist til þess, að verðið hækkaði þannig, að ekki yrði hætta á mjólkurþurrð. En það er einmitt hætt við því, að það yrði svo mikið framleitt af mjólk, að það mundi leiða til þess, að hún félli í verði, svo að menn yrðu alveg að gefa upp að framleiða hana. Og til þess að varna því, að verði mjólkurþurrð, á að færa verðið upp. Næst á svo, til þess að mjólkurverðið fari ekki upp úr öllu valdi, að setja nefnd. Þetta er gott dæmi upp á það þegar menn eru fyrst að vekja upp draug til þess að geta svo glímt við hann, — að koma fyrst á skipulagi til þess að mjólkurverðið hækki og setja svo nefnd til þess að varna því, að það hækki of mikið. Þetta er gott dæmi upp á kák og inngrip þessara manna inn í hin eðlilegu frjálsu viðskipti, þó að þau séu alls ekki gallalaus.

Þá kom hv. frsm. að því í þessu frv., sem ég hefi hent á, að sé það eina, sem geti komið að gagni, en það er fækkun útsölustaða.

Ef framleiðendurnir eiga að geta fengið meira fyrir sína vöru á sama tíma og neytendurnir eiga að fá vöruna fyrir sama eða lægra verð, þá verður milliliðakostnaðurinn að minnka, og það fæst ekki með öðru en fækkun sölubúða, sem óneitanlega eru óþarflega margar. En það má þó ekki fara út í neinar öfgar, það má ekki fækka þeim svo mikið, að það verði neytendunum til óþæginda. Það eru fjölmörg heimili, sem ekki kaupa svo mikla mjólk eftir föstum pöntunum, að ekki þurfi að sækja mjólk á daginn. Þá eru það mikil þægindi, að stutt sé að fara, því að oft eru send smábörn eftir mjólkinni eða þá að konan verður að fara, og þá oft frá aðkallandi verkum. Undir þessum kringumstæðum er mikils virði að þurfa ekki að fara nema nokkurra mínútna gang. En það er ekkert unnið við það að hafa hverja búðina við aðra, eða þá hverja á móti annari við sömu götu. — En skipulagið á verzluninni er ekki allra meina bót. 4 einokunartímunum vantaði ekki skipulagið á verzluninni, þá voru ekki verzlanirnar of margar hér á landi. Þá þurfti ekki að kvarta undan milliliðunum, að þeir væru of margir, þegar sækja þurfti í kaupstað frá Kalmanstungu til Skagastrandar. Með þessu er nærri komið út í svipaðar öfgar, ef á að hafa svo fáar búðir, að til óþæginda verði fyrir neytendurna. Þegar framleiðandinn er búinn að fá málið svo í sínar hendur, eins og hér um ræðir, þá beitir hann öllum ráðum, sem hann getur til þess að hafa kostnaðinn sem minnstan, og fyrir neytandann er ekki í annað hús að venda en til þessa sterka samlags, sem á að spenna 200 kílómetra út frá bænum. Ég skil ekki, hvers vegna það á ekki að ná yfir 500 kílómetra, svo að það nái yfir allt landið og landhelgina líka, svo ekki verði farið að rækta kýr úti í móðurskipum! Ég býst við því, að framleiðendurnir í þessu stóra samlagi geti orðið alldigurharkalegir við neytendurna í allri sinni framkomu. Reynslan hefir ávallt verið sú, að með því að gefa kaupmanninum of mikið vald, þá kemur það fram á neytendunum. Það kemur fram í því, að hann hættir að dekra við kaupandann, þegar kaupandinn hefir ekki í annað hús að venda.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta. Ég tel langsamlega aðalókost frv., fyrir utan þetta sterka skipulag, sem ég er hræddur um, að verði neytendunum til óþæginda, þennan skatt, sem á að leggja á, og teldi ég frv. stórum aðgengilegra, ef hann væri felldur burt, því að ég sé ekki betur en að það sé rétt, sem ég sagði um það í minni fyrstu ræðu, er ég flutti um þetta mál, að þar væri sumpart um kúgun og sumpart um hreinan fjárdrátt að ræða, þegar leggja á skatt á menn, er svo rennur í sameiginlegan sjóð, sem þeir hinir sömu menn hafa ekki aðgang að eftir eigin þörfum, eins og aðrir, sem greiða skatta.