19.05.1933
Neðri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2585 í B-deild Alþingistíðinda. (4148)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Sveinbjörn Högnason [óyfirl.]:

Þar sem ég legg mikla áherzlu á, að þetta mál verði leyst nú á þessu þingi, þá mun ég ekki viðhafa neitt málþóf; heldur vera mjög stuttorður. Ég vil aðeins taka það fram um brtt. á þskj 723, sem ég er flm. að, að ég flutti hana með það fyrir augum, að nauðsyn bæri til að tryggja þeim mönnum, sem ekki eru í mjólkursamlaginu, að ekki lokuðust fyrir þeim allir möguleikar til þess að selja mjólkurframleiðslu sína. Nú hefir það komið í ljós í þessum umr., að ef þessi brtt. nær fram að ganga, þá mundi það draga úr gagnsemi frv., og hafa verið færð sterk rök fyrir því, að svo yrði. Hinsvegar hefi ég fengið upplýsingar frá stjórn mjólkurbúanna, að hún er fús til að veita móttöku rjóma frá þeim framleiðendum, sem ekki geta nema nokkurn hluta árs náð til markaðsins. Verður þeim sýnd fyllsta sanngirni í þessu efni. (PHalld: Fyrir hvaða verð verður keypt af þeim?). Það er ekki hægt að segja neitt ákveðið um það enn, en þeim verður tryggt sanngjarnt verð fyrir sína vöru. Að þessu athuguðu höfum við flm. orðið ásáttir um að taka aftur brtt. á þskj. 723.