19.05.1933
Neðri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2581 í B-deild Alþingistíðinda. (4146)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þá er þar til að taka, sem fyrr var frá horfið. Það eru nokkur atriði, sem ég vil svara þeim hv. þm. Reykv., sem talað hefir í þessu máli síðan ég lauk máli mínu í gær.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði það um heilbrigðishlið þessa máls, að henni væri komið í svo góða höfn undir handleiðslu bæjarstjórnarinnar, að það þyrfti enga sérlöggjöf til að tryggja það betur. Það er nú ekki betur tryggt ennþá en það, að nokkuð mikill hluti þeirrar mjólkur, sem seld er hér í bænum, er seld beina leið frá heimilunum víðsvegar utan af landi, eins og hún kemur fyrir, og er vitanlega upp og ofan með þá sjúkdómshættu, sem fylgir þeirri mjólk, er framleidd er eftirlitslaust hvar sem vera skal, og seld er eftirlitslitið. Auk þess tíðkast fjóssala á mjólk hér í bænum, svo að það er alls ekki hægt að segja, að heilbrigðiseftirlitið á þeirri mjólk, sem bæjarbúar kaupa, sé komið í það fyrirmyndarlag, að þar þurfi alls engu við að bæta.

Þá er það eitt atriði, sem þessir hv. tveir þm. Reykv. hafa sérstaklega snúið sér að og veit að framleiðendunum hér í bænum. Þeir vilja halda því fram, að þessi verðjöfnunarsjóðsskattur, sem gert er ráð fyrir að leggja á mjólkina, sé eingöngu stílaður gegn framleiðendunum hér í bænum, og komi aðallega niður á þeim, og sé í þeim tilgangi settur, að þvinga þá út af markaðinum. En það er mjög fjarri því að svo sé. Fyrst og fremst kemur þessi verðjöfnunarsjóðsskattur ekki sérstaklega niður á þessum mönnum, heldur á öllum, sem selja mjólk til þessa bæjar, jafnt hvort sem þeir eru búsettir á bæjarlóðinni eða ekki. Sú betri aðstaða, sem þeir hafa, er hér búa, helzt alveg jafnt eftir sem áður, þó þetta frv. verði samþ.

Ég skal þá aðeins benda á nokkur atriði í þessum aðstöðumun hjá framleiðendum hér í bænum og framleiðendum uppi í sveit, sem er þrátt fyrir það, þó að dýrara sé að framleiða mjólkina hér, og sem helzt alveg jafnt eftir sem áður, þó þetta frv. verði samþ.

Skal ég þá fyrst benda á nokkra kostnaðarliði, sem falla á framleiðsluna utan Rvíkur. Það er þá fyrst og fremst flutningsgjaldið til bæjarins, sem er til jafnaðar um 2 aur. á lítrann. Sölukostnaður í búðum, sem er að jafnaði 8 aur. á lítrann og hefir komizt upp í 12 aur. Þar eru komnir a. m. k. 10 aur. Þá er gerilsneyðingargjald, sem leggst á hvern lítra, 5 aur. Þarna eru komnir 15 aur., sem leggjast sérstaklega á þá mjólk, sem framleidd er utan Rvíkur, sem flutt er hingað og seld hér í bænum, en flestir framleiðendur hér í Rvík og nágrenni hafa losnað við með því að selja mjólkina beint til neytendanna. En þessi betri aðstaða framleiðenda hér og í nágrenni, sem selja mjólkina beina leið til neytendanna, helzt alveg jafnt eftir sem áður, hvort sem verðjöfnunarsjóðsskatturinn er lagður á eða ekki. Og þeir hafa alveg sömu tilverumöguleika borið saman við utanbæjarmenn, því að þetta 2 aur. gjald kemur jafnt niður á þá, sem flytja mjólkina hingað, og á þá, sem hér búa. En auk þess vil ég benda á það, að þeir gefa ekki þetta gjald, sem hér er svo mikið um rætt, fyrir ekki neitt. Þeir gefa það frá sér fyrir það að hafa tryggingu fyrir að geta selt alla sína mjólk. Því að mjólkurbúin austanfjalls víkja af mjólkurmarkaðinum og gefa hinum, sem nær eru, hann eftir. Þetta vil ég segja að sé undir flestum kringumstæðum meira en tveggja aura virði á lítra, því að þótt hv. 3. þm. Reykv. vilji halda því fram, að þessir menn selji alla sína mjólk fyrirhafnarlaust, þá er langt frá því, að svo sé, því að suma tíma ársins hafa þeir lent í vandræðum með að koma mjólkinni út og orðið að koma henni í mjólkurbúðir fyrir uppsprengt verð, jafnvel fyrir 12 aur. á lítra, og þar að auki eru sumir að reyna að vinna úr mjólkinni til þess að geta gert sér eitthvert verð úr henni. En ef þeim nú tekst að koma allri sinni mjólk út, þá mun það sýna sig, að þeir fá þar nokkuð í aðra hönd. Ég er því sannfærður um það, að reynslan mun sýna það, að það borgar sig fyrir þá að leggja á sig þetta litla vátryggingargjald fyrir það að geta komið út allri sinni mjólk. Auk þess verður með þessum samtökum hægt að reisa skorður við því, að verðið fari niður úr öllu valdi, sem hóflaust og vitlaust framboð getur orkað, og hvorki er framleiðendum né neytendum til gagns þegar til lengdar lætur. Ég held því, að þær falli alveg, þær röksemdir, sem áttu að sanna það, að með þessu móti mundi öll ræktun kringum bæinn leggjast niður, heldur þvert á móti býst ég við, að þessi atvinnurekstur verði engu ótryggari eftir að þessi lög eru samþ. heldur en áður.

Þetta eru nú aðalandmælin gegn þessu frv. fyrir hönd þeirra framleiðenda, sem hér búa. Og út af þessu er svo sprottin sú brtt., sem hv. 4. þm. Reykv. flytur á þskj. 684. Og ég er vitanlega út frá því, sem ég hefi sagt, algerlega mótfallinn þessari brtt. Ég álít hana rangláta, og auk þess mundi hún leiða af sér afskaplegt misrétti, því að það yrði til þess, að ýmsir menn hér í nærsveitunum, sem hefðu aðstöðu til þess, mundu flytja kýr sínar inn á bæjarlóðina og reka bú sín þar að nokkru leyti til að nota sér sérréttindi þau, sem veitt yrðu fyrir þá mjólk, sem framleidd er hér í bænum, ef brtt. hv. 4. þm. Reykv. yrði samþ. Og það mundi hefjast kapphlaup um þetta á milli þeirra bænda, sem aðstöðu hefðu til þess, en þá er hætta á of miklu framboði á þeim markaði, beinu sölunni til neytendanna, sem þessum mönnum er sérstaklega ætlaður, og þannig kæmi þetta óbeinlínis þeim sjálfum í koll.

Mér skildist, að hv. 3. þm. Reykv. álíti, að það, sem ég sagði um þá hollustuhætti, sem leiða mundi af þessu skipulagi, væri bara yfirskinsástæða hjá mér, þar sem það kæmi fram í frv., að eftir sem áður ætti að heimila að selja nokkurn hluta af mjólkinni ógerilsneydda. Ég skal játa, að þetta er galli. Ég hefði langhelzt kosið, að gerilsneyðingarskylda hefði hvílt á allri mjólk, sem seld er í bænum, en þetta var gert til samkomulags við þá menn, sem eru umbjóðendur þessa hv. þm. En ég vil þó segja það, að þar, sem svo er um búið, að það verður að selja mjólkina beint í ákveðin hús, þá er sýkingarhættan miklu minni heldur en þegar mjólk frá mörgum heimilum er blandað saman í eina stóra kollu og seld síðan um allan bæinn. Það gætu orðið afbragðs útbreiðslustöðvar fyrir allskonar sjúkdóma, t. d. taugaveiki, þó ekki kæmi upp nema á einu einasta heimili. En þegar búið er að koma á þeim breyt., sem hér er gert ráð fyrir í frv., er hægra að koma í veg fyrir þau sýkingartilfelli, er gætu gert vart við sig öðruhverju, heldur en með því fyrirkomulagi, sem nú er á þessum málum.

Þá var það eitt atriði, sem hv. 4. þm. Reykv. lagði mikið upp úr. Hann sagði, að þeir, sem selja sína mjólk hér í bænum, væru skattlagðir til framdráttar þeim, sem fjær eru og ekki geta notið sömu aðstöðu. Hann sagði, að það yrði einkum til þess að hleypa ofvexti í mjólkurframleiðsluna utan Rvíkur, og það kæmi framleiðendunum sjálfum í koll, því að þeir gætu ekki haldið verðinu uppi af þeirri ástæðu. Ég held, að þetta mundi einmitt verka öfugt. Með því kapphlaupi, sem nú er um markaðinn í Rvík, þá er einmitt miklu meiri hætta á slíku framboði, sem gæti orðið til þess, að erfitt væri að halda mjólkinni í skynsamlegu verði, heldur en þegar samkomulag er orðið um það að flytja ekki meira af mjólk inn á þennan markað en þörf krefur á hverjum tíma. Þá er einmitt þeim, sem framleiða mjólk hér, betur tryggð aðstaða til þessarar framleiðslu með því verði, að hún geti borið uppi heilbrigðan búrekstur. Þessi löggjöf mun því verka þvert á móti því, sem hv. 4. þm. Reykv. vildi halda fram.

Um aðstöðu neytendanna er fátt nýtt að segja frá því, sem áður hefir verið gert. Ég er alveg sannfærður um það, að þeirra aðstaða verður á engan hátt lakari, heldur á margan hátt betri. Þeim er tryggð holl og góð mjólk, þeim er einnig tryggð næg og jöfn mjólk, og þeim er tryggt með ákvæðum laganna um verðlagsnefnd hæfilegt verð á mjólkinni. Það er engin hætta á því, að verðlagsnefndin héldi því verði á mjólkinni, sem að álíti alls þorra manna væri of hátt. Þeir mundu líta til neytendanna með þeirri sanngirni, sem líka er sjálfsagt að gera. Það er því engin hætta á, að þessi samtök verði neytendunum neinn ofjarl, og er ástæðulaust fyrir hv. 3. þm. Reykv. að vera að óttast slíkt.

Um þær brtt., sem ég gat um í gær, að undanþiggja sölu á rjóma, vil ég segja það sama og þá, að ég álít frv. einskis virði, ef þær ná fram að ganga, enda hygg ég, að hv. flm. ætli að taka þær aftur.